Frárennsli sumarhúsum – Betri lausnir

Heimild: 

.

Maí 1997

Vorið er komið og grundirnar gróa

Hvaða tækni á að nota í frárennslis- og umhverfismálum í sumarhúsalöndum. Það kunna að vera betri lausnir á næsta leiti, en þótt hafa sjálfsagðar til þessa.

Enginn getur ábyrgst að síðasta vorhretið sé að baki, það ætt um við að vita af reynslunni. En dagatalið segir okkur að vorið sé komið og ekki þurfum við að kvarta yfir aprílmánuði, þar voru margir hlýir dagar, óvenjuhlýir dagar. Þegar þessi árstími kemur fer fiðringur í marga, senn er kominn tími til að sinna garðinum ef þau störf eru ekki þegar byrjuð.

Sumarbústaður er ennþá talsverður munaður og ekki á allra færi að eignast, hinsvegar eru það fleiri og fleiri sem fá möguleika á að dvelja í sumarbústað í fögru umhverfi þó viðkomandi eigi engan. Það þykir orðið sjálfsagt að félög af öllu tæi eigi bústað eða bústaði og leigi félögum fyrir vægt gjald. Að sjálfsögðu er fagurt umhverfi skilyrði en ef heitur pottur er ekki á staðnum er dvölin ekki fullkomin.

Er tæknin í lagi?

Það er með ólíkindum hvað sumarbústaðir hafa sprottið upp með miklum hraða á ákveðnum svæðum, Grímsnes, Biskupstungur og Borgarfjörður, á þessum stöðum eru flestir bústaðir félaga og samtaka en við Þingvallavatn er tæplega um sumarbústaði almennings að ræða.

Í flestum sumarbústaðalöndum er náttúran og umhverfið viðkvæmt, skyndilega rísa heil þorp á stuttum tíma. Flest eru þessi svæði alllangt frá sjó svo ekki er hægt að leysa frárennslismálin á sama hátt og í þéttbýli við sjávarsíðu með því að fara eftir gamla spakmælinu „lengi tekur sjórinn við“.

Þetta spakmæli má vissulega draga í efa og það hefur áður verið minnst á það í pistlunum að ef til vill séum við að kasta frá okkur verðmætum sem náttúran á rétt á að fá aftur á annan hátt og til annarra svæða, ekki til sjávar. En hefur einhver samræmd stefnumótun sveitarfélaga og byggingaryfirvalda farið fram til að finna hvað hentar best í frárennslismálum í sumarbústaðabyggðum?

Er vatnssalernið lausn allra vandamála? 

Tilkoma vatnssalernis var mikið framfaraspor á sínum tíma og er efalaust búið að leysa mikið og stórt vandamál og ekki síður að koma í veg fyrir margar og jafnvel mannskæðar pestir.

En tilkoma þess hefur orðið til þess að það er sama hvar maðurinn byggir sér hýbýli, hvort sem það er ársbústaður í þéttbýli eða sumarbústaður, þá er lausnin alltaf eða næstum því alltaf vatnssalerni. Það skiptir engu hvort um eitthvert frárennsliskerfi er að ræða eða ekki, sé það ekki til er sett niður rotþró og þá telja allir að lausnin sé fundin um aldur og ævi.

En myntin hefur ætíð tvær hliðar og það er mikil spurning hvort vatnssalerni er rétta lausnin í sumarbústað. „Á nú bara að senda mann á útikamar“ kann einhver að spyrja. Útikamar er búinn að bjarga mörgum þegar þörfin var mikil í gegnum tíðina og hann gerði meira gagn en það; hann varðveitti það sem frá mannskepnunni kom og því var ætíð skilað til náttúrunnar aftur með rentum og renturentum. En það hefur orðið mikil þróun í gerð þurrsalerna og þar sitjum við Íslendingar aftarlega á merinni.

Þurrsalernið getur verið eins hreinlegt og vatnssalernið en það hefur til að bera hinn stóra kost gamla kamarsins, »hann breytir því sem í það fer í magnaðan áburð sem enginn þarf að skammast sín fyrir. Umbreytingin á úrganginum tekur nokkuð langan tíma, jafnvel allt upp í tvö ár. Margir sumarbústaðaeigendur eru ákafir skógræktarmenn eða leggja sitt af mörkum til að græða landið á annan hátt svo fyrir marga væri þessi „áburðarframleiðsla“ sem himnasending.

Við höfum verið að halda ráðstefnur um alla mögulega þætti í lagnamálum á undanförnum áratug en það er spurning hvort ekki er kominn tími til að ræða hvaða tækni á að nota í frárennslis- og umhverfismálum í sumarhúsalöndum. Við verðum að hætta að hugsa þannig að að allt sé sjálfgefið, svona hefur þetta alltaf verið gert og þá höldum við því að sjálfsögðu áfram. Það kunna að vera betri lausnir á næsta leiti.

Fleira áhugavert: