Plaströr anda – Rétt rör, réttar lausnir

Heimild: 

Júní 1997

.

Plaströr geta andað

Plaströr geta andað Umræðan um hættuna af súrefnisupptöku vatns í plaströrum er oft deila um keisarans skegg. Aukum þekkingu okkar og notum rétt rör og réttar lausnir á réttum stað.

Það er segin saga að þegar hörmungar eins og stórstyrjaldir herja á mannkynið hefur það í för með sér miklar framfarir í hverskonar tækni, heimsstyrjaldirnar tvær á þessari öld eru vitni um það, einkum sú síðari. Eitt af því sem sem tók stórstígum framförum á árum seinni heimsstyrjaldar og fyrstu árunum að henni lokinni, voru hverskonar gerviefni og sérdeilis sá víðtæki flokkur efna sem kallast plast. Gúmmí var notadrjúgt en framleiðslan takmörkuð og þess vegna var mikil áhersla lögð á að þróa gerviefni sem gæti komið í þess stað að einhverju leyti, hins vegar heldur gúmmíið velli á ýmsum sviðum og mun líklega gera framvegis. Fljótlega eftir stríð og raunar fyrr, var farið að búa til rör úr plasti og í dag finnst líklega flestum fáránlegt að hugsa sér lífið án plaströra, hvort sem það er til lagna í hús, til að tengja eldhúsvaskinn og þvottavélina eða til að vökva garðinn. „Sterku“ rörin Þegar kom fram á öldina, uppúr 1960, var kominn verulegur skriður á þróun og framleiðslu plaströra. Rör til notkunar fyrir kalt vatn voru þá orðin nokkuð algeng, meira að segja hér á landi en þá var framleiðsla svörtu polyeten röranna hafin á Reykjalundi.

En þá hófst fyrir alvöru þróun og framleiðsla röra úr gerviefnum sem þyldu hærri hita ásamt nokkrum þrýstingi. Í Evrópu fóru einna fremstir Svíar og voru það aðallega tvennskonar rör sem voru þróuð, annarsvegar pexrörin sem eru mikið notuð í dag, hins vegar rör úr gervigúmmíi sem sænsku hjólbarðaverksmiðjurnar Gislaved framleiddu og kölluðu „Strongrör“, þeir hafa alltaf verið svolítið snobbaðir fyrir enskunni blessaðir Svíarnir. Það mun hafa verið á sjöunda áratugnum sem Gislaved verksmiðjurnar settu þessi rör á markað bæði til hita- og neysluvatnslagna og kynntu þau á vörusýningu í Stokkhólmi með pomp og prakt. Tæknimenn og húsbyggjendur tóku „strongrörunum“ fagnandi, strax á fyrsta ári voru þau notuð í fjölmörg hús en líklega eingöngu í Svíþjóð, ekki er vitað til að þessi rör hafi verið notuð hérlendis. Það leið ekki á löngu þar til pexplaströrin komu á markað, en það eru plaströr úr nákvæmlega sama efni og svörtu kaldavatnsrörin frá Reykjalundi, en með vissum „göldrum“ í framleiðslunni eru þau gerð sterkari á þann hátt að þau þola miklu heitara vatn við háan þrýsting. Þau eru það sem kallað er krossbundin, þó enginn sé í þeim vefnaðurinn nema efniseindirnar sjálfar, þessvegna kallast þessi rör pex þar sem pe þýðir polyeten en x þýðir krossbundið. En nóg um þessa krossbundnu tækni.

Hvað er að gerast í ofnunum? Svo leið nokkur tími, fá ár í mesta lagi, en þá þá fóru að gerast dramatískir atburðir. Sitjandi yfir rauðvíni, ostum og kertaljósum vissu hjónin ekki fyrr en eins og nagli væri rekinn í miðstöðvarofninn og vatnið sprautaðist yfir ostinn. Húsbóndinn steig í vatnspoll þegar hann fór fram úr rúminu að morgni, hvað var að gerast, þó öll börnin hefðu pissað undir um nóttina gat það ekki haft þessi ósköp í för með sér. Vítt og breitt um Svíþjóð var sömu sögu að segja, ofnar byrjuðu að sprauta úr sér vatni um agnarlítil göt, hvað var að gerast, voru allir ofnar framleiddir úr gölluðu stáli? Sökudólgurinn finnst Þá fyrst gerðu vísir menn sér grein fyrir að rör úr plasti og öðrum gerviefnum „anda“ þau eru ekki alveg hundrað prósent þétt, sem hefur það í för með sér að vökvinn sem rennur eftir rörunum tekur í sig örlítið af loftinu sem umlykur rörin að utanverðu og auðvitað fyrst og fremst súrefni. Með tímanum hleðst upp súrefni í vatninu og að lokum fer það að hafa áhrif á málminn í ofnunum, þar verða til þær forsendur sem þarf til að stál geti tærst, raki og súrefni eru ógnvaldur þegar þau ná saman.

Af þessu leiðir að plaströr geta einnig tekið lykt í gegnum rörvegginn og varast verður að leggja um rými þar sem sterk lykt er af einhverjum efnum, lyktin finnst þá jafnvel af vatninu. Þekkt er sagan úr Hrísey þar sem mykjan frá holdanautunum var notuð til að einangra plastlögn í hitaveitu utanhúss, í hvert sinn sem skrúfað var frá heitavatnskrana gaus upp mykjulykt. Enn eitt dæmið um að maðurinn verður að reka sig á til að skilja eðli hlutanna en það er nú einu sinni óaðskiljanlegt frá allri framþróun. En nú kann einhver að spyrja „á þetta við um pexrörin sem nú er rekinn áróður fyrir að notuð séu í stað gömlu snittuðu lagnanna eða eirröranna sem ekki á að nota á vissum hitaveitusvæðum, svo sem á höfuðborgarsvæðinu“? Svarið er bæði já og nei, þetta á við pexrörin óvarin en auðvitað sigruðust tæknimenn á þessari hindrun. Öll pexrör sem nú eru notuð til miðstöðvarlagna eru með sérstakri himnu sem algjörlega kemur í veg fyrir að súrefni geti þrengt sér inn í vatnið í gegnum rörvegginn, eftir að þessi lausn fannst eru ofnarnir hættir að tærast innanfrá.

Eftir því sem þekking á eiginleikum plaströra eykst hérlendis verður umræðan um súrefnisupptökuna háværari og allir sem vinna við þessar lagnir, bæði sem hönnuðir og lagnamenn, vilja vita hvað má og hvað má ekki, hvað er óhætt og hvað ekki. Menn benda á að það er búið að leggja heilu hitaveiturnar úr plastlögnum og hvað gerist þar, taka þau rör ekki upp súrefni? Það gera þau eflaust í litlu magni en það er algjörlega hættulaust vegna þess að margar hitaveitur hreinsa súrefnið burt, í öðru lagi eru aðstæður þær að nánast öll okkar hitakerfi eru þannig að vatnið er einnota ef svo má að orði komast, það fer inn á ofnana, kólnar og rennur út úr hitakerfinu og út í frárennsli.

Í þessum kerfum verður engin uppsöfnun á súrefni, auk þess má nefna að hjá Hitaveitu Reykjavíkur er brennisteinn í vatninu sem „étur“ súrefni. Ef hinsvegar hitakerfið er með millihitara, þá er alltaf sama vatnið á hitakerfinu sem hitað er með hitaveituvatninu án þess að það snertist beint eða blandist. Í slíkum kerfum er hægt að leysa málið með því að nota plaströr með súrefnisvörn, svo einfalt er það. Sú mikla umræða sem oft verður á milli tæknimanna um hættuna af súrefnisupptöku vatns í plaströrum er því oft deila um keisarans skegg, lausnin er að auka sína eigin þekkingu og nota rétt rör og réttar lausnir á réttum stað.

Fleira áhugavert: