Sturtur í sundlaugum – Öryggistækin í lagi?
Ágúst 1997
Ei veldur sá,er varar
Það kostar að sjálfsögðu peninga að setja sjálfvirk blöndunartæki á hverja sturtu í sundstöðum. Það er samt í raun ótrúlega lítið miðað við öryggið, sem tækin veita.
Menn bregða undir sig betri fætinum um fleiri helgar en verslunarmannahelgina, sumarið er stutt hérlendis og um að gera að reyna að njóta þess meðan færi gefst. Eitt af því sem er snar þáttur í ferðamennsku landans innanlands er að sækja sundstaði og líklega eru fáar þjóðir með jafn gróna hefð fyrir sundi og Íslendingar. Að sjálfsögðu er það okkar ríkulega náttúruauðlind, jarðhitinn, sem er hvatinn að sundhefðinni. Það finnst tæpast sú sveit eða byggð hérlendis að þar sé ekki sundlaug sem stendur undir nafni, með mátulega heitu vatni en ekki drullukaldur pollur eins og margar sundlaugar erlendis. Auk þess eru víða heitir pottar og eimböð eða sánur, allt sælureitir fyrir þreytta ferðamenn. En það fer ekki hjá því að athugull ferðamaður verði var við andvaraleysi ef ekki beinlínis vítavert kæruleysi í öryggismálum á sundstöðum víðs vegar um landið. Hættulegir staðir Á síðustu árum hafa orðið hörmuleg brunaslys þar sem orsökin hefur verið of heitt vatn, aðallega í heitum pottum. Vonandi hefur þetta orðið til þess að bætt hefur verið úr því sem er ábótavant því það er mjög auðvelt.
Eitt óhapp hefur orðið í sumar í sundlaug þar sem innrennslisvatn var of heitt en ennþá fer ekki sögum af því að neinn hafi brennt sig af of heitu vatni í sturtum við sundlaugar. Það má þó teljast mikil heppni því þeir sundstaðir eru ótrúlega margir vítt og breitt um landið þar sem blöndunartæki í sturtum eru handvirk og það meira að segja á stöðum þar sem heita vatnið er allt að 90 gráðu heitt. Á slíkum sundstöðum hafa sumstaðar verið hengdar upp aðvaranir, jafnvel á fleiri tungumálum en íslensku, þar sem hættunni er lýst og baðgestum bent á að skrúfa fyrst frá kalda vatninu og blanda síðan með því heita. Það verður að segja það umbúðalaust að þetta er engin trygging gegn slysum, það eina sem er fullkomlega öruggt er að ganga þannig frá sturtunum að enginn möguleiki sé til að nokkur gestur geti fengið yfir sig það heitt vatn að skaði geti orðið. Hvað er til ráða? Ráðin eru til og þau kosta ekki mikið, þarna ræður kæruleysið ríkjum.
Það virðist vera þjóðarárátta hérlendis að grípa ekki til forvarna fyrr en eftir svo og svo mörg slys, jafnvel mannslíf. Enn er fólk að örkumlast af einberu kæruleysi svo sem því að spenna ekki beltin áður en lagt er í ökuferð. Það kostaði mörg mannslíf áður en tókst að berja það í gegn að settar væru öryggisgrindur á dráttarvélar og svo mætti lengi telja. Að setja sjálfvirk blöndunartæki á hverja sturtu í böðum við sundstaði kostar að sjálfsögðu peninga en í raun ótrúlega lítið þegar litið er á hve mikið öryggi tækin veita. Það er einnig hægt að tryggja öryggið á einfaldari hátt og kannski ódýrari; að setja eitt og stærra sjáfvirkt blöndunartæki á heitu vatnsleiðsluna fyrir baðið í heild. Þannig er hægt að blanda heita vatnið niður í t. d. 55 gráður og síðan getur hver og einn blandað hæfilega fyrir sig eftir eigin vali. Aðalatriðið er að aldrei geti runnið heitara vatn úr sturtu en svo að það skaði ekki þann sem undir bununni stendur.
Ef þeir sem sundstaðina reka og bera ábyrgðina gera ekkert í þessum bráðnauðsynlegu öryggismálum verða rétt yfirvöld að grípa inn í og þvinga þá til að gera úrbætur. Það má einnig spyrja hvort nokkur úttekt hefur verið gerð á öryggismálum sundstaða hérlendis að þessu leyti, hafa menn einblínt of mikið á þá þætti eingöngu sem valdið hafa slysum? Best er að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í. ÞAÐ er ljúft að láta vatnið streyma yfir sig, en það getur leynst höggormur í Paradís ef öryggistækin eru ekki í lagi.