Rammaáætlun – 3. áfangi, 2013-2017, virkjunarkostirnir

Heimild: 

 

3. áfangi rammaáætlunar, 2013-2017

Inngangur

Áður en vinna getur hafist af fullum krafti við að meta virkjunarkosti vegna 3. áfanga rammaáætlunar þarf að liggja fyrir hvaða virkjunarkosti skal fjallað um. Það er í höndum Orkustofnunar að auglýsa eftir umsóknum um umfjöllun virkjunarkosta og var það gert 1. október 2013. Frestur til að skila inn umsóknum var framlengdur með auglýsingu þann 16. október 2013. Fjölmargar umsóknir bárust, eins og lýst er í frétt sem birtist á vef rammaáætlunar þann 25. mars 2014.

Orkustofnun ber, samkvæmt lögum um rammaáætlun, að ganga úr skugga um að gögn sem orkufyrirtækin skila inn um virkjunarkosti vegna umfjöllunar í rammaáætlun, séu rétt og fullnægjandi og fer stofnunin þar eftir ákvæðum reglugerðar um virkjunarkosti.

 

Skilgreiningar virkjunarkosta undirbúnar

Þann 20. janúar 2015 birti Orkustofnun lista á heimasíðu sinni yfir kosti til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar. Upphaflega áttu kostirnir að verða 88 talsins og voru gögn fyrir þá 50 fyrstu afhent verkefnisstjórn með formlegum fundi hinn 21. janúar 2015. Tveir þessara kosta voru síðar dregnir til baka af Orkustofnun og fallið var frá framlagningu þriggja annarra virkjunarkosta. Þann 20. febrúar lagði stofnunin fram skilgreiningar á 33 nýjum virkjunarkostum og lágu þá fyrir gögn vegna 81 virkjunarkosts. Enn var þá að vænta gagna frá Landsvirkjun vegna tveggja virkjunarkosta í vindorku og einnig var enn unnið að skilgreiningu á einum kosti í jarðvarma. Sá kostur var síðar dreginn til baka, eins og tilkynnt var í erindi til verkefnisstjórnar þann 6. mars 2015. Við sama tækifæri var útbúinn listi yfir þá virkjunarkosti sem Orkustofnun hafði afhent verkefnisstjórn rammaáætlunar til umfjöllunar, flokkaða eftir vatnsafli og jarðvarma.

Virkjunarkostir í vindorku koma í fyrsta sinn til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar. Landsvirkjun afhenti Orkustofnun skilgreiningar á tveimur slíkum, Búrfellslundi og Blöndulundi, í mars 2015 og var þeim komið áleiðis til verkefnisstjórnar með erindi frá stofnuninni þann 12. mars 2015.

 

Breytingar á virkjunarkostum í faglegri umfjöllun hjá faghópum 11. mars 2015 – 19. nóvember 2015

Í frétt frá 11. mars 2015 á vef rammaáætlunar er gerð grein fyrir ákvörðun verkefnisstjórnar um hvernig skuli meðhöndla þann 81 virkjunarkost sem Orkustofnun hafði á þeim tímapunkti afhent verkefnisstjórninni. Í stuttu máli ákvað verkefnisstjórnin að vísa 24 kostum til faglegrar umfjöllunar hjá faghópum. Tuttugu og þrír kostir í orkunýtingar- og verndarflokki verða þar áfram þar sem forsendur hafa ekki breyst umtalsvert frá 2. áfanga rammaáætlunar. Faghópar 1 og 2 voru beðnir um álit á því hvort forsendur fimm virkjunarkosta hefðu breyst að því marki að þá bæri að meta að nýju. Varð það niðurstaða faghópanna að ekki væri um verulegar forsendubreytingar að ræða og því verða umræddir virkjunarkostir áfram flokkaðir eins og þeir voru í 2. áfanga rammaáætlunar. Eftir standa þá 29 virkjunarkostir sem verkefnisstjórn hefur ekki tekið afstöðu til enn.

Þann 17. mars 2015 var faghópum falið að fjalla um vindorkukostina tvo sem Landsvirkjun sendi inn til umfjöllunar, þ.e. Búrfellslund og Blöndulund.

Alþingi samþykkti 1. júlí 2015 ályktun þess efnis að Hvammsvirkjun yrði flutt í orkunýtingarflokk. Hún er því ekki lengur í faglegri umfjöllun hjá faghópum.

Hinn 1. september 2015 sendi Orkustofnun verkefnisstjórn erindi varðandi breytingu á tilhögun Búðartunguvirkjunar. Hin nýja tilhögun felur í sér aðra útfærslu á frárennsli frá stöðvarhúsi og er auðkennd sem R3134B Búðartunguvirkjun.

Í frétt á vef rammans þann 27. nóvember 2015 er sagt frá erindi ON til Orkustofnunar dagsett 10. nóvember 2015 þar sem fyrirtækið benti á ýmsa vankanta á orðanotkun og skilgreiningum hugtaka í tengslum við ákveðna virkjunarkosti sem félagið hefur á sínum snærum. OR og ON uppfærðu í ljósi þessa afmarkanir svæða fyrir orkukostinn R3269B Meitillinn, auk þess að leggja til nýja tilhögun fyrir virkjunarkostinn R3271B Hverahlíð II í stað R3271A Hverahlíð. Nýtingarleyfi fyrir orkukostina R3270A Gráuhnúka og R3271A Hverahlíð, sem flokkaðir voru í orkunýtingarflokk í 2. áfanga rammaáætlunar, var gefið út af Orkustofnun þann 2. nóvember 2015. Orkustofnun fór þannig fram á að verkefnisstjórn tæki uppfærð gögn um virkjunarkostina R3269B Meitil og R3271B Hverahlíð II til umfjöllunar í stað fyrri tilhögunar. Þá féllu út virkjunarkostirnir R3270A Gráuhnúkar og R3271A Hverahlíð.

 

Virkjunarkostir í faglegri umfjöllun hjá faghópum

Virkjunarkostirnir sem faghópar hafa fengið til faglegrar umfjöllunar eru eftirfarandi, m.v. 19. nóvember 2015:

(smella á hér að neðan til að sjá nánar, .pdf skjöl)

  1. Skatastaðavirkjun

    R3107C Skatastaðavirkjun C

  2. R3107D Skatastaðavirkjun D
  3. R3108A Villinganesvirkjun
  4. R3109A Fljótshnúksvirkjun
  5. R3110A Hrafnabjargavirkjun A
  6. R3110B Hrafnabjargavirkjun B
  7. R3110C Hrafnabjargavirkjun C
  8. R3119A Hólmsárvirkjun – án miðlunar
  9. R3121A Hólmsárvirkjun neðri við Atley
  10. R3126A Skrokkölduvirkjun
  11. R3130A Holtavirkjun
  12. R3131A Urriðafossvirkjun
  13. R3134B Búðartunguvirkjun
  14. R3139A Hagavatnsvirkjun
  15. R3140A Búlandsvirkjun
  16. R3141A Stóra-Laxá
  17. R3157A Austurgilsvirkjun
  18. R3265A Trölladyngja
  19. R3267A Austurengjar, Krísuvík
  20. R3271B Hverahlíð II
  21. R3273A Innstidalur
  22. R3275A Þverárdalur
  23. R3291A Hágönguvirkjun
  24. R3296A Fremrinámar
  25. R3301A Búrfellslundur
  26. R3302A Blöndulundur

Síðast breytt: 21. desember 2015

Fleira áhugavert: