Lagnakerfamiðstöð Íslands – Framkvæmdastjórinn hættur
Desemnber 2007
Kristján Ottósson hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Lagnakerfamiðstöðvar Íslands vegna aldurs en það þýðir engan veginn að hann sé sestur í helgan stein. Hann er ennþá framkvæmdastjóri Lagnafélags Íslands og starfar um þessar mundir með Umhverfisstofnun að því að gera úttekt á loftræstikerfum á landsvísu. Kristján Guðlaugsson ræddi við hann um langan og viðburðaríkan starfsferil hans.
„Eigum við ekki bara að segja að ég sé fjósamaður vestan úr Dýrafirði, ég tók bara barnaskólann og varla það (hann var farskóli). En eftir að ég kom hingað suður 1954 fór ég í Iðnskólann í Reykjavík og stundaði nám í blikksmíði og síðan vélstjóranám. Starfaði lengi að námi loknu sem vélstjóri á Keflavíkurflugvelli hjá Kananum, en var svo 13 ár á Byggingardeild borgarverkfræðings í Reykjavík.“Á árunum 1972-1984 var Kristján formaður Félags blikksmiða og var einn aðalhvatamaður að undirbúningi og stofnun Lagnafélags Íslands.
Fyrsti formaðurinn
Kristján rak eigið fyrirtæki, Loftræstiþjónustuna, í 15 ár en lagði fyrirtækið niður þegar hann tók við starfi framkvæmdastjóra Lagnakerfamiðstöðvar Íslands árið 1999.Þegar Lagnafélagið var stofnað 1986 var hann fyrsti formaður félagsins og gegndi því hlutverki í tvö ár, en hann hefur verið framkvæmdastjóri félagsins frá stofnun þess.
„Lagnafélag Íslands hefur alla tíð verið rekið á mínu heimili með dyggum stuðningi minnar ágætu eiginkonu sem hefur stutt mig í þessum félagsmálum af heilum hug.
Ég hef aldrei verið mikið gefinn fyrir að eyða of miklu í skrifstofukostnað og annan óþarfa, það á heldur að nota peningana í önnur og þarfari verkefni,“ segir Kristján.
Hugmyndin að Lagnakerfamiðstöðinni kviknaði í sambandi við undirbúning að stórri ráðstefnu og sýningu sem haldin var af Lagnafélagi Íslands á Selfossi árið 1992.
„Það var send áskorun til menntamálaráðuneytisins að ráðstefnunni lokinni og þá var skipuð nefnd sem ég stýrði. Ég hóf strax starf við að ræða við stjórnendur skóla, forsvarsmenn félagasamtaka, stofnana og annarra er málið varðaði. 1997 fór ég að vinna að fjármögnun miðstöðvarinnar og til þess fékk ég með mér Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson sem tók við formennsku nefndarinnar en ég gerðist framkvæmdastjóri. Vilhjálmur hefur alla tíð síðan verið dyggur stuðningsmaður stöðvarinnar.
Þetta tók sinn tíma, það þurfti að finna fjármagn og hentuga lóð en hana fundum við hjá Orkustofnun á Keldnaholti. Mér fannst alltaf mikilvægast að reksturinn væri vel tryggður og í þeim tilgangi undirrituðu menntamálaráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og Orkuveita Reykjavíkur undir viljayfirlýsingu árið 1999.“
Þegar sýnt þótti að reksturinn væri tryggður var stöðin stofnuð formlega 25. ágúst 1999 og farið að hanna og teikna bygginguna.
„Það var Arkís sem teiknaði húsið en Mottó hf., með Matthías Ottósson forstjóra sem hafði yfirumsjón með byggingu hússins. Hann reyndist okkur afar vel á allan hátt.“
Allir unnu ókeypis
Kristján segir að allir sem komu að byggingu og útbúnaði stöðvarinnar hafi gefið vinnu sína.„Þetta á jafnt við um stjórn og nefndarmenn, bæði Vilhjálm Þ. og dr. Valdimar K. Jónsson, sem var formaður byggingarnefndar, sem byggingarstjóra sem var Björgvin Hjálmarsson. Þá gáfu hönnuðir, innflytjendur og seljendur lagnaefna og erlendir birgjar þeirra tæki og kerfi sem nauðsynleg voru fyrir kennsluna og fjölmargir iðnaðarmenn gáfu vinnu sína við uppsetningu tækjanna. Það var sérstaklega ánægjulegt að starfa með öllu þessu fólki,“ segir Kristján.
Húsið þar sem Lagnakerfamiðstöð Íslands er í var formlega opnað 24. nóvember árið 2001 með stórri sýningu þar sem húsfyllir var.
„Öll kennslukerfin í stöðinni eru metin á allt að 60 milljónir króna. Stærsta kennslukerfið er metið á 20 milljónir króna og að byggingu þess komu 27 fyrirtæki, allt gefendur tækja og vinnu við uppsetningu kerfisins, sem unnu saman sem bræður og systur.“
Húsið er metið á 80 milljónir en áhvílandi skuld er aðeins 10 milljónir, þannig að hér er um mikil verðmæti að ræða.
„Það varð svo þegjandi samkomulag um að ég skyldi tryggja reksturinn áður en ég léti af störfum sem framkvæmdastjóri. Þetta var tafsamt verkefni og ég man til þess að hafa orðið að bíða hálft ár eftir eigin launum vegna fjárskorts – þó hönnun kennslukerfa, tæki og uppsetning þeirra væri gefins varð ég einnig að finna gefendur að mínu eigin kaupi. Þetta stóð og féll með mér sjálfum og ég var staðráðinn í að leysa þetta verkefni.“
Á endanum var samið við Háskólann í Reykjavík um að taka að sér daglegan rekstur stöðvarinnar en stöðin er áfram sjálfseignarstofnun með stjórn og framkvæmdastjóra, eins og hún hefur ávallt verið.
„Í samningi á milli Lagnakerfamiðstöðvar Íslands og Háskólans í Reykjavík stendur að efla eigi rekstur stöðvarinnar, sem þjónar skólum landsins við uppbyggingu kennslufræða í lagnatækni og endurmenntun lagnamanna í atvinnulífinu og opinberra stofnana í lagnatækni á landsvísu. Ég held að ég hafi getað látið af störfum framkvæmdastjóra með góðri samvisku, enda orðinn sjötugur, þó ég hafi alls ekki hugsað mér að setjast í helgan stein,“ segir athafnamaðurinn og frumkvöðullinn Kristján Ottósson.