Olía vatnsverndarsvæði – Viðbrögð, hreinsun
Júlí 2018
Olía í jörð vegna umferðarslyss á vatnsverndarsvæði
Alvarlegur árekstur fólksbíls og vörubíls varð á Suðurlandsvegi við Hólmsá í sumar. Voru ökumenn beggja bifreiðanna fluttir á sjúkrahús. Við áreksturinn láku um 200 lítrar af olíu úr eldsneytistanki vörubifreiðarinnar og í jarðveginn við vegöxlina. Slysstaðurinn er á þeim hluta þjóðvegar 1 er liggur á grannsvæði vatnsbóla höfuðborgarbúa í Heiðmörk.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins brást skjótt við olíulekanum og hóf þegar í stað hreinsunarstörf, fyrst með því að dæla þar til gerðri froðu á olíuna og svo með því að moka í burtu spilltum jarðvegi. Fulltrúar frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Veitum fylgdust grannt með og var það álit fólks að vel hafi tekist til.
Jarðlög í Heiðmörk eru gljúp vegna hrauns, stutt er niður á grunnvatn og því er svæðið viðkvæmt m.t.t. þess að mengun berist í grunnvatnið og spilli neysluvatninu. Við hjá Veitum höfum áhyggjur af vaxandi umferð um vatnsverndarsvæðið en fjöldi slysa og óhappa hafa orðið vegna umferðar í Heiðmörk. Einnig hefur ítrekað verið bent á hættuna sem fylgir því þegar verið er að flytja olíu í miklu magni um Suðurlandsveg sem er í útjaðri vatnsverndarsvæðisins en hvers konar akstur getur ógnað öryggi vatnsverndar. Hreint og gott neysluvatn í nánd við byggð er ómæld auðlind sem ber að vernda með öllum tiltækum ráðum.