Reykjaæðar – Endurnýjun lagna
Október 2018
Reykjaæðar eru tvær stórar hitaveitulagnir sem liggja frá jarðhitasvæðunum að Reykjum og Reykjahlíð í Mosfellsbæ að vatnsgeymunum í Öskjuhlíð. Þær sjá um 40% alls höfuðborgarsvæðisins fyrir heitu vatni. Þessar meginflutningsæðar hitaveitunnar eru komnar til ára sinna en þær hafa séð borgarbúum fyrir heitu vatni í um 75 ár. Unnið hefur verið að endurnýjun lagnanna frá því fyrir aldamót og nýlega voru lagnirnar endurnýjaðar þar sem þær liggja í gegnum Ártúnsholtið og niður Ártúnsbrekkuna. Næst verður sá hluti hennar sem liggur yfir Elliðaárnar tekinn fyrir en gert er ráð fyrir að þær verði grafnar í jörð og undir árnar. Mun því mannvirkjum ofanjarðar í dalnum fækka og náttúran fá að njóta sín.