Iðnmenntun – Sundurlyndisfjandinn

Heimild: 

 

September 1997

Menntafélag byggingariðnaðarins

Byggingariðnaðurinn varðar alla þjóðfélagsþegna. Að koma sér upp þaki yfir höfuðið er það Grettistak, sem allir verða að lyfta.

Það eru fjölbreyttir pappírar sem detta inn um bréfalúguna, allir að auglýsa allt, tilboðunum rignir inn.

2018

Inn á milli kemur lesmál, sem verulega athygli vekur og eitt slíkt hefti var að koma, Byggiðn, kynningarrit nýstofnaðs Menntafélags byggingariðnaðarins sem er sameignarfélag Samtaka iðnaðarins og Samiðnar, samtaka sveina í byggingaiðnaði, en þetta nýja félag tekur við af Fræðsluráði byggingariðnaðarins, sem lagði grundvöllinn að endurmenntun byggingamanna.

Í Byggiðn er skrá yfir þau námskeið sem í boði eru á haustönn, sum eru ný en önnur eru námskeið sem mikil aðsókn hefur verið að hjá Fræðsluráðinu og er þeim framhaldið á nýjum vettvangi.

Of langt mál yrði að telja upp öll námskeiðin, en rétt að gefa nokkur dæmi. Á rekstrarsviði má nefna „Gæðastjórnun“, „Verkstjórn á byggingarstað“ og „Vekefnistjórnun“. Meðal fagnámskeiða iðngreina má nefna „Lögn parketgólfa“, „Viðhald og endurbætur eldri timburhúsa“, „Plastlagnir ­ Rör í rör lagnakerfi“, en nú þegar er búið að halda allmörg námskeið um þetta efni, og „Snjóbræðslu- og gólfhitalagnir“, þá er og vísað til fjölbreyttra tölvunámskeiða Rafiðnaðarskólans. Í vinnslu eru m.a. námskeiðin „Timbur og steyptir stigar“, „Gas- og loftlagnir“ og „Litaval og litafræði“.

En í þessu fyrsta tölublaði af „Byggiðn“ er efni sem hver fagmaður í byggingariðnaði ætti að láta sig varða og raunar miklu fleiri, því byggingariðnaður varðar alla þjóðfélagsþegna, að koma sér upp þaki yfir höfuðið er það Grettistak sem allir verða að lyfta. Þess vegna er það þjóðarhagur að allir þeir sem í byggingariðnaði starfa hafi sem besta og víðtækasta menntun og þekkingu.

Sundurlyndisfjandinn

Formaður Menntafélags byggingariðnaðarins, Guðmundur Ómar Guðmundsson, skrifar stutta en hnitmiðaða ritstjórnargrein og segir þar m.a.:

„Undanfarin ár hefur iðnmenntun ekki höfðað til ungs fólks. Eflaust eru ýmsar ástæður fyrir því. Ein er sú að við byggingamenn höfum ekki staðið okkur sem skyldi við endurskoðun námsins og alls ekki í að kynna þá möguleika sem felast í námi í byggingagreinum. Þar kemur að hluta til samstöðuleysi okkar og sundrung. Ekki hefur tekist að sameina alla sveina í byggingariðnaði í ein heildarsamtök og ekki heldur atvinnurekendur en það leiðir til þess að allt starf að menntunarmálum okkar er ómarkvisst og fálmkennt.

Þegar spurt er: Hvað viljum við byggingamenn? ­ held ég að svar okkar allra verði eitthvað á þá leið að vegur starfsgreinarinnar verði sem mestur. En þegar kemur að því að sameina krafta okkar ráða einkahagsmunir og skammtímasjónarmið oft ferðinni. Þessu verðum við að breyta“.

Sjónarmið ráðherrans

Björn Bjarnason menntamálaráðherra skrifar athyglisverða og efnismikla grein í Byggiðn. Það er efitt að vitna í grein ráðherrans því öll á hún skilið að vera lesin af þeim sem láta sig menntamál varða og þá sérstaklega þeim sem starfa í byggingagreinum og reyndar öllum sem starfa í löggiltum iðngreinum.

Það hafa margir áhyggjur af því hvað áhugi ungs fólks fyrir iðnnámi er lítill en um það segir menntamálaráðherra:

„Rannsóknir sýna, að áhugi á starfsnámi eða verknámi ræðst ekki af fögrum yfirlýsingum stjórnmálamanna eða því, sem samþykkt er á Alþingi. Það eru aðrir þættir í þjóðlífinu, sem ráða meiru um val ungs fólks á námsbrautum. Þróunin hér er hin sama og annars staðar, að æ fleiri kjósa almenna framhaldsskólamenntun, sem veitir aðgang að háskóla. Hinum fækkar jafnt og þétt, sem ákveða strax á framhaldsskólaaldri að velja sér iðngrein eða verknámsbraut. Er ljóst, að hér stefnir í þá átt, að starfsnám sé einkum stundað að loknu stúdentsprófi.

Ég tel að þetta sé ekki æskileg þróun. Hún á ekki rætur að rekja til þess, að menn hafi ekki unnið að því að endurskoða löggjöf um framhaldsskóla og sníða starfshætti þeirra að nútímalegum kröfum, þar sem meiri áhersla en áður er lögð á samstarf skóla og atvinnulífs. Slík lög tóku gildi 1. ágúst 1996. Sama haust varð einnig bylting í aðstöðu til verknáms í landinu, þegar Borgarholtsskóli hóf starfsemi sína og verknámsálma bættist við Menntaskólann í Kópavogi.“

Í lok sinnar ágætu greinar kemur ráðherrann með þá þörfu ábendingu að það eigi ekki ætíð að einblína á forystu hins opinbera í menntamálum, það er atvinnulífið, starfsgreinarnar, sem eiga að hafa forystuna um menntamál sinna stétta og þrýsta á ríkisvaldið.

Það hlýtur að vera svo að hver starfsgrein veit best hver þörfin er fyrir skólagöngu og endurmenntun í greininni.

En þá er ekki ólíklegt að samvinna og félagsþroski margra þeirra sem í byggingariðnaði starfa, hvort sem eru sveinar eða atvinnurekendur, þurfi að aukast og þroskast.

Fleira áhugavert: