Raforkugeirinn – Straumhvörf..
Ágúst 2018
Straumhvörf í raforkugeiranum
Mikill vöxtur hefur verið í nýtingu á vind- og sólarorku síðustu árin. Nú er liðinn u.þ.b. áratugur síðan sá sem þetta skrifar byrjaði að sjá tækifæri í þessum tegundum raforkuframleiðslu. Þá virtist sem bjartast væri framundan í nýtingu sólarorku, enda voru mjög góðar horfur á hratt lækkandi kostnaði þar. Reyndin varð þó sú að það var ekki síður vindorkan sem varð sífellt hagkvæmari. Enda hefur töluvert meira verið fjárfest í vindorku en sólarorku, sbr. grafið hér að neðan.
Eins og sjá má á þessu súluriti náði samanlagt uppsett afl í sólar- og vindorku nýverið yfir 1000 GW (milljón MW). Til samanburðar má hafa í huga að uppsett afl allra virkjana á Íslandi í dag er tæplega 3 GW (um 2.800 MW). Allt uppsett afl á Íslandi samsvarar því að vera svipað og 0,3% af uppsettu afli í vind- og sólaorku.
Í dag er raforkuframleiðsla nýrra og nýlegra vindmyllugarða víða orðin ódýrari en allra annarra tegunda nýrra raforkuvera. Umrædd lækkun á kostnaði í vindorku, ásamt svipaðri þróun í sólarorkugeiranum, gæti valdið straumhvörfum í raforkuframleiðslu heimsins. Fyrirtæki sem sérhæfa sig í að fylgjast með þróuninni í orkugeiranum spá því sum að á næstu þremur áratugum muni hlutfall endurnýjanlegrar orku í raforkuframleiðslu heimsins fara úr núverandi tæplega 25% í næstum því 65%! Sbr. grafið hér að neðan.
Áætlað er að þess mikla aukning í framleiðslu raforku með endurnýjanlegum hætti verði fyrst og fremst vegna nýrra vind- og sólarorkuvera. Og þó svo ávallt beri að taka svona tölum með fyrirvara, virðist líklegt að stór hluti af nýju raforkuframboði héðan í frá muni koma frá nýjum vindmyllugörðum. Þessi þróun mun ekki aðeins breyta raforkugeiranum I löndum sem ennþá eru mjög háð kolum og kjarnorku, heldur einnig hafa áhrif hér á Íslandi. Í framtíðinni mun t.d. stóriðjan í vaxandi mæli njóta ódýrrar vindorku og vatnsaflið í auknum mæli verða í hlutverki jöfnunar. Þessi þróun er nú þegar t.d. komin á góðan skrið í Skandinavíu og skynsamlegt að íslenski raforkugeirinn fari að búa sig undir þessa þróun.