Stórasel Holtsgötu – 100 til 200 Milljónir?

Heimild: 

 

Smella á mynd til að heyra umfjöllun RÚV

September 2018

Minjavernd og Reykjavíkurborg vinna að endurbyggingu á eina tvöfalda steinbænum sem eftir stendur í Reykjavík. Húsið, sem er í Vesturbænum, verður selt sem íbúðarhús á næsta ári.

Stórasel við Holtsgötu í Reykjavík er tvöfaldur steinbær, sá eini sem eftir stendur í Reykjavík. Húsið var byggt í tveimur áföngum, árin 1884 og 1893, en áður höfðu torfhús staðið á lóðinni öldum saman. Búið var í húsinu allt til ársins 2012, þegar Reykjavíkurborg eignaðist það, og var þá orðið mjög hrörlegt.

„Bæði hafði hluta af því verið breytt verulega til vansa, hlaðnir veggir höfðu verið rifnir til að búa til stærri stofur og svona, meiri þægindi fyrir viðkomandi þess tíma. Þannig að þetta var komið á elleftu stundu,“ segir Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar.

Árið 2014 var ráðist í fornleifarannsóknir á lóðinni og árið 2015 hófst svo endurbygging á húsinu í samstarfi Reykjavíkurborgar og Minjaverndar. Þorsteinn segir að reynt sé að halda í uppruna hússins við framkvæmdirnar.

„En við neyðumst til þess að breyta húsinu að einhverju leyti. Þetta þarf að nýtast í dag sem íbúðarhús og þetta hús verður selt að endurgerð lokinni. Og kröfur nútímans eru æði frábrugðnar því sem sett var upp forðum.“

Snýst um verndun

Húsið er um 160 fermetrar og Þorsteinn segir að í ljósi þess að það er mjög aðþrengt þar sem það stendur hafi komið til tals að flytja það. Að lokum hafi þó verið ákveðið að gera það upp þar sem það stendur. Stefnt er að því að ljúka verkinu um mitt næsta ár og selja það þá sem íbúðarhús. Þorsteinn segir að áætlaður kostnaður við verkið sé vel á annað hundrað milljónir króna.

Það vakti athygli, dæmið um braggann sem fór langt fram úr áætlun, er hætta á slíku hér?

„Ekki á þeim stærðum sem þar voru. Þetta verður dýrara en við vorum að vonast til í upphafi. Það vill því miður oft verða þótt við séum vanir verkum af þessum toga.“

Eru líkur á að söluandvirðið dekki kostnaðinn?

„Nei. Alveg frá upphafi samskipta um yfirtöku Minjaverndar á eigninni var okkur ljóst að það myndi aldrei verða.“

Þannig að þetta snýst fyrst og fremst um að vernda þetta hús?

„Já að vernda húsið, yfirbragðið og þá sögu sem á bakvið það stendur, bæði húsinu sjálfu og staðnum.“

Fleira áhugavert: