Hagnast Edmund Truel á ísl. orku?

Heimild: 

 

Október 2018

Félag sem vill leggja sæstreng kaupir 13 prósent í HS Orku

Heildareignir HS Orku námu 48,4 milljörðum í árslok 2017 og eigið fé félagsins var um 35,5 milljarðar. Fréttablaðið/Andri marinó

Svissneska fjárfestingafélagið Disruptive Capital Finance hefur keypt tæplega 13 prósenta hlut í HS Orku af fagfjárfestasjóðnum ORK. Breskt systurfélag þess hefur síðustu ár unnið að því að kanna fýsileika þess að leggja sæstrengt á milli Bretlands og Íslands.

Svissneska fjárfestingafélagið DC Renewable Energy AG, sem er í eigu Bretans Edmunds Truell sem hefur lengi unnið að því að koma á sæstreng á milli Íslands og Bretlands, hefur gengið frá kaupum á 12,7 prósenta hlut í HS Orku, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Seljandi er fagfjárfestasjóðurinn ORK en hluturinn var settur í formlegt söluferli í maí á þessu ári.

Ekki fást staðfestar upplýsingar um kaupverðið en að sögn þeirra sem þekkja vel til þá er það „mjög vel viðunandi.“ Væntingar voru um að yfir 7 milljarðar króna gætu fengist fyrir hlutinn þegar söluferlið hófst fyrr á árinu. Á meðal eigna HS Orku er 30 prósenta eignarhlutur í Bláa lóninu.

Það var fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka sem hafði umsjón með söluferlinu.

Móðurfélag DC Renewable Energy, Disruptive Capital Finance, er skráð í kauphöllina í Sviss. Þá hefur DC Renewable Energy á undanförnum árum kynnt sér íslenskan orkugeira í gegnum systurfélag sitt í Bretlandi, Atlantic SuperConnection, en það félag sérhæfir sig í þróunarverkefnum. Telur félagið tækifæri felast í frekari nýtingu á jarðvarma til orkuframleiðslu á heimsvísu og er því sagt líta á kaupin í HS Orku sem góðan fjárfestingakost til lengri tíma.

Edmund Truell

Atlantic SuperConnection hefur þannig síðustu ár unnið að fjölmörgum greiningum á fýsileika þess að leggja sæstreng á milli Íslands og Bretlands. Hefur fyrirtækið kynnt þær hugmyndir sínar fyrir íslenskum stjórnvöldum en frá því var greint í ViðskiptaMogganum síðastliðinn júní að félagið geri ráð fyrir streng sem muni bera sig með flutningi 600 til 700 megawatta í stað 1.000 megawatta, eins og lagt var upp með í skýrslu verkefnastjórnar um sæstreng, sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra lét vinna árið 2016. Stengurinn sem hefur verið kynntur stjórnvöldum er einpóla í stað tvípóla og yrði 60 til 70 prósent ódýrari en strengur sem byggði á tvípóla tækni. Samkvæmt áætlunum Atlantic SuperConnection gæti slíkur sæstrengur kostað um tvo milljarða sterlingspunda, jafnvirði nærri 300 milljarða íslenskra króna.

Eru með forkaupsrétt að hlutnum

Tæplega þrettán prósenta hluturinn í HS Orku komst í eigu fagfjárfestasjóðsins ORK í júlí í fyrra þegar samkomulag náðist við Magma Energy, dótturfélag kanadíska orkufélagsins Alterra, um uppgjör á skuldabréfi sem Magma hafði gefið út við kaup á hlut sínum í HS Orku árið 2009. Í stað þess að greiða útistandandi höfuðstól skuldabréfsins skömmu fyrir gjalddaga var um það samið að ORK, sem hafði keypt bréfið af Reykjanesbæ í ágúst 2012 fyrir 6,3 milljarða, myndi ganga að veði þess og yfirtaka þannig 12,7 prósenta hlut í HS Orku af Magma. Við það minnkaði hlutur Magma úr 66,6 prósentum í 53,9 prósent, en fyrir eiga fjórtán lífeyrissjóðir einnig 33,4 prósenta hlut í HS Orku í gegnum samlagshlutafélagið Jarðvarmi. Magma Energy er í dag í eigu kanadíska orkufyrirtækisins Innergex en það gekk í byrjun ársins frá kaupum á öllu hlutafé Alterra.

Á meðal eigna HS Orku er 30 prósenta eignarhlutur í Bláa lóninu. Fréttablaðið/GVA

Samkvæmt samþykktum HS Orku hafa hluthafar, að félaginu sjálfu frágengnu, forkaupsrétt að hlutum í fyrirtækinu við eigendaskipti í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Samhliða samkomulaginu við ORK í fyrra féll Magma Energy frá forkaupsrétti sínum og þá ákvað stjórn Jarðvarma einnig að nýta sér ekki forkaupsréttinn og bæta þannig við sig 12,7 prósenta hlut. Stjórn Jarðvarma hefur núna tvo mánuði til að ákveða hvort félagið hyggist í þetta sinn nýta sér forkaupsréttinn.

Stöðvaði sölu á hlut í Bláa lóninu

HS Orka, sem á og rekur orkuver í Svartsengi og á Reykjanesi, er eina orkufyrirtæki landsins sem er í eigu einkafjárfesta. Hagnaður félagsins í fyrra nam 4.588 milljónum króna og jókst um liðlega 1.500 milljónir á milli ára. Þá jukust rekstrartekjur HS Orku um 430 milljónir og voru rúmlega 7.530 milljónir á árinu 2017. Stjórn félagsins lagði til að greiddur yrði arður að fjárhæð 440 milljónir króna til hluthafa á þessu ári. Heildareignir HS Orku námu 48,4 milljörðum í árslok 2017 og eigið fé félagsins var um 35,5 milljarðar.

Á meðal eigna HS Orku er 30 prósenta hlutur í Bláa lóninu. Var eignarhlutur fyrirtækisins settur í söluferli um miðjan maí á síðasta ári og var það sjóður í stýringu Blackstone, eins stærsta fjárfestingarsjóðs heims, sem átti hæsta tilboðið, eða um 11 milljarða króna. Ekkert varð hins vegar af sölunni eftir að stjórn Jarðvarma ákvað að beita neitunarvaldi sínu, á grundvelli hluthafasamkomulags um minnihlutavernd, og hafna tilboðinu. Mikillar óánægju gætti hjá stjórnendum Alterra, þáverandi eigendum Magma Energy, með ákvörðun lífeyrissjóðanna að hafna tilboði Blackstone, enda hafi það verið nokkuð yfir væntingum stjórnar HS Orku þegar ákveðið var að setja hlut félagsins í söluferli.

Fleira áhugavert: