Baðhellar við Vaðlaheiðargöng
Júní 2017
Fjórtán hugmyndir bárust í samkeppnina sem efnt var til í vor og úrslitin liggja nú fyrir. Þær snúast um baðlón af ýmsu tagi, framleiðslu þungavatns, fiskeldi, raforkuframleiðslu, ylrækt og fleira.
Baðhellar og þungavatn
Tvær hugmyndir voru verðlaunaðar. Önnur er um nýtingu jarðhita í Öxarfirði til framleiðslu á svokölluðu þungu vatni, ásamt vetni og súrefni. Þungt vatn verður til með ákveðinni aðferð og nýtist meðal annars í lyfjaiðnaði og kjarnorkuverum. Fyrstu verðlaun hlaut hugmynd um baðhella við Vaðlaheiðargöng. Þar yrði nýtt það heita vatn sem nú rennur úr göngunum Eyjafjarðarmegin og baðhellar sprengdir í bergið norðan gangamunnans. Fyrstu verðlaun voru ein og hálf milljón króna og aðstoð við að koma hugmyndinni í framkvæmd.
Mikill og verðmætur jarðhiti
„Ég vona líka að okkur hafi tekist að vekja fólk til umhugsunar um, í fyrsta lagi hvað það er til mikill jarðhiti á Norðurlandi eystra, en ekki síður hvað það eru mikil verðmæti í þessu lághitavatni sem í dag er allt of lítið nýtt,“ segir Albertína F. Elíasdóttir er framkvæmdastjóri Eims, samstarfsverkefnis um nýtingu orkuauðlinda á Norðausturlandi.