Vaðlaheiðargöng virkjuð – 70 l/s vatnsveita
September 2018
Mikil bót verður fyrir vatnsveitu Akureyrar og nágrennis þegar sjötíu sekúndulítrar af köldu vatni taka að streyma þangað úr Vaðlaheiðargöngum. Forstjóri Norðurorku líkir þessu við happdrættisvinning.
Það var mikið áfall í Vaðlaheiðargöngum þegar stórt misgengi opnaðist í fjallinu vorið 2015. Mikið efni hrundi úr gangaloftinu og gríðarmikið vatn fyllti göngin.
Hrósa happi yfir þessu vatni í dag
Eftir langan tíma tókst að beisla vatnið og í dag hrósa margir happi yfir öllu þessu vatni. „Já, það má sannarlega segja að þetta sé happdrættisvinningur fyrir samfélagið hér við Eyjafjörð,“ segir Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku.
Samsvarar helmingi af vatnsþörf Akureyrar
Norðurorka hefur tekið þátt í því með verktakanum í göngunum að virkja vatnið. Byggð var safnþró inni í göngum og eftir rörum verður vatnið leitt í tanka fyrir utan. Meiningin er að nýta vatnið á Svalbarðsströnd og í þéttbýlinu á Akureyri. Áætlað er að úr vatnsveitunni göngunum komi að minnsta kosti 70 lítrar af vatni á sekúndu. Það samsvarar allt að helmingi af vatnsþörf Akureyrarkaupstaðar.
Eykur öryggi í miðlun neysluvatns
Og Helgi segir það auka til muna, öryggið í miðlun neysluvatns hjá Norðurorku, að fá þetta mikið af nýju vatni inn í kerfið. „Við erum annars vegar með uppi í Hlíðarfjalli fyrir ofan bæinn og hins vegar í Hörgárdal, á Vöglum. Það svæði er undir miklu álagi, bara frá umferð, þjóðvegur eitt liggur nánast í gegnum það svæði. Þannig að fyrir okkur öll á svæðinu er mikið öryggi að fá þriðja vatnssvæðið inn, þriðju vatnslindina,“ segir hann.
Enn langt í land
En talsverður tími mun líða þar til þetta vatn verður komið heim til neytenda. Hönnun vatnsveitunnar í heild er ekki lokið. „Næsta ár fer svona frekar í tankasmíðina, eða hugsunina í kringum það, og síðan fer lagnavinnan af stað. Tvö, þrjú ár, jafnvel fjögur, það má vera,“ segir Helgi.