Hitakerfi – Framþróun í stjórntækjum..

Heimild: 

 

Nóvember 1997

Mannfagnaður og sýning í Perlunni

Það hefur orðið mikil framþróun í stjórntækjum fyrir hitakerfi. Hér er fjallað um ráðstefnu og sýningu Lagnafélagsins í Perlunni, sem verður m.a. helguð þessu viðfangsefni.

Áfyrstu dögum miðstöðvarhit unar hérlendis, fyrir tæpri öld, var ekkert verið að hugsa um að stýra hitanum. Í miðstöðvarkatlinum var brennt kolum, við það hitnaði vatnið í kerfinu, heita vatnið steig upp þar sem það var léttara og kaldara vatnið seig niður vegna þess að það var þyngra. Náttúrulögmálið sá um að hitinn komst í ofnana, þetta þóttu ekki lítil þægindi á sínum tíma.

Kolin voru allsráðandi fram yfir miðja öldina, en þá fer olían að ýta kolunum til hliðar. Það var víða fyrsta verk húsmóðurinnar að fara á fætur og kveikja upp í miðstöðvarkatlinum, engum datt í hug að kynda alla nóttina enda hefði það orðið erilsamt og slitið í sundur nætursvefninn, þó það hafi verið sparnaðurinn sem réði. Eftir að eldur var kominn upp og glóð í kolin, var bætt á eftir þörfum og tæplega það, víða þurfti að fara sparlega með þau og stundum voru þau hreinlega ekki til, engir peningar til kolakaupa.

En það mátti drýgja kolin með því að safna spýtum og ýmsu brennanlegu drasli. Með tilkomu olíukyntra katla varð þetta allt einfaldara og minni vinna, með þeim kom fyrsta sjálfvirknin.

Á fyrstu olíukyntu kötlunum var olíurennslinu inn í eldhólfið stýrt með svokölluðum „karbarotor“, orðið komið úr bílamáli, en þetta var sjálfrennsli, þessvegna varð olíutankurinn að vera hærra uppi en eldhólfið.

Sjálfvirknin var í því fólgin að hægt var að stilla hve mikið olíurennslið var og þar af leiðandi hitinn í húsinu og olíueyðslan. Síðan komu sjálfvirku olíufýringarnar þar sem hitanemi slökkti eða kveikti á „fýringunni“.

En svo kom hitaveitan og þá varð kátt í höllinni.

Við viljum hafa stjórn á umhverfi okkar

Það hefur orðið mikil framþróun í stjórntækjum fyrir hitakerfi og kannske gerir hinn almenni borgari og neytandi sér ekki grein fyrir því og tæpast von; það eru ekki allir tæknimenn sem gera það heldur.

Til að fylgjast með þróun og nýjungum þýðir ekki fyrir tæknimenn, hvaða titil sem þeir bera, að slá slöku við, hvorki í námi í skóla eða eftir að skólagöngu lýkur. Það verður ekki aðeins að halda þekkingunni við og læra á nýjungarnar. Þetta gera flestir tæknimenn, lesa tæknirit, sækja endurmenntunarnámskeið og fara á sýningar.

Ein slík sýning og umræðufundur er í Perlunni fimmtudaginn 26. nóv. næstkomandi.

Það er, eins og við mátti búast, Lagnafélag Íslands, sem stendur fyrir þessu átaki.

Þarna verður ekki aðeins kynning og umræða um stýrikerfi fyrir hitakerfi heldur margt fleira. Öryggiskerfi eru orðin nauðsyn í harðnandi heimi afbrota og fíkniefna, það er enginn öruggur um eigur sínar, tæpast um sjálfan sig.

Það þarf að stýra kælikerfum og vélasamstæðum í verksmiðjum og svo mætti lengi telja. En eigi að síður er það stjórn og stýring hitakerfa sem stendur okkur næst og hún stendur nær hverjum og einum heldur en hann gerir sér grein fyrir.

Sjálfvirkir ofnkranar stýra því að okkur líður vel sofandi í rúminu eða sitjandi í hægindi með bók í hönd, eða glápandi á ameríska sápu. Það er sjálfvirkt blöndunartæki sem stýrir því að við fáum mátulega heitt vatn úr sturtunni, í heita pottinn eða sundlaugina og það er sjálfvirkt tæki sem gætir þess að klórmagnið í lauginni sé ekki of lítið eða of mikið. En hvernig hefur hinn almenni neytandi verið upplýstur um allar þessar ýmist margbrotnu eða einföldu stýringar og stýrikerfi, sem hafa svo mikil áhrif á allt okkar líf?

Fleira áhugavert: