Öryggismál eru í ólagi..

Heimild: 

 

Sept 2018

Ófrágengnir vinnupallar, lausir stigar og teinar fyrir neðan sem gætu rekið menn á hol, falli þeir af pöllunum. Þetta er sýn sem blasir oft við eftirlitsmönnum vinnueftirlitsins. Stofnunin stöðvaði nýlega vinnu á tveimur byggingarsvæðum í Reykjavík vegna skorts á fallvörnum. Spegillinn fékk að slást í för með starfsmönnum Vinnueftirlitsins og skoða með þeim aðstæður á framkvæmdasvæðum í Úlfarsárdal.

Það eru mikil umsvif í byggingariðnaði um þessar mundir og fallslysum hefur fjölgað. Síðustu mánuði hefur Vinnueftirlitið ítrekað stöðvað vinnu á byggingarsvæðum vegna skorts á fallvörnum þar sem það taldi lífi starfsmanna hætta búin.

Fallslys úr hæð eru algengust í byggingariðnaði. Skylt er að tilkynna Vinnueftirlitinu um vinnuslys sem veldur fjarveru daginn sem slysið verður og daginn eftir. Í fyrra var vinnueftirlitinu tilkynnt um 55 fallslys í þeim geira og í helmingi tilfella braut sá sem féll bein. Talsmenn Vinnueftirlitsins telja að þau hafi verið um tvöfalt fleiri, þar sem misbrestur sé á því að slysin séu tilkynnt.

Mynd með færslu

Mynd: Rúv/Vinnueftirlitið

 

Þessi slys eru oft alvarleg, afleiðingarnar geta verið beinbrot, lömun, jafnvel bani. Í ár hefur orðið einn látist eftir fall úr hæð. Hæðin þarf ekki að vera mikil, þannig getur tveggja til þriggja metra fall haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

„Hætt við að menn falli þarna niður“

Spegillinn fór í vikunni með þremur starfsmönnum Vinnueftirlitsins að skoða aðstæður í Úlfarsárdal.

Við Urðarbrunn reisir Eykt fjölbýlishús fyrir íbúðafélagið Bjarg. Róbert Á Róbertsson, eftirlitsmaður, var ekki nógu ánægður með öryggismálin þar. Það vantaði handrið á vinnupalla og sums staðar voru engin handrið, einungis bendijárn sem stóðu upp úr steypunni. „Út frá því sem við sjáum héðan myndi maður áætla að bara að vinna á þessum pöllum án handriða, að þá sé hætta á því að menn falli þarna niður.“

Eykt hafði ekki tilkynnt Vinnueftirlitinu um framkvæmdina, þá þekktu starfsmenn ekki nógu vel til öryggisáætlunar. Vinnueftirlitið gerði athugasemdir við þetta og þrennt til viðbótar sem varðaði vinnupalla, umferðarleiðir um svæðið og frágang bendijárna. Vinna við pallana var bönnuð en banninu var aflétt í morgun í kjölfar úrbóta. Vinnueftirlitið mun fylgja athugasemdum sínum eftir með annarri eftirlitsheimsókn í næstu viku.

Mynd með færslu

Mynd: rúv/vinnueftirlitið Úr eftirlitsskýrslu um aðstæður við Urðarbrunn sl. mánudag.

Næst lá leiðin á byggingarsvæði við Sjafnarbrunn, litlu neðar í hverfinu. Þar voru aðstæður til fyrirmyndar að mati eftirlitsins. Vinnupallarnir stæðilegir og góðir stigar á milli hæða. „Við ákváðum að stoppa hérna því okkur lýst nokkuð vel á aðstæður, hér eru fótlistar, handrið og annað í lagi, umferðarleiðir um verkpallana góðar og allt jákvætt sem hægt er að segja um þetta.“

Mynd með færslu

Mynd: rúv Róbert Á. Róbertsson, eftirlitsmaður.

Pallarnir farnir að síga

Á framkvæmdasvæði VG verktaka við Gerðarbrunn var annað uppi á teningnum. Vinnupallar voru sitt hvoru megin við húsið en á framhlið þess voru óvarðar svalir notaðar sem vinnupallur, fyrir neðan svalirnar stóðu svo um meterslangir járnteinar upp í loftið. Róbert sagði verkpallana við húsið slysagildru.

„Það vantar handrið, tálista, endalokanir vantar, ég kíkti á pallana áðan og mér finnst þeir ekki rétt upp settir. Þeir eru farnir að síga að hluta til.“

Hann segir stigana upp á og milli verkpalla mjög ótrygga og bendir á að það séu engin handrið á efsta pallinum.  „Svo sérðu á annarri hæðinni að það vantar allar fallvarnir að framanverðu við húsið, það eru alls konar járn sem standa þarna upp úr og fleira sem er hætta á að falla á.“

Það sé í raun ekkert í lagi á pöllunum og þyrfti ekki að spyrja að leikslokum ef einhver félli á járnin.

Mynd með færslu

Mynd: rúv/vinnueftirlitið   Úr eftirlitsskýrslu um ástandið við Gerðarbrunn sl. mánudag.

Vinnueftirlitið gerði ellefu athugasemdir og bannaði alla vinnu á staðnum, nema til lagfæringar, sem ljúka þarf fyrir 25. september.Athugasemdirnar lutu að vinnupöllum, fúnum stigum og skorti á fallvörnum en eftirlitið gerði líka athugasemdir við kaffistofu sem sögð var heilsuspillandi. Þá var öryggisáætlun ekki til staðar og framkvæmdin hafði ekki verið tilkynnt til vinnueftirlitsins.

Klassískt dæmi

Guðmundur Kjerúlf, aðstoðardeildarstjóri hjá Vinnueftirlitinu, segir að því miður séu svona aðstæður ekki óalgengar. Þetta sé regla frekar en undantekning, bara frekar klassískt dæmi. „Við getum myndað víða í þessu hverfi, mjög marga í þessum dúr. Ég veit ekki um nema tvo í þessu hverfi sem eru í lagi.“

Þá séu þessar aðstæður dæmigerðar fyrir byggingarsvæði á höfuðborgarsvæðinu, því miður.

Að leggja lokahönd á úrbætur

Fyrirtækin hafa andmælarétt og heimild til að kæra bannið til velferðarráðuneytisins. Framkvæmdastjóri Eyktar vildi ekki tjá sig þegar eftir því var leitað, vinnubanni á pöllum við Urðarbrunn var aflétt í dag. Forsvarsmaður VG verktaka sagði að verið væri að leggja lokahönd á úrbætur vegna athugasemda Vinnueftirlitsins. Uppsetningu pallana hafi ekki verið lokið, þess vegna hafi þeir verið ófullnægjandi.

Fallvarnir auðveldi vinnu

Yfirleitt eru atvinnurekendur fljótir að gera úrbætur og Guðmundur segir einfalt að hafa þessi atriði í lagi. En af hverju tryggja atvinnurekendur þá ekki bara öryggi starfsmanna frá upphafi? „Þar er sjálfsagt margt í gangi, að einhverju leyti vanþekking, að einhverju leyti kæruleysi, að einhverju leyti skortur á vilja til að hafa hlutina í lagi. Það er ekki mikill kostnaður í því og það er alveg á hreinu að þegar menn eru búnir að koma upp góðum fallvörnum verður byggingarhraðinn meiri. Menn fá þennan kostnað örugglega margfalt til baka og svo eru slys eitthvað það dýrasta sem menn geta lent í.“

Röraverkpallar og rekjanleiki

Til stendur að efla eftirlit með fallvörnum og öðrum öryggismálum í byggingariðnaði frekar á næstunni og fjölga eftirlitsmönnum. Þá bindur Róbert vonir við nýja reglugerð um röraverkpalla. Þar segir að þeir sem verkstýra þeim sem setja pallana upp eða taka þá niður þurfi að hafa setið námskeið um öryggimál. Þessi hluti reglugerðarinnar hefur þó enn ekki tekið gildi að hans sögn. „Að þeir séu teknir út, skráð hverjir hafa tekið þá út og þeir hafi setið námskeið, ekki að hver sem er geti sett upp pallana. VIð viljum fá eitthvað á bak við það hver hafi sett upp pallinn og rekjanleika um að það sé réttindamaður.“

Stundum óljóst hver ber ábyrgð

Það er verkkaupi sem ber ábyrgð á öryggismálum á vinnustað en hann getur framselt ábyrgðina til aðalverktakans. Ef vinnustaðurinn er stór og fleiri verktakar eða undirverktakar þarf að vera svokallaður samræmingaraðili öryggismála. Svava Jónsdóttir, sviðsstjóri hjá Vinnueftirlitinu, segir að oft vanti upp á að þetta sé í lagi og óljóst hverjum Vinnueftirlitið á að afhenda eftirlitsskýrsluna. „Það skiptir svo miklu máli að í samningum á milli aðila, sérstaklega hjá stórum verktökum, að öryggisþátturinn sé skilgreindur í útboðsgögnum og það sé alveg skýrt í samningunum ef verið er að færa ábyrgðina á milli verkkaupans og aðalverktakans.“

Guðmundur segir að margir stórir verktakar séu til fyrirmyndar, haldi úti sérstökum öryggisstjórum og geri kröfur til undirverktaka. Millistórir og litlir verktakar taki þessi mál oft ekki jafn föstum tökum.

Telja síður tilkynnt um slys erlendra starfsmanna

Mynd með færslu

Mynd: rúv/vinnueftirlitið

Hverjir lenda í þessum slysum. Það eru aðallega karlmenn, flestir á milli þrítugs og fimmtugs. Rúmlega helmingur þeirra sem lenda í fallslysum í byggingariðnaði eru Íslendingar en tæpur helmingur af erlendum uppruna, einkum frá Póllandi og Litháen. Guðmundur bendir á að enn síður sé tilkynnt um fallslys meðal erlendra starfsmanna. „Það er mjög þekkt að það þarf mikið til að það sé tilkynnt á útlendinga, þeir kvarta síður og einhvern veginn vilja menn síður tala um það.“

Þá segist hann hafa mestar áhyggjur af starfsmönnum starfsmannaleigna.

Flýja stundum þegar eftirlitsmenn koma

Spegillinn ræddi nýlega við talsmann Eflingar sem hafði heyrt sögur um að erlendur starfsmaður sem slasaðist alvarlega hefði einfaldlega verið sendur heim réttlaus, eftir að gert hafði verið að sárum hans. Guðmundur segir nokkuð algengt að starfsmenn láti sig hverfa þegar vinnueftirlitið beri að garði. „Að það eru talsvert margir að vinna, svo átta þeir sig á því hverjir eru komnir og þá einhvern veginn sáldrast þeir út á milli bygginga, ofan í hraunið og hverfa einhvern veginn. Hugsanlega eru einhverjir óskráðir.“

Mynd með færslu

Fleira áhugavert: