Brennisteinsvetni tærir koparrör..
Mars 2009
KOPARLAGNIR fyrir heitt vatn á höfuðborgarsvæðinu tærast á nokkurra áratuga tímabili en þær voru mikið notaðar í íbúðarhúsnæði á sjöunda og áttunda áratugnum. Dæmi eru um að lagnirnar hafi aðeins enst í 5-6 ár.
Birgir Jónsson og Guðmundur Páll Ólafsson pípulagningameistarar segja efnasambönd í heita vatninu á höfuðborgarsvæðinu gera það að verkum að eirinn tærist upp. „Yfirleitt kemur fyrst nálargat á rörið sem síðan stækkar smám saman,“ útskýrir Birgir og Guðmundur tekur undir. „Vatnið á höfuðborgarsvæðinu gengur í efnasamband við koparinn sem myndar þá eins konar varnarhúð sem þykknar. Það getur haft tvenns konar áhrif. Ef hreyfing kemst á lögnina getur þetta þykkildi farið af stað og stíflað lokur og annað. Hins vegar étur það rörið upp innan frá og myndar gat.“
Þeir segja rörin yfirleitt ekki endast nema í 10-25 ár. „Það er mjög mismunandi hvað eirinn dugar lengi, allt eftir því hvaðan vatnið kemur og hvernig efnasamsetningin í því er.“
Komi leki vegna slíkra röra er eina ráðið að skipta þeim út að þeirra sögn. Þeir segja ekki nauðsynlegt að brjóta upp veggi fyrir slíka framkvæmd þar sem hægt sé að aftengja gamla kerfið og leggja nýtt utan á veggi, án þess að fórna þurfi miklu útlitslega.
Séu húsin eldri en fjörutíu ára telja þeir ólíklegt að í þeim séu koparlagnir því fyrir þann tíma hafi verið notuð svört járnrör í heitavatnslagnir sem geti enn verið í fínu lagi. Þó að búið sé að skipta út koparlögnum í mörgum húsum leynist þær þó enn víða. Nýlega hafi þeir t.a.m. skipt út slíkum lögnum sem lagðar voru fyrir 15 árum og 25 ára lögnum á öðrum stað.
Brennisteinsvetnið ástæðan
Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir aðstoðarorkumálastjóri skrifaði doktorsritgerð um tæringu í hitaveitukerfum. Hún segir ástæðu tæringarinnar vera fyrst og fremst brennisteinsvetni í vatninu. Það sé frá náttúrunnar hendi í jarðhitavatni sem kemur úr lághitaborholum á höfuðborgarsvæðinu. Í þeim tilfellum er brennisteinsvetnið nokkuð stöðugt að hennar sögn svo tæringarhraði koparröranna er ekki mjög mikill heldur eyðist þau jafnt og þétt. „Ef súrefni kemst hins vegar í vatnið margfaldast tæringarhraðinn.“Stór hluti vatns á höfuðborgarsvæðinu kemur frá Nesjavallavirkjun. „Það er ekki jarðhitavökvi heldur upphitað kalt vatn sem brennisteinsvetni eða -gufu er síðan bætt í,“ útskýrir Ragnheiður. „Þá verða útfellingarnar innan í koparrörunum svo gljúpar að þær mynda enga vörn og rörið tærist hraðar.“
Hún segir endingu koparröranna oftast vera 20-30 ár en dæmi séu um að þau hafi enst lengur eða skemur. „Það fer niður í 10 ár í einstaka tilfellum og jafnvel voru kerfi að fara eftir 5-6 ár þar sem rennslish
raðinn var meiri en gengur og gerist.“ Hún telur að búið sé að skipta út koparrörum að miklu leyti í þeim húsum þar sem þau voru lögð. „Ég myndi hugsa minn gang sem húseigandi ef ég væri með koparkerfi frá því fyrir 1970 sem ekki væri búið að skipta út. Þá myndi ég láta skoða það og endurnýja áður en tjón verður.“
Í hnotskurn
» Brennisteinsvetnismengun í lofti, t.a.m. frá virkjunum, getur orsakað mjög hraða tæringu efna á borð við kopar og silfur, þar sem það blandast súrefni óheft. Þetta getur valdið því að ending ýmiss tækjabúnaðar styttist verulega, að sögn Ragnheiðar.
» Koparrörin urðu vinsæl um miðjan sjöunda áratuginn og voru enn notuð í lagnir á þeim níunda, t.a.m. í Grafarvoginum.
» Hægt er að sjá hvort pípulagnirnar séu úr kopar með því að skoða þær þar sem þær koma út úr veggjum. Á tímabili voru ofnar jafnvel líka úr eir.
» Ragnheiður bendir á að leki í slíkum rörum valdi oft miklu tjóni þar sem þau eru beintengd við hitaveitu. Heitt vatn og gufa geti valdið miklum usla í húsbúnaði.