Skimun hitaveitulagna – Ný tækni ..kafbátur
Ágúst 2018
Veitur skoða ástand stærri hitaveitulagna á höfuðborgarsvæðinu með nýrri tækni sem gefur ítarlegri og betri upplýsingar um lagnir í jörð en áður hefur þekkst. Tæknin felst í því að lítill fjarstýrður kafbátur kafar inn í hitaveitulögnina og dregur á eftir sér búnað sem skimar lögnina; tekur myndir og metur þykkt stálsins af mikilli nákvæmni. Rússneskir tæknimenn frá norska fyrirtækinu Breivoll eru staddir hér á landi með búnað og sérútbúinn tækjabíl, sem fluttur var hingað til lands frá Rússlandi, til verksins. Með þessari tækni má meta ástand mikilvægra hluta heitavatnsæðakerfis borgarinnar hvort sem tæringin á sér stað innan í lögnum eða utaná.
Aldur lagna ekki alltaf góður mælikvarði
Hingað til hefur einkum verið stuðst við aldur lagna þegar gerðar eru áætlanir um viðhald eða endurnýjun eða að skipt er um lagnir sem hafa bilað. En aldur lagna segir ekki alltaf til um ástand þeirra og er því ekki góður mælikvarði. Sem dæmi má nefna að í Reykjavík eru elstu vatnslagnirnar sem eru í notkun frá árinu 1909 og elstu hitaveitulagnirnar frá árinu 1960. Með þessum mælingum má spara umtalsverðar upphæðir þegar kemur að viðhaldi en dýrt er að skipta um lagnir, á forsendum aldurs, sem við uppgröft reynast í lagi.
Mikil nákvæmni mælinga
Kafbáturinn, sem knúinn er tveimur skrúfum, kafar inn í rörið á ákveðinn upphafspunkt þar sem hann spennir út miðjustilla sem staðsetja hann í miðju lagnarinnar. Hann er svo dreginn til baka að upphafspunkti á 8 cm/sek hraða og skimar hann og myndar ástand lagnarinnar á leiðinni. Skimunartækið tekur 360° sónarmynd af öllu yfirborðinu að innanverðu og sýna niðurstöðurnar ástand hvers fermillimetra lagnarinnar og þykkt hennar í millimetrum.
Tógið sem dregur kafbátinn og skimunarbúnaðinn er úr Kevlar efni sem er létt og ofursterkt. Inni í því eru fjórir ljósleiðarar sem flytja myndræn og stafræn gögn í tækjabílinn. Gögnin sem fást með skimuninni eru send til Rússlands til úrlausnar. Gera má ráð fyrir að niðurstöður fyrstu mælinga hér á landi liggi fyrir innan skamms.
Í þessari heimsókn munu rússnesku sérfræðingarnir og starfsmenn Veitna skima nokkrar af aðalæðum hitaveitukerfis höfuðborgarinnar, þ.m.t. Reykjaæðar, stærstu hitaveituæðar borgarinnar sem flytja vatn frá Reykjum í Mosfellsdal til höfuðborgarinnar, Höfðabakkaæð sem fæðir Breiðholt og hluta af Hafnarfjarðaræð. Vinna við skimun hitaveitulagnanna stendur til 11. september.
Inga Dóra Hrólfsdóttir
„Veitur eru með yfir 3000 km af hitaveitulögnum á sínu veitusvæði og það er mikilvægt að geta fylgst sem best með ástandi þeirra til að geta rekið hitaveitukerfið með sem hagkvæmustum hætti,“ segir Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna. „Þessi nýja tækni auðveldar okkur að meta hvar og hvenær skynsamlegt er að fara í endurbætur og endurnýjun stærri hitaveitulagna. Komi í ljós, þegar gögnin hafa verið unnin, að lagnirnar eru í góðu ástandi þannig að hægt er að fresta endurnýjun þeirra um eitthvert árabil er um umtalsverðan sparnað að ræða fyrir Veitur. Þótt þessi aðferð sé ný af nálinni, og hafi ekki verið notuð áður hér á landi, hefur hún þegar sannað gildi sitt i þeim löndum sem hún hefur verið prófuð; í Noregi, Rússlandi, Bretlandi og Þýskalandi. Við bindum vonir við að svo verði einnig hér.“