AQ Khan – Selur Kjarnorku..
Febrúar 2018
Vildi endurheimta heiður Pakistans
Pakistanski verkfræðingurinn Abdul Qadeer „AQ“ Khan var að vinna hjá kjarnorkutæknifyrirtæki í Amsterdam 1974, þegar Indverjar sprengdu sína fyrstu kjarnorkusprengju.
Khan var mikill föðurlandsvinur og fylltist bræði að sjá að höfuðóvini Pakistans, Indlandi, hefði tekist að koma sér upp kjarnavopnum.
Staðráðinn í að endurheimta heiður heimaland síns fór Khan því að stela leynilegum upplýsingum og tækjum af vinnustað sínum: meðal annars teikningum af hraðaskilvindum til að auðga úran.
Árið 1975 stakk hann svo af heim til Pakistans með góssið og tók við stjórn pakistönsku kjarnavopnaáætlunarinnar.
Úr vísindastarfi í svartamarkaðsbrask
Störf AQ Khan báru skjótan árangur. Talið er að Pakistan hafi verið komið með kjarnavopn strax um miðjan níunda áratuginn. Pakistanar héldu árangrinum þó lengi leynilegum, og sprengdu ekki tilraunasprengju opinberlega fyrr en árið 1998.
AQ Khan lét þó ekki þar við sitja. Um svipað leyti og fyrstu kjarnavopn hans voru að verða tilbúin, er talið að hann hafi farið að bjóða þjónustu sína og þekkingu ýmsum vafasömum karakterum: meðal annars Saddam Hússein einræðisherra í Írak, Múammar Gaddafí í Líbíu, klerkastjórninni í Íran og stjórnvöldum í Norður-Kóreu.
Hollenskar skilvindur í írönsku kjarnorkuveri
Upp komst um svartamarkaðsbrask AQ Khans 2004 þegar eftirlitsmenn Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar tóku eftir því að úranauðgunar-skilvindur Írana svipuðu mjög til skilvinda sem hollenska fyrirtækið, vinnuveitandi AQ Khans á sínum tíma, hafði smíðað á áttunda áratugnum.
Þá höfðu vestrænar leyniþjónustustofnananir reyndar lengi fylgst með AQ Khan og haft mörg tækifæri til að hafa hendur í hári hans — án þess þó að gera sér fulla grein fyrir því hvað hann væri að bauka.
Frjáls maður og þjóðhetja
Þrátt fyrir að upp hafi komist um hann er AQ Khan engu að síður frjáls maður í dag, og hylltur sem þjóðhetja af mörgum Pakistönum.
Sömuleiðis hefur hann aldrei verið yfirheyrður almennilega og er því enn margt á huldu um viðskipti hans — meðal annars hvort hann hafi mögulega átt sér fleiri kúnna.