Rafbílar hjálpa ekki umhverfinu?
Vinsælast á vefnum 2017-2018
nr.01
Ágúst 2017
Rafbílar hjálpa ekki umhverfinu
Rafbílar hafa marga kosti. Þeir eru hljóðlátir, frá þeim kemur engin mengun eða lykt og þeir geta verið liprir í akstri, enda lausir við gíra.
Rafbílar í þéttbýlum borgum gera fólki kleift að ferðast um án þess að loftið fyllist af sótögnum og útblástursgufum.
Rafbílar eru hins vegar ekkert endilega sérstaklega umhverfisvænir og ekki endilega hentugur kostur í það heila.
Í fyrsta lagi þurfa þeir þrátt fyrir allt raforku sem þarf að framleiða. Víða um heim er ekki hægt að framleiða raforku á hagkvæman hátt nema með jarðefnaeldsneyti. Mengunin er því einfaldlega færð úr borginni þar sem bílarnir eru og út á land eða í annað land.
Í öðru lagi þarf gríðarlega mikla orku til að framleiða rafbíla og þá sérstaklega batteríin. Menn geta keyrt hefðbundinn bíl í 5 ár áður en að heildarlosunin vegna framleiðslu og notkunar nær losuninni af völdum framleiðslu rafbílsins. Þegar rafbíll nær lokum líftíma síns þarf svo líka mikla orku til að lóga batteríum og öðrum hlutum rafbílsins.
Í þriðja lagi leysa rafbílar engan mengunarvanda eða losunarvanda eins mönnum er tamt að segja núna. Á Íslandi er losun af völdum bílaumferðar bara dvergur miðað við það sem stígur upp úr framræstum skurðum. Að moka ofan í skurði er augljósasta, afkastamesta, hagkvæmasta og skynsamlegasta leiðin til að binda koltvísýring á Íslandi, sé það á annað borð markmiðið. Rafbílar skipta hér engu máli.
Í fjórða lagi er allt þetta rafbílatal einn stór útgjaldabaggi sem skattgreiðendur eiga eftir að þurfa éta. Í útlöndum rembast menn við að setja upp vindmyllur og sólarorkuvor, allt á kostnað skattgreiðenda enda óhagkvæm fyrirhöfn sem enginn virðist leggja í nema með opinbera styrki eða undanþágur frá skattgreiðslum í vasanum.
Í fimmta lagi er ekkert víst að rafbílar verði tæknin sem verður ofan á. Fyrirtæki eins og Toyota og Huyndai ætla að veðja á vetnisbíla og telja að hraðari „hleðslutími“ þeirra geti hentað ökumönnum betur og að sú tækni geti nýtt núverandi innviði betur. Það er svo sennilega hægt að keyra lengra á „hleðslunni“ með fljótandi eldsneyti miðað við batterí.
En sjáum hvað setur. Tæknin flýgur áfram og framtíðin er ekki skrifuð í stein. Stjórnmálamenn eiga alls, alls ekki að dæla fé skattgreiðenda í eitthvað eitt frekar en annað. Miklu nær er að lækka alla skatta og fjarlægja lagalegar hindranir svo hægt sé að innleiða allt það nýjasta sem hraðast á markaðsforsendum.