Sótarar – Iðn sem naut virðingar..

Heimild:  

 

Ágúst 2003

Stétt sótara hefur aldrei verið til hér á landi svo ekki er víst að öllum sé ljóst um hverja er verið að fjalla né hvert er verksvið þeirra.

Við Íslendingar erum þeir lukkunnar pamfílar að búa í þessu kalda en þó heita landi, þar sem sjóðandi vatnið vellur upp úr jörðinni, yfirleitt með örlítilli hjálp mannsins og tækninnar. Þetta vatn hitar upp hýbýlin og veitir okkur þægindin víðar; í sundlaugum, heitum pottum og í sturtunni heima.

Þess vegna erum við laus við alla reykspúandi reykháfa, sem svo sannarlega settu svip sinn á höfuðborgina fyrir rúmlega hálfri öld eða svo. Til eru myndir er sýna svart ský yfir Reykjavík á köldum kyrrum dögum, skýið var kolareykur sem liðaðist upp úr hvers manns strompi.

En í nálægum löndum eru menn ekki svo heppnir að búa á eldfjallalandi, því auðvitað er það eldvirknin sem gefur okkur heita vatnið. Eldgosin hafa gert mikinn usla í gegnum aldir, en við höfum lært að virkja það jákvæða sem því fylgir, heita vatnið og nú ógnarkraft jarðgufunnar bæði til framleiðslu á raforku og einnig á heitu vatni til upphitunar.

Allt fram til 1970 var það regla að byggja reykháfa við hvert hús á öllum þéttbýlum svæðum. Svo var einnig í Reykjavík og nágrannabyggðum, því þótt hitaveita væri lögð innan Hringbrautar slitnaði sá þráður þegar þeim áfanga var náð. Hitaveitulagnir lágu niðri um tuttugu ára skeið, hófust ekki aftur fyrr en eftir 1960.

Mikil breyting varð til batnaðar þegar olían leysti kolin af hólmi, kynditækin urðu æ betri og mengunin minnkaði.

Samt sem áður var af þessari kyndingu umtalsverð mengun og sót settist innaní reykháfana og þá þurfti að hreinsa.

Menn reyndu að bjarga sér sumir hverjir, aðrir létu allt danka í von um að þetta reddaðist.

Og það gerði það að lokum þegar blessuð hitaveitan kom, skorsteinaarnir luku sínu verkefni hver af öðrun, en eru enn til sem minnismerki um liðna tíð kola- og olíukyndingar.

 

Óþrifaleg iðn aflaði sér virðingar

Ef mikið af sóti safnaðist í skorsteina var það yfirleitt af því að það sem brennt var brann illa, oft vegna vöntunar á súrefni eða „trekk“ eins og sagt var í gamla daga; það vantaði uppsog í skorsteininn. Þetta gat haft hættu í för með sér, í þessu sótlagi gat kviknað með ófyrirsjánlegum afleiðingum.

Í okkar gamla herraríki, Danmörku, sáu menn að þarna yrði að hafa varann á, skorsteinana yrði að hreinsa reglulega og til þess starfs urðu margir viljugir þó vart hafi verið til óþrifalegra starf, nema kannski að hreinsa kamrana í stórborgunum.

Það fór ekki hjá því í kóngsins Kaupmannahöfn að þessir verkamenn vektu athygli á götum úti, sótsvartir í orðsins fyllstu merkingu eftir að hafa klifrað á húsaþökum og skrapað skorsteina með sköfum og burstum.

Eflaust hafa margir litið niður á þessa sótsvörtu menn sem fóru hús úr húsi, voru ekki aðeins uppi á þökum heldur einnig inni á heimilum, enda var þá auðvitað eldstæði í hverju heimili en einnig kolaofnar í stofum, einkum heldri manna en jafnvel hjá alþýðu.

Stétt sótara varð fljótlega fjölmenn því það þurfti margar hendur til að hreinsa alla skorsteina og öll eldstæði stórborga og efalaust hafa þeir fundið fyrir lítilli virðingu samborgaranna, sem þá flokkuðu menn miskunnarlaust eftir atvinnu og þar var böðullinn í neðsta sæti.

Sótararnir létu krók koma á móti bragði og breyttu sínum háttum og framkomu.

Þeir urðu viðurkenndir handverksmenn með full réttindi og sköpuðu sér sérstöðu með húmor, góðum vinnubrögðum og nýjum klæðaburði.

Í stað þess að biðjast afsökunar á tilveru sinni, í stað þess að læðast með veggjum létu þeir sem mest á sér bera. Tileinkuðu sér fágaða framkomu og settu síðan punkt yfir iið með einkennisbúningi.

Ekki er ólíklegt að það hafi þótt mikil ósvinna þegar sótarar Kaupmannahafnar fóru að birtast við hvers manns dyr, íklæddir svörtum vönduðum fötum með gyllta hnappa og hvorki meira né minna en með pípuhatt.

Þá hefur örugglega einhver heldri maðurinn rifið hár sitt og klæði.

En þeir komust upp með þetta og vel það. Þeir urðu vinsælt myndefni, urðu persónur í ljóðum og sögum og í mörgum sviðsverkum hefur hinn dæmigerði sótari birst í einkennisfötum með pípuhatt, kámugar hendur og kinnar, en jafnvel með hvítan trefil.

Norrænir sótarar eru stoltir menn, stoltir af sinni þjónustu og ekki síður af sinni iðn.

Til þess að borin sé virðing fyrir stöfum hvers og eins verður ýmislegt að koma til.

Að störfin séu unnin af alúð og samviskusemi og að viðkomandi starfsmaður beri virðingu fyrir sjálfun sér og störfum sínum.

Ef svo er ekki þarf vart að búast við virðingu frá öðrum.

Þetta skildu sótarar í gamla daga og þeir uppskáru eins og þeir sáðu, þeir búa að því enn.

Fleira áhugavert: