Geysilegar gaslindir Persaflóa – Risaálver..
Október 2013
Risaálverin við Persaflóa
Á síðustu áratugum hafa fundist geysilega gaslindir í lögsögu Persaflóaríkjanna. Vinnslan þar hefur verið að byggjast upp undanfarin ár og er nú orðin afar umfangsmikil. Besta dæmið þar um er gasvinnslan í Katar. Katarmenn sjá fram á það að verða eitt mesta gasframleiðsluland heims um langa framtíð, enda hefur þetta fremur fámenna land um 14% allra gasbirgða heimsins innan lögsögu sinnar . Katar er þar að auki stór olíuframleiðandi. Miklar gaslindir hafa einnig fundist í Saudu Arabíu, Abu Dhabi (sem er hluti af Sameinuðu arabísku furstadæmunum) og fleiri ríkjum við Persaflóann.
Eftir því sem gasvinnslan í Katar og fleiri Persaflóaríkjum hefur vaxið hafa þau jafnframt þurft að leita nýrra möguleika á að selja gasið – og að sjálfsögðu helst á sem hæstu verði. Það er þó þrautin þyngri. Öfugt við olíu er bæði dýrt og flókið að flytja gas mjög langar leiðir. Þess vegna er gasinu við Persaflóa stundum líkt við strandaða orku.
Með strandaðri orku er átt við að umtalsverðar orkulindir eru til staðar, en eftirspurn eftir orkunni er af einhverjum ástæðum takmörkuð og nokkuð erfitt að koma henni í verð. Afleiðingin er sú að orkan er gjarnan seld ódýrt og skilar þá oft mun minni arðsemi en gengur og gerist í orkugeiranum.
Hér verður fjallað um það hvernig þessi strandaða orka i formi jarðgass hefur orðið til þess áliðnaður byggist nú hratt upp í Persaflóaríkjunum. Og raunar með svo miklum ógnarhraða að það jafnast á við sprenginguna í kínverska áliðnaðinum.
Persaflóagasið leitar kaupenda
Persaflóinn er, eins og flestir vita, mesta olíuvinnslusvæði heimsins. Góð eftirspurn og talsvert hátt olíuverð veldur því að einfalt mál er að selja olíuna frá Katar og öðrum Persaflóaríkjum með miklum hagnaði. Og flytja hana þvers og kruss um heiminn. Þar er því alls ekki um að ræða strandaða orku, heldur þvert á mótu orku sem er mjög eftirsótt og afar arðbær.
Allt annað gildir um jarðgasið þarna við Persaflóa. Stórir viðskiptavinir sem hafa áhuga á jarðgasi eru afar fjarri og mjög kostnaðarsamt er að koma gasinu til slíkra viðskiptavina. Möguleikarnir þar á eru tvenns konar. Annars vegar að flytja gasið eftir afar löngum gasleiðslum. Hins vegar að umbreyta því í fljótandi gas (LNG) og sigla með það á áfangastað, þar sem gasinu er aftur umbreytt í loftkennt form. Báðar þessar flutningsaðferðir kalla á uppbyggingu mikilla innviða og eru afar kostnaðarsamar.
Til greina hefur komið að byggja gasleiðslu alla leið frá Katar til Evrópu (slík gasleiðsla myndi mögulega einnig tengjast gaslindum í Abu Dhabi og fleiri Persaflóaríkjum). En vegna mikils framboðs af gasi frá Rússlandi og öflugra gasleiðslna milli Rússlands og Evrópu annars vegar og milli Noregs og Evrópu hins vegar, er gasleiðsla milli Evrópu og Persaflóa enn ekki orðin raunhæfur kostur. Og gasleiðsla milli Evrópu og Katar þyrfti að öllum líkindum að liggja um Sýrland, Jórdaníu eða Írak. Evrópsk orkufyrirtæki álíta hagkvæmara og áhættuminna að nálgast í framtíðinni gas frá Azerbaijan fremur en um leiðslu frá Persaflóa. Gasleiðsla milli Katar og Evrópu er því ennþá nokkuð fjarlægur kostur.
Af þessum sökum flytur Katar gasið sitt út með því fyrst og fremst að umbreyta því í fljótandi form og sigla með það á áfangastað. Sem hefur einkum verið Japan og Suður-Kórea, ásamt Bretlandi og Indlandi. Það að breyta gasi í fljótandi form er aftur á móti afar dýrt; kostnaðurinn við eina slíka verksmiðju getur hlaupið á tugum milljarða USD. Og eins og áður sagði eru langar gaslagnir líka mjög dýrar.
Til að koma meira gasi í verð hafa Persaflóaríkin á síðustu árum veðjað á áliðnaðinn. Þ.e. að nota gasið til að framleiða ódýra raforku fyrir álbræðslur. Og nú er svo komið að þetta er það svæði heimsins þar sem uppbygging álvera er hröðust utan Kína. Uppbygging álvera þarna við Persaflóann fer reyndar langt með að jafnast hlutfallslega á við ævintýralegan vöxt áliðnaðar í Kína síðustu árin.
Persaflóaríkin bjóða hræódýra raforku
Til að geta aukið sölu á jarðgasi, án þess að þurfa að ráðast í rándýrar flutningsleiðir eða byggingu fleiri LNG-verksmiðja, hafa Katar og fleiri ríki við Persaflóa sem sagt ráðist í uppbyggingu á mikilli álframleiðslu. Þar sem unnt er að nýta jarðgasið (þ.e. raforkuna sem gasorkuverin framleiða) til framleiðslunnar.
Ástæða þess að veðjað hefur verið á áliðnað er einfaldlega sú að það sú tegund stóriðju sem er orkufrekust (auk þess sem menn hafa verið ansið bjartsýnir um þróun álverðs). Raforkuverðinu til álveranna er haldið í algeru lágmarki; ríkin eru í reynd að veðja á að álverð verði nógu hátt til að þessi framleiðsla skili þeim góðum arði. Bissness-módelið byggist sem sagt á því að fjárfestingasjóðir á vegum Katar og annarra Persaflóaríkja eru stórir hluthafar í álverunum. Í sumum tilvikum er eignahaldið á álverunum alfarið í höndum umræddra fjárfestingasjóða, en í nokkrum tilvikum eru stór erlend álfyrirtæki meðeigendur.
Álverum við Persaflóa býðst sem sagt strönduð orka, sem gefur kost á einhverju ódýrasta rafmagni í heiminum. Þetta hefur stóru vestrænu álfyrirtækjunum þótt spennandi kostur og hafa þau flest tekið þátt í þessum fjárfestingum með innlendu risafjárfestingasjóðunum í Persaflóaríkjunum. Það á t.d. við um Alcoa, Norsk Hydro og Rio Tinto Alcan. Og þessi Persaflóaálver eru með þeim allra stærstu og hagkvæmustu í heiminum, enda mjög nýleg og með afar fullkominn tæknibúnað. Og fyrir liggur að þarna muni álframleiðsla aukast mikið á næstu árum.
Líklega býðst álverum hvergi í heiminum jafn ódýrt rafmagn eins og nú gerist við Persaflóann. Sem veldur því að álverin þar skila sennilega hagnaði jafnvel þó svo álverð fari niður í um 1.500 USD/tonn. Hafa ber í huga að raforkuverðið þarna er mun lægra en álverin hér á landi þurfa að borga og af þeim sökum eru álverin á Íslandi ekki eins samkeppnishæf. Þar að auki er útilokað er að unnt sé að byggja hér nýjar virkjanir sem geta boðið jafn lágt raforkuverð eins og gerist nú í Katar og víðar við Persaflóann.
Risaálver rísa við Persaflóa
Álframleiðsla á sér nokkuð langa sögu við Persaflóann. Það var þó ekki fyrr en á allra síðustu árum, með stóraukinni gasframleiðslu, að áliðnaðurinn þarna rauk upp á við. Í þessu sambandi voru það talsverð tímamót þegar 585 þúsund tonna Qatalum-álverið í Katar náði fullum afköstum árið 2010. Nýlega var þetta álver svo stækkað í 625 þúsund tonn. Framleiðslugeta þessa eina álvers í Katar er sem sagt næstum því 80% af framleiðslugetu allra íslensku álveranna. Enda var Qatalumverið til skamms tíma stærsta álver í heimi.
Á þeim örfáu árum sem liðin eru frá byggingu Qatalum hefur uppbygging nýrra álvera við Persaflóa verið nánast ógnvekjandi hröð. Ódýrt jarðgasið er sem sagt ekki aðeins grundvöllur Qatalum. Fleiri risaálver hafa bæst í þann góða hóp þarna við Persaflóann og eldri álver þar hafa verið stækkuð verulega á liðnum árum. Lykillinn að þessu er strönduð orka.
Nýlega var t.a.m. lokið við stækkun Alba-álversins í Bahrain, sem nú getur framleitt um milljón tonn árlega. Og nú er verið að stækka risaálver Emal í Abu Dhabi, sem mun fara úr 800 þúsund tonna framleiðslugetu og í að framleiða um 1,3 milljónir tonna af áli árlega! Þá er ótalið Dubal-álverið í Dubai, sem hefur verið stækkað mikið og framleiðir nú um 1 milljón tonn af áli á ári. Á næsta ári (2014) nær svo enn eitt risaálverið við Persaflóann fullum afköstum; nýja Ma'adan í Saudi Arabíu, sem verður með 740 þúsund tonna framleiðslugetu. Sú framleiðsla verður dálaglegt innlegg í núverandi offramboð af áli.
Í samanburði við ofangreind álver, þá er Sohar-álverið í Oman nánast eins og smápeð. Með sína 390 þúsund tonna framleiðslugetu á ári. Sem þó er um 45 þúsund tonnum meira en stærsta álverið á Íslandi!
Hafandi í huga að þarna við Persaflóann fæst raforkan á mun lægra verði en unnt væri að útvega með nýjum virkjunum hér landi, er svolítið áhyggjuefni hversu mjög sumir ráðherrar hér tala fjálglega fyrir nýju álveri á Islandi. Það blasir við hverja við erum að keppa við, ef við ætlum að selja áliðnaði ennþá meiri raforku. Þá erum við komin í beina samkeppni við nýju raforkustóriðjuna við Persaflóa. Það kann varla góðri lukku að stýra fyrir Ísland að hella sér i þá samkeppni – við hljótum að íhuga önnur og betri tækifæri.
Persaflóinn er samt barnaleikur miðað við Kína
Á næsta ári (2014) lítur út fyrir að álframleiðsla Persaflóaríkjanna muni ná um 5 milljónum tonna. Sem er gífurleg aukning frá því sem var fyrir einungis fáeinum árum. En þó svo uppbyggingin þarna hafi verið hröð, er hún nánast barnaleikur miðað við hvað gerst hefur í Kína. Þar er það ekki jarðgas sem knýr álverin, heldur ódýr kolaorka þar sem umhverfisviðmið eru þar að auki lítt til trafala.
Einna hraðastur er vöxturinn í byggingu álvera núna í hinum kolaauðugu norðvesturhéruðum Kína og einnig í Innri-Mongólíu. Það er þó svo að við þurfum sennilega ekki mikið að vera að velta okkur upp úr þeirri aukningu. Talverðar líkur eru nefnilega á því að Kína leitist áfram við að vera sjálfbært í álframleiðslu, en gerist ekki stór útflytjandi á áli. Þess vegna eru íslensku álverin fyrst og fremst í samkeppni við önnur álver utan Kína – a.m.k. enn sem komið er. Ef Kína aftur á móti fer að flytja út meira af áli gæti álverð lækkað ennþá meira á skömmum tíma. Það að selja meiri íslenska raforku til álvera kann því að vera ansið áhættusamt og varla réttlætanlegt að opinberu orkufyrirtækin taki það til mála.
Hvað segir Samál?
En hvar álíta íslensku álfyrirtækin að áver munu rísa utan Kína. Verður það á Íslandi, við Persaflóa eða einhvers staðar allt annars staðar?
Ekki liggur fyrir opinber skoðun „íslensku“ álfyrirtækjanna um þetta (nema hvað Century Aluminum segist vilja reisa álver í Helguvík, eins og kunnugt er). En þannig vill til að íslensku álfyrirtækin, eða öllu heldur móðurfélög þeirra, eru öll þátttakendur í samstarfi sem nefnist International Aluminium Institute (IAI). Og þar má sjá eftrifarandi sjónarmið um það hvar líklegast er að ný álver verði reist:
Given that electricity will remain the most important driver of competitiveness, the new smelters will be found in the Middle East region, Russia, the western and north-western provinces of China, Malaysia, Africa […], India and other regions where stranded energy can be available.
Þarna er að sjálfsögðu vísað til þess hvar helst megi nálgast strandaða orku. Þar eru tækifæri í Afríku (vatnsafl), Malasíu (vatnsafl), vestur- og norðvesturhéruðum Kína (kol), Rússlandi (vatnsafl í Síberíu) og að sjálfsögðu Mið-Austurlönd (jarðgas við Persaflóa). Ekki er minnst þarna einu orði á Ísland, enda blasa nú mun betri tækifæri við íslensku raforkufyrirtækjunum en að selja ennþá meiri raforku til álvera – með lágmarksarðsemi.
Þar að auki er hlutfall álvera í nýtingu á íslenskri raforku svo hátt (vel yfir 70%) að það væri ansið áhættusamt að auka það hlutfall ennþá meira. Ef illa fer í áliðnaði Persaflóaríkjanna munu þau flest fara létt með að mæta þeim áföllum vegna geysilegra olíutekna. Ísland hefur ekki sambærilegan bakhjarl og ber því tvímælalaust að varast umrædda áhættu. Í því sambandi má vekja athygli á því, að bæði álver Norðuráls (Century Aluminum) í Hvalfirði og álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík skiluðu tapi á síðasta ári (2012).
Setjum verðmætasköpun í forgang
Orkumarkaðir heimsins hafa breyst verulega á síðustu tíu árum eða svo. Lönd sem eiga möguleika á að framleiða raforku með hagkvæmum hætti eiga mörg hver góða möguleika á að fá mikinn arð af þeirri framleiðslu – ef þau nýta tækifæri til að tengjast áhugaverðum raforkumörkuðum. Nærtækasta dæmið þar um er Noregur, sem hefur staðið að byggingu öflugra tenginga við raforkumarkaði nágrannalandanna þar sem verð er oft hátt. Og hagnast mjög vel á þeim tengingum; bæði norsku raforkufyrirtækin og norska þjóðin öll.
Nánast engir markaðir eru jafn áhugaverðir fyrir raforkuframleiðendur eins og markaðir í vestanverðri Evrópu. Því þar er heildsöluverð á raforku jafnan með því hæsta í heimi. Þess vegna er einmitt svo spennandi að nú kann senn að verða orðið tæknilega og fjárhagslega gerlegt fyrir Ísland að tengjast raforkumörkuðum í vestanverðri Evrópu.
Ef aftur á móti álver rís í Helguvík (eða annars staðar á Íslandi) er það tær táknmynd um að arðsemi af raforkuframleiðslu hér mun vart hækka nokkru sem nemur. Þess í stað verður hún áfram afar lág og miklu lægri en gerist t.d. í raforkuframleiðslu í Evrópu. Það væri hálf nöturlegt – þegar haft er í huga að ekkert land í heiminum býr hlutfallslega yfir jafn mikilli orku sem nýta má til raforkuframleiðslu – og þar að auki endurnýjanlegri orku!
Nýtt álver hér væri líka skýrt tákn um að við höfum í reynd lítinn áhuga á að gera okkur meiri mat úr orkuauðlindum okkar. Og kjósum þess í stað kosti sambærilega þeim sem gefast í samfélögum í Síberíu eða sunnanverðri Afríku – eða á fremur vanþróuðum svæðum i austanverðri Asíu þar sem iðnvæðing er í forgangi en umhverfismál mæta algerum afgangi. Þar að auki myndi meiri uppbygging áliðnaðar hér merkja að við þurfum í enn meira mæli að keppa við ofurhagkvæm risaálver, sem nú spretta upp á jarðgassvæðunum við Persaflóa.
Þetta hlýtur að vera alveg sérstaklega umhugsunarvert, nú þegar okkur virðist í fyrsta sinn mögulegt að selja raforkuna ekki á hrakvirði heldur með mjög góðri arðsemi. Með því að tengjast Evrópu með sæstreng. Við hljótum að setja verðmætasköpun í forgang. Þar að auki ætti ástandið á álmörkuðum í dag – með tilheyrandi samdrætti í afkomu Landsvirkjunar – að vera okkur góð áminning um að setja ekki fleiri egg í álkörfuna. Við hljótum a.m.k. að doka við með meiri raforkusölu til álvera uns það fer að sjást til sólar á álmörkuðum – því þá verður samningsstaða raforkufyrirtækjanna mun sterkari. Og við hljótum einnig að doka við með slíka raforkusölu þar til við fáum skýrari mynd af þeim möguleika að fá tengingu við evrópskan raforkumarkað með sæstreng. Það má vel vera að í framtíðinni muni raforkusala til álvera á Íslandi verða aukin – en nú er alls ekki rétti tíminn til þess.