Orkuskipti – Aðgerðaáætlun í orkuskiptum fram til 2030
Júní 2017
Metnaðarfull aðgerðaáætlun í orkuskiptum fram til 2030
Ísland ætlar sér áfram að vera í flokki með þeim þjóðum sem eru í fararbroddi varðandi notkun endurnýjanlegra orkugjafa og samþykkti einróma Alþingi í gær ályktun ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um orkuskipti til ársins 2030 og aðgerðaáætlun í 24 liðum. Í ályktuninni eru sett fram markmið til ársins 2030 um 40% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi og 10% fyrir haftengda starfsemi. Lykilþættir til að ná þessu marki er að styrkja hagræna hvata, vinna markvisst að uppbyggingu innviða s.s. hleðslustöðva og stuðla að rannsóknum og tækniþróun sem tengist endurnýjanlegum orkugjöfum.
Orkuskipti eru Íslendingum vel kunn þar sem þjóðin hefur komið sér í þá öfundsverða stöðu að hafa hitaveitu og rafmagnsframleiðslu sem nánast alfarið er knúin endurnýjanlegum orkugjöfum. Staðan er hins vegar önnur þegar kemur að samgöngum en hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa er um 6% og orkuskipti í haftengdum málum er á byrjunarreit. Í samgöngumálum er Ísland í mjög sambærilegri stöðu og meðaltalið er fyrir Evrópuríkin. En jákvæð teikn eru á lofti þar sem Ísland er í öðru sæti Evrópuríkja á eftir Noregi þegar horft er til sölu vistvænna bifreiða (rafbíla og tengiltvinnbíla).