Fyrsta rottan nam land..

Heimild: 

 

Mars 2001

Hvenær varð fyrst vart við rottur á Íslandi?

Við fornleifagröft á Bessastöðum á Álftanesi hafa fundist rottubein í mannvistarlagi sem talið er frá 17. öld, og mun þó ekki öruggt að það sé eldra en frá 18. öld. Á vissan hátt er líklegra að þessi rotta sé frá 18. öld, því að hún er brúnrotta (Rattus norvegicus), og þeirra verður tæpast vart í Evrópu fyrr en þá. Þetta er einstök rotta á einstökum stað, nærri höfnum þar sem skip frá útlöndum lögðu að, svo að engan veginn verður ályktað af beinum hennar að rottur hafi verið landlægar á þessum tíma.

 

Brúnrotta (Rattus norvegicus)

Skriflegar heimildir benda ekki til þess heldur. Á síðari hluta 17. aldar skrifaði Þórður biskup Þorláksson í Skálholti Íslandslýsingu á latínu, og kom hún út á prenti árið 1666. Þar tekur biskup skýrt fram að engar rottur finnist á Íslandi, hins vegar mergð af músum. Frá 18. öld er aftur á móti Íslandslýsing Eggerts Ólafssonar reist á landkönnun þeirra Bjarna Pálssonar á
-árunum 1752-57. Eggert segir aðeins frá rottum á einum stað á Íslandi, undir Jökli á Snæfellsnesi, þangað sem þær hafi borist nýlega með skipi sem hafi strandað undan Rifi. Eggert notaði latínuheiti sem á við svartrottuna (Rattus rattus), en Bjarni Sæmundsson náttúrufræðingur efaðist um að það væri rétt greining hjá honum, enda hefði svartrotta líklega aldrei orðið landlæg á Íslandi. Þegar Bjarni lýsti spendýralífi Íslands í bók árið 1932 hélt hann því fram að fyrst hefði orðið vart við brúnrottur þar á 19. öld, og hafi þær síðan verið að breiðast út um landið, einkum við sjávarsíðuna.Þetta kemur vel heim við þá hugmynd sem ég hef fengið af samtölum við fólk. Til dæmis má taka að móðir mín var fædd árið 1896 og alin upp frá bernsku á Gýgjarhóli í Biskupstungum, í einni þeirra byggða sem fjærst eru sjó. Hún sagðist aldrei hafa séð rottu fyrr en hún var orðin húsmóðir á fertugsaldri í Efstadal í Laugardal. Ég efast um að rottur hafi almennt breiðst út um sveitir landsins fyrr en farið var að flytja þangað kornmat á vörubílum.
Svartrotta (Rattus rattus)

Til eru þeir sem efast um að það standist að Ísland hafi verið rottulaust á miðöldum. Ástæðan er einkum sú að löngum hefur verið haldið fram að pestin, sem stundum er kölluð svarti dauði, hafi borist á milli manna með rottuflóm, og faraldrar sem varla geta verið annar sjúkdómur gengu vissulega um landið á 15. öld. Sú fyrri gekk um allt land, að sagt er, á árunum 1402-04, sú síðari um allt land nema Vestfirði 1494-95. En í raun er hægt að skýra gang pestarinnar með öðru móti; hún á til að berast með öðrum flóartegundum, sem þurfa ekki rottur til að lifa á, og hún getur líka borist sem lungnasjúkdómur sem smitast beint frá manni til manns. Rökin til að halda að miðaldaplágan hafi borist með rottuflóm eru í raun engin önnur en þau að mannskæður kýlapestarfaraldur sem kom upp í Kína og Indlandi á síðasta áratug 19. aldar reyndist smitast með þessum hætti. Það var uppgötvað eftir margra ára rannsóknir, en fram að þeim tíma hafði engum manni dottið í hug að tengja pestina við rottur eða flær þeirra. Afar veik rök eru til að halda að miðaldaplágan hafi yfirleitt borist um Evrópu með rottum og flóm, og útilokað að svo hafi verið á Íslandi. Þannig er til dæmis vandséð hvernig rottur áttu að komast yfir stórfljót og fjallvegi svo fljótt sem pestin barst vissulega.Það styður enn fremur þá skoðun að Ísland hafi verið rottulaust á miðöldum að engin rottubein hafa fundist í fornleifum frá þeim tíma, og rottur eru aldrei nefndar á Íslandi í íslenskum fornritum. Orðin sem seinna voru notuð um þessi dýr, rotta og valska, koma ekki fyrir í fornum textum íslenskum. Í einni konungasögu, Knýtlinga sögu, segir frá atburði austur við Eyrarsund, „at þar kómu inn mýss margar valskar. Þær váru miklu stærri en menn hefði fyrr sét.“ Þarna er sýnilega gert ráð fyrir að rottur séu ókunnuglegar, jafnvel Dönum sem voru þarna á ferðinni. 

Fleira áhugavert: