Vegghengd salerni komu á markað

Heimild: 

 

Mars 1998

Vegghengd salerni sækja á

Komin eru á markað vegghengd salerni fyrir eldri baðherbergi. Þeim má koma fyrir án þess að brjóta veggi með tilheyrandi raski og óhreinindum.

SKRIÐAN féll eftir seinni heimsstyrjöld þegar stríðsgróðinn flæddi um landið, þá var byrjað fyrir alvöru að byggja íbúðarhús úr steinsteypu á Íslandi. Í höfuðborginni var byggt í Hlíðunum og Holtunum, stór sambýlishús risu á Melunum. Byggðin færðist austar í Reykjavík með árunum, sambýlishúsin við Álftamýri og Safamýri risu, byggðin flæddi til austurs. Upp úr miðri öldinni fór byggð að aukast í Kópavogi og á sjöunda áratugnum var hafin bygging á Flötunum í Garðabæ.

Eitthvað þessu líkt gerðist á flestum þéttbýlisstöðum landsins, mikið byggt og nær eingöngu úr steinsteypu. En nú er 21. öldin á næsta leiti og þá liggur sú staðreynd fyrir að mikill fjöldi bygginga hérlendis er á aldrinum 30 ­ 50 ára. Þetta þýðir einfaldlega að margar af þessum byggingum eru komnar „á aldur.“ Hérlendis hefur það verið lenska að byggja hratt og oft á tíðum vel, en svo er eins og enginn hafi gert sér grein fyrir því að þessar sömu byggingar þurfa viðhald og eftirlit. Þó tekur steininn úr þegar kemur að viðhaldi opinberra bygginga, þar hefur allt verið látið reka á reiðanum og mætti nefna um það mörg dæmi.

Endurnýjun lagna

Eitt af því mikilvægasta er endurnýjun lagna og þá koma syndir fortíðarinnar heldur betur upp á yfirborðið.

Að leggja allar lagnir, jafnt hita- og neysluvatnslagnir, í gólfraufar í kjöllurum eða í neðstu plötu, hefur kostað húseigendur og raunar þjóðarbúið í heild, milljarða króna á umliðnum árum.

Þetta litla atriði, að innmúra baðker, hefur einnig kostað sitt og enn rembast menn eins og rjúpan við staurinn við þá iðju. En við endurnýjun lagnakerfa, hverju nafni sem þau nefnast, er nauðsynlegt að athuga vel sinn gang því nú til dags er um margt að velja, sem betur fer.

Við endunýjun á lögnum í eldri húsum beinist athyglin ekki síst að baðherbergjunum, það er vissulega eðlilegt. Baðherbergin eru oft prýði heimilanna og í þau vilja húseigendur leggja talsverða fjármuni.

En þar er kannske ekki síst nauðsynlegt að leggja höfuðið vel í bleyti áður en framkvæmdir hefjast. Skipulagi baðherbergis er oft hægt að breyta til bóta, það er ekki sjálfgefið að niðurröðun á hreinlætistækjum þurfi endilega að vera nákvæmlega sú sama og var í upphafi.

Það er full ástæða til að benda húseigendum, bæði þeim sem eru að endurnýja og þeim sem eru að byggja nýtt, að val á salerni getur breytt miklu um ásýnd baðherbergis. Vegghengda salernið er tvímælalaust að vinna á, fyrir því eru einkum tvær ástæður.

Í fyrsta lagi fagurfræði og í öðru lagi þægindi og hreinlæti. Vegghengda salernið er oftar en ekki til mikillar prýði í baðherberginu og það er engin spurning að það er miklu þægilegara að salernið stendur ekki á gólfi þegar þrifið er. En það er rétt að benda öllum þeim fjölmörgu íbúðareigendum sem standa frammi fyrir endurnýjun baðherbergja á það að komin eru á markað vegghengd salerni sem auðvelt er að koma fyrir í eldri baðherbergjum.

Og það besta við það er að slíkt er hægt að gera án þess að brjóta veggi með tilheyrandi raski og óhreinindum.

Fleira áhugavert: