Slökkvitæki – Reglugerð
Reglugerð um slökkvitæki nr.1068/2011
1. gr.
Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja að slökkvitæki séu af viðunandi gæðum og þeim sé viðhaldið með þeim hætti að þau séu að fullu virk á hverjum tíma.
2. gr.
Skilgreiningar og orðskýringar.
Handslökkvitæki: Laust slökkvitæki undir 20 kg að heildarþyngd.
Hreyfanlegt slökkvitæki: Laust slökkvitæki yfir 20 kg að heildarþyngd.
Slökkvitæki: Samheiti yfir allar gerðir slökkvibúnaðar, s.s. handslökkvitæki, hreyfanleg slökkvitæki og slöngukefli.
Slöngukefli: Slökkvitæki sem samanstendur af dreifistút, slöngu sem rúllað er upp á kefli og stofnloka, fasttengt vatnsveitu.
Slökkvimiðill: Öll þau efni sem hafa slökkvigetu og notuð eru á handslökkvitæki.
Viðhald: Allar aðgerðir, þar með talið innra eftirlit og yfirferð, sem miða að því að tryggja að slökkvitæki séu að fullu virk á hverjum tíma.
Yfirferð: Skoðun á ástandi tækis, magni og gæðum slökkvimiðils.
Þjónustuaðili: Fyrirtæki eða einstaklingur sem hefur starfsleyfi samkvæmt reglugerð um þjónustuaðila brunavarna og þjónustar slökkvitæki.
3. gr.
Kröfur til gæða búnaðar.
Slökkvitæki skulu vera af viðunandi gæðum og þeim skal viðhaldið með þeim hætti að þau séu að fullu virk á hverjum tíma. Handslökkvitæki og hreyfanleg slökkvitæki skulu uppfylla ákvæði reglna Vinnueftirlits ríkisins um þrýstibúnað, nr. 571/2000. Slöngukefli skulu uppfylla ákvæði VIII. kafla laga um mannvirki, nr. 160/2010 og reglugerðar um viðskipti með byggingarvörur, nr. 431/1994, með síðari breytingum.
Slökkvitæki og viðhald þeirra skulu að lágmarki uppfylla ákvæði nýjustu útgáfu eftirfarandi ÍST EN staðla:
- Handslökkvitæki: ÍST EN 3.
- Hreyfanleg slökkvitæki: ÍST EN 1866-1.
- Slöngukefli: ÍST EN 671-1.
- Viðhald slöngukefla: ÍST EN 671-3.
- Eldvarnarteppi: ÍST EN 1869.
Slökkvitæki sem falla undir a-, b- og c-lið 2. mgr. skulu vera CE-merkt.
4. gr.Geymsla á slökkviefnum.
Geymsla á slökkviefnum og áfylling á slökkvitæki skal fara fram í rýmum þar sem rakastigi í lofti er að jafnaði haldið undir 60%, eða í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda. Slökkviefnin skulu vera í þannig geymslu að ekki sé hætta á að þau óhreinkist, blotni eða skemmist af öðrum sökum.
5. gr.
Staðsetning slökkvitækja.
Fylgja skal leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar um val og staðsetningu slökkvitækja. Slökkvitæki skulu vera staðsett á greinilega merktum og aðgengilegum stöðum og skal handfang tækisins ekki vera ofar en 90 sm frá gólfi þannig að þægilegt sé fyrir notendur að ná til þeirra. Merkingar skulu vera í samræmi við reglur nr. 707/1995 um öryggis- og heilbrigðismerkingar á vinnustöðum.
Slökkvitæki skulu hengd upp í þar til gerð upphengi eða vera í merktum skápum, þar sem þau eru varin gegn falli eða hnjaski, og kyrfilega fest eftir því sem aðstæður krefjast.
6. gr.
Merking slökkvitækja.
Framan á slökkvitæki skulu vera auðskildar leiðbeiningar á íslensku um notkun þeirra. Merkingar á tæki skulu vera samkvæmt ÍST EN 3, ÍST EN 671-1 og í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda og leiðbeiningar Mannvirkjastofnunar eftir því sem við á.
Ekki má hylja eða fjarlægja þjónustumiða fyrri skoðana af slökkvitækjum.
7. gr.
Ábyrgð eiganda á eftirliti.
Eigandi eða umráðamaður mannvirkis ber ábyrgð á að haft sé reglubundið eftirlit með slökkvitækjum í mannvirkinu.
8. gr.
Tíðni skoðana.
Komi ekki annað fram í leiðbeiningum framleiðanda er skylt að yfirfara slökkvitæki sem gerð er krafa um í gildandi lögum og reglugerðum minnst einu sinni á ári af þjónustuaðila. Mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um fyrirkomulag, tíðni og umfang þjónustu og viðhalds handslökkvitækja.
Tæki sem eru geymd við breytilegt hitastig eða aðrar aðstæður sem geta haft áhrif á virkni þeirra skulu þjónustuð oftar í samræmi við fyrirmæli Mannvirkjastofnunar eða annarra þar til bærra stofnana.
9. gr.
Breytingar á slökkvitækjum eða slökkvimiðli.
Ekki má breyta slökkvitæki eða nota aðra gerð slökkvimiðils en framleiðandi heimilar. Til breytinga telst einnig ef vikið er frá leiðbeiningum framleiðanda í þýðingu á leiðbeiningum um notkun tækjanna.
10. gr.
Slökkvitæki sem ekki skal þjónusta.
Ef ekki er hægt að fá varahluti eða slökkvimiðil fyrir slökkvitæki skal eigandi þess taka það úr notkun og koma slökkvimiðlinum til eyðingar á viðurkenndan hátt. Fái þjónustuaðili beiðni um að þjónusta slíkt tæki skal þjónustan ekki veitt og skal hann benda eiganda á að taka slökkvitækið úr notkun.
Þjónustuaðila er ekki heimilt að þjónusta slökkvitæki ef búið er að banna notkun þeirra eða slökkvimiðilsins.
11. gr.
Markaðseftirlit.
Framleiðandi, innflytjandi og seljandi slökkvitækis skulu geta sýnt fram á að slökkvitækið uppfylli ákvæði 3. gr.
Telji Mannvirkjastofnun að slökkvitæki fullnægi ekki kröfum reglugerðar þessarar er stofnuninni heimilt að banna sölu eða afhendingu þess og krefjast þess að slökkvitækið verði afturkallað og tekið af markaði. Um málsmeðferð Mannvirkjastofnunar og réttarfarsúrræði fer samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laga um mannvirki.
12. gr.
Refsiákvæði.
Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar varða refsingum samkvæmt 34. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir.
13. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 39. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 170/1990 um eftirlit og viðhald handslökkvitækja.
Umhverfisráðuneytinu, 8. nóvember 2011.
Svandís Svavarsdóttir