Baðherbergi – Slæm lykt..

Heimild: 

 

Júlí 1998

Slæm lykt í baðherberginu?

ÉG HAMAST við að skúra og skrúbba en ólyktin hverfur ekki!

Ástæður fyrir slæmri lykt í baðherbergjum geta verið margvíslegar. Á mörgum þeirra er hægt að ráð bót.

Það er fjári hart að þurfa að búa við slæma lykt í baðherberginu þó húsmóðirin hamist við næstum daglega (í flestum tilfellum er það hún en ekki húsbóndinn og þaðan af síður táningurinn) að þvo allt og pússa, notandi ýmis ilmefni til hjálpar. Flestir telja að í baðherberginu sé mesta hættan á ýmsum bakteríu- eða gerlagróðri og ekki að ástæðulausu, þarna eru mörg tæki sem tengd eru við skólpkerfi hússins. Það má þó skjóta því inn að nýlega var gerð könnun á því erlendis hvar á heimilinu bakteríugróður væri mestur á aðgengilegum stöðum og fyrirfram héldu menn að það væri klósettið og þó einkum klósettsetan.

En hún reyndist ótrúlega gróðursnauð og komst ekki í hálfkvisti við sigurvegarann. Bakteríugróður reyndist hvarvetna vera mestur á skurðarbrettinu í eldhúsinu. En þetta var svolítið upplýsandi útúrdúr, ætlunin var að fjalla örlítið um hvimleiðan vanda, nefnilega slæma lykt í baðherbergjum. Það verður að segja það strax að ástæður hennar eru margvíslegar og á mörgum hverjum er hægt að ráða bót. Eldri hús Í þeim er ástæðan oftar en ekki vöntun á útloftunarrörum, sem frekar ættu að heita innsogsrör, upp úr þaki eða út úr vegg. Það var ekki fyrr en eftir miðja öld sem menn gerðu sér grein fyrir því hérlendis að á slíku væri þörf, að leggja hvern skólpstofn á fjölhæða húsi ekki aðeins að tækjum á efstu hæð, heldur alla leið upp úr þaki.

Ástæðan er sú að þegar sturtað er niður úr klósetti á efstu hæð, til dæmis, rennur allt ljúflega niður meðan vatn rennur í klósettskálina. En um leið og það þrýtur þarf eitthvað að koma í staðinn vegna þess að vatnið, sem er á leið niður skólprörið, myndar undirþrýsting á eftir sér, þá þyrfti loft að geta streymt inn í pípuna. Þetta skýrist best með því að minna á hvað gerist þegar hellt er úr fullri flösku af vatni með því að hvolfa henni, upp í flöskuna sogast loft í staðinn fyrir vatnið sem úr henni rennur og á sama hátt getur hjúkrunarfræðingurinn sogað meðal upp í sprautu. Þetta sog eða undirþrýstingur, sem myndast, getur sogað vatn úr litlum vatnslásum, til dæmis undir baðkerum. Þá á ólyktin greiða leið inn í baðherbergið.

En það er ekki alltaf auðvelt að koma fyrir slíkri leiðslu upp úr þaki og þá koma undirþrýstingsventlar, sem við í daglegu tali köllum vakúmventla, að allgóðum notum og það er hægt að koma þeim fyrir á ýmsum stöðum, svo sem á frárennslinu frá handlauginni. Það er einnig nauðsynlegt að allar tengingar séu þéttar, í mörgum eldri böðum er gamla kíttið við klósettið oft orðið hart og sprungið, ekki vanþörf á að láta líta á það. Hvað um nýju böðin? Það er oft kvartað yfir ólykt í böðum í nýlegum húsum þar sem útloftun er í lagi og allar tengingar þéttar og alltaf verið að snyrta og snurfusa. Í öllum húsum, byggðum á síðasta áratug og rúmlega það, er yfirleitt gólflás í hverju baðherbergi, þetta er gert í öryggisskyni, ef vatnsleki verður á vatnið að fara niður um lásinn en ekki út um alla íbúð. Þessi lás er oftar er ekki orsök að slæmri lykt og það er ekki vegna þess að hann sé þurr eða vatnslaus og ólykt komist þannig inn frá skólpkerfinu.

Ef það er vatnslás í gólfinu á baðherberginu þínu þá líttu í eigin barm og svaraðu hreinskilningslega; hefurðu einhvern tímann tekið upp ristina og alla lausa hluti úr lásnum og þvegið þá og hann vandlega úr volgu klórvatni? Í flestum tilfellum rennur vatnið frá handlauginni í gegnum gólflásinn, þetta er gert til að tryggja að hann verði aldrei vatnslaus. Í dag eru flestar íbúðir mannlausar allan daginn, notkun á tækjum baðherbergis er oft eingöngu kvölds og morgna.

Þetta hefur í för með sér að ýmiskonar aukaefni, mannshár, krem og önnur snyrtiefni, afklipptar neglur, húðflyksur, húðfita og fleira sem til fellur nær að festast í lás frá handlaugum, baðkerum og sturtubotnum. Vegna þess hvað notkun er stopul nær bakteríugróður að festast í lásum, ekki aðeins gólflásum, heldur öllum vatnslásum við öll tæki. Það eru einmitt þeir sem mikil nauðsyn er að halda hreinum og það er ekki ólíklegt að í lásnum undir handlauginni sé allvænn kökkur af öllu því sem nefnt var að ofan, bindiefni hans er oftast mannshár. Það er öruggast að ráða niðurlögum bakteríugróðursins með því að hreinsa þá lása reglulega sem eru aðgengilegir, en einnig að hella í þá nokkrum sinnum á ári vægri blöndu af volgu klórvatni. Þá verður mikil slátrun í mörgum vatnslásnum, því þar hefur oft verið æði líflegt og sá búskapur getur gefið frá sér óæskilega lykt.

 

Fleira áhugavert: