Vatnsveita Álftanesi – Okurverð, léleg þjónusta..

Heimild: 

 

Maí 2018

Garðabær okrar á íbúum Álftaness

Sveinn Gauti Einarsson

Garðabæ fá íbúar neysluvatn sitt úr vatnsbólum Kópavogs í Vatnsendakrika. Gerði Garðabær hagstæðan samning við Kópavog um kaup á vatni árið 2006. Samningurinn var gerður með því skilyrði að öflun vatns úr vatnsbóli Garðbæinga í Dýjakrókum væri hætt.

Fyrir vatnið borgaði Garðabær 3,44 kr/m3​ ​ til og með ársins 2017. 1. jan 2018 hækkaði verðið á vatninu upp í 6,08 kr/m3​ ​ o​g mun vatnsverðið vera óbreytt til 2028. Garðabær fær vatnið afhent við Reykjanesbraut, nálægt Kauptúni.

Vatnsveita Garðabæjar sér svo um dreifingu og sölu vatnsins til allra svæði bæjarins ef frá eru talin Molduhraun og Álftanes. Molduhraun fær sitt neysluvatn frá Hafnarfirði, en Veitur ohf (OR) dreifa og selja vatn á Álftanesi.

Veitur kaupa vatnið sem dreift er á Álftanesi af Garðabæ, það er sama vatn og Garðabær kaupir af Kópavogi. Afhendingarstaður vatnsins er á Garðaholti. Fyrir vatnið borga Veitur í dag 26,61 kr/m3​ ​. Veitur tóku við eldri samningi um vatnskaup við Garðabæ af Vatnsveitu Álftaness sem var seld til Veitna árið 2004. Samningur þessi er tengdur byggingavísitölu, og mun því verð vatnsins hækka í takt við vísitöluna á næstu árum.

Þannig leggur Garðabær 338% á vatnið sem bærinn kaupir frá Kópavogi þegar það er selt áfram til íbúa Álftaness. Síðustu ár, áður en verðið á vatni frá Kópavogi hækkaði lagði Garðabær yfir 650% á vatnið sem selt var til Álftaness. Eðlilegt er að verðið hækki aðeins við það að það sé flutt í gegnum bæinn, en öllum er ljóst að kostnaðurinn við flutning á vatninu getur ekki réttlætt þessa hækkun.

En hvað þýðir þetta fyrir Álftnesinga ? Verðskrá Veitna fyrir kalt vatn er umtalsvert hærri á Álftanesi en í Reykjavík. Jafnframt er vatnsveitan á Álftanesi léleg, miklir lekar og víða lágur þrýstingur. Þannig fá Álftnesingar lélegri þjónustu, borga okurverð fyrir kalda neysluvatnið og niðurgreiða á sama tíma vatnið fyrir aðra íbúa Garðabæjar.

Garðabær og Álftanes er orðið sama sveitarfélagið. Við eigum ekki að sætta okkur við svona misræmi í innheimtu gjalda. Það eiga allir að sitja við sama borð.

 

Fleira áhugavert: