Iðnám – Njóti meiri virðingar..
Maí 2018
Bókin samsvarar ekki allri þekkingunni
Þekkingin skapar manninn – aukin þekking skapar skilning og vitund á samfélaginu í heild sinni. Því má segja að þekkingin sé okkar sverð í lífsbaráttunni.
Í þessari grein langar mig að koma á framfæri þau sjónarmið að bókin samsvarar ekki allri þekkingu og til eru fleiri en ein aðferð til þess að afla sér þekkingar og læra nýja hluti.
Við höfum kennt á bókina frá því að við munum eftir okkur. Í dag er gerð sterkari krafa á fleiri hæfniviðmið en í því samhengi er áhugavert að skoða hæfniviðmið á 18. öld, þar sem kristinfræði og íslenska voru talin einu skylduhlutverk skólayfirvalda að kenna. Frá þeim tíma til dagsins í dag hafa viðmiðin lukkulega breyst, en samfélagið er sífellt að taka á sig nýjar breytingar, sem við verðum að aðlaga okkur að. Kröfur nútímasamfélags er aukin verkleg kennsla eins og á tölvur, forritun og almenna snjalltækni.
Til eru mörg dæmi um nemendur sem eiga erfitt með að aðlaga sig að hinu hefðbundna bóknámi og fallast á brott eftir grunnskólann, en snúa síðan aftur til náms síðar á lífsleiðinni og þá helst í iðn- og verknám. Verkleg kennsla örvar hugann, en sú kennsla er sérstaklega mikilvæg á þroskaskeiði nemandans. Við þurfum því að veita þessum nemendum tækifæri til þess að læra á sínum eigin forsendum með fjölbreyttum kennsluaðferðum og þá strax í grunnskólanum. Við getum nýtt tæknina á svo fjölbreytta vegu, gert nám einstaklingsmiðaðra eins og með innleiðingu spjaldtalvna.
Iðn- og verknám verður að njóta meiri virðingar innan íslensks samfélags, frá ráðamönnum, skólayfirvöldum, mér og þér. Því iðnaðurinn er ein af grunnstoðum íslensks samfélags, því má ekki gleyma og verður að halda á lofti. Við verðum því að gera iðn- og verknám að spennandi, töff valkost fyrir komandi kynslóðir.