Orkuverðmætustu lönd veraldarinnar
Febrúar 2014
Rússland býr yfir mestu orkuverðmætum veraldarinnar
Á síðustu árum hefur listinn yfir þau lönd sem búa yfir mestu orkubirgðum veraldarinnar breyst nokkuð.
Eftir því sem olíuverð hefur hækkað hefur orðið hagkvæmt að vinna olíu úr olíusandi. Þar með var eðlilegt að taka geysilegar olíubirgðir sem þar er að finna með í reikninginn. Afleiðingin var einkum sú að olíubirgðir Kanada og Venesúela jukust mjög.
Svipað hefur gerst vegna nýrra vinnsluaðferða við að nálgast bæði olíu og gas sem liggja í þunnum lögum innklemmd í sandsteini (sem stundum er líka nefndur leirsteinn í skrifum um þetta á íslensku – og þá gjarnan talað um leirgas en sjaldnar um leirolíu; á ensku er talað um shale gas og tight oil). Þær vinnsluaðferðir (hydrologic fracturing eða fracking) hafa enn sem komið er fyrst og fremst aukið gasvinnslu í Bandaríkjunum. En talið er líklegt að þetta opni á aukna gas- og olíuvinnslu í mörgum öðrum löndum, t.d. í Rússlandi, Kína og Argentínu.
Mestu orkubirgðirnar liggja þó í kolum. Gífurleg eftirspurn eftir raforku í Kína og fleiri nýmarkaðslöndum hefur meira að segja valdið því að síðustu árin hefur verið algengt að mestur hlutfallslegur vöxtur í nýtingu orkuauðlinda hafi verið í kolum! Kolanotkunin hefur þannig stundum vaxið ennþá hraðar hlutfallaslega heldur en nýting á endurnýjanlegum auðlindum eins og sól eða vindi!
Fjölmiðillinn Business Insider var að birta nýjan lista yfir þau lönd sem búa yfir mestu orkubirgðunum (þar er sem sagt verið að fjalla um olíu-, gas- og kolavinnslu framtíðarinnar). Listinn byggir á gögnum frá BP Statistical Review 2013, sem er oft talin ein besta heimildin um orku í veröldinni. Þessi listi Business Insider tekur ekki til endurnýjanlegra orkuauðlinda, enda er nýting þeirra afar lítil miðað við allt jarðefnaeldsneytið. Og kjarnorkan er líka utan þessa samanburðar. Þetta er sem sagt eingöngu listi yfir jarðefnaeldsneytið (olíu, jarðgas og kol) sem lönd búa yfir.
Business Insider ákvað að leggja mat á verðmæti þessara auðlinda. Þar var i fyrsta lagi miðað við olíuverð á Brent-markaðnum, í öðru lagi var miðað við kolaverð á áströlskum kolum (sem mjög oft er miðað við í viðskiptum með kol) og í þriðja lagi var miðað við meðalverð á gasi í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Japan (gasverð er afar misjafnt í heiminum, enda miklu flóknara að flytja gasið langar leiðir heldur en olíu eða kol).
Listinn yfir fimm verðmætustu orkuríkin lítur þannig út (til samanburðar má t.d. hafa í huga að árleg verg þjóðarframleiðsla (GDP) í Bandaríkjunum er nú um 16 þúsund milljarðar USD og sama er að segja um Evrópusambandslöndin öll til samans):
1. Rússland. Heildarverðmæti rússnesku kolvetnislindanna er um 41 þúsund milljarðar USD. Landið býr yfir um 87 milljörðum tunna af olíu (8. mestu olíubirgðirnar), tæplega 34 þúsund milljörðum teningsmetra af jarðgasi (2. mestu gasbirgðirnar; einungis Íran býr yfir meira af jarðgasi) og 157 milljónum tonna af kolum (2. mestu kolabirgðirnar; einungis Bandaríkin búa yfir meiru af kolum). Orkuútflutningur er langmikilvægasta tekjulind Rússlands, sem fær meira en helming útflutningstekna sinna með þeim hætti.
2. Íran. Heildarverðmætið er um 35 þúsund milljarðar USD. Landið býr yfir um 157 milljörðum tunna af olíu (4. mestu olíubirgðirnar) og 34 þúsund milljörðum teningsmetra af jarðgasi (mestu gasbirgðirnar í víðri veröld!). Kolavinnsla er aftur á móti lítil í Íran alþjóðlegu samhengi.
3. Venesúela. Heildarverðmætið er um 35 þúsund milljarðar USD. Með olíusandinum er Venesúela talið búa yfir um 298 milljörðum tunna af vinnanlegri olíu! Það eru mestu olíubirgðir heimsins – meira en Saudi Arabía. Ennþá er reyndar nokkuð umdeilt hvort réttlætanlegt sé að áætla olíubirgðir Venesúela svo miklar. En það sama má segja um uppgefnar birgðir margra annarra landa. Veruleg og raunar aukin óvissa er talin vera um olíubirgðir í heiminum – vegna þess að stjórnvöld sumra ríkja eru grunuð um að kynna tölur sem byggja á of litlum rannsóknum. Umrædd tala um olíubirgðir í Venesúela eru þó viðurkenndar sem viðmiðunartölur. Venesúela er líka álitið búa yfir miklu jarðgasi eða um 6 þúsund milljörðum teningsmetrum (8. mestu í heiminum). Einnig er mikið af kolum í Venesúela eða um 480 milljónir tonna (15. mestu kolanámur veraldarinnar).
4. Saudi Arabía. Heildarverðmætið er um 33 þúsund milljarðar USD. Stutt er síðan Saudi Arabía var álitin búa yfir mestri oliu i jörðu í heimi hér. Í dag hefur Venesúela tekið það efsta sæti. Olíubirgðir í jörðu í Saudi Arabíu eru metnar um 266 milljarðar tunna (2. mestu í heiminum). Þar er líka að finna geysilegt magn af jarðgasi eða um 8 þúsund milljarðar teningsmetrar (6. mestu í heiminum). Kol eru aftur á móti ekki umtalsverð í alþjóðlegu samhengi. Það er athyglisvert að samtals eru olíubirgðirnar í Saudi Arabíu og Venesúela um 40% allrar olíu sem álitið er að vinna megi í heiminum öllum!
5. Bandaríkin. Heildarverðmætið er um 29 þúsund milljarðar USD. Þar að baki eru um 35 milljarðar tunna af olíu (11. mestu olíubirgðir í heiminum), um 9 þúsund milljarðar teningsmetrar af jarðgasi (5. mestu gasbirgðir í heiminum) og um 237 milljónir tonna af kolum (sem eru mestu kolabirgðir sem nokkurt ríki býr yfir). Bandaríkin eru sem sagt mesta kolastórveldið. Vegna aukinnar olíuvinnslu (vegna fracking) gætu Bandaríkin orðið mesti olíuframleiðandi heims innan fárra ára. Það er þó fremur ólíklegt að svo yrði lengi og Bandaríkin munu því áfram þurfa að flytja inn verulegt magn af olíu og/eða olíuafurðum. Þess vegna má gera ráð fyrir því að Bandaríkin munu áfram leitast við að halda áhrifum sínum við t.d. Persaflóann, þar sem flestar stærstu olíulindirnar eru.
—————–
Kína er í dag orðið mesti orkunotandi heimsins. En er einungis í 10. sæti yfir þau lönd sem búa yfir verðmætustu orkuauðlindunum. Innflutningsþörf Kínverja á orku er geysileg og það gæti til framtíðar skapað togstreitu milli Kína og Bandaríkjanna. En það er önnur saga..