Rafmagnsframleiðsla úr hitaveituvatni

Heimild: 

 

Janúar 2018

Hyggjast framleiða rafmagn úr heitu vatni á Flúðum

Hrunamannahreppur og Hitaveita Flúða hafa samið við Varmaorku um samstarf til framleiðslu rafmagns úr lághita. Nýstofnað fyrirtæki, Flúðaorka, heldur utan um framleiðsluna sem hefjast á í sumar úr heitavatnsholu í landi Kópsvatns við Flúðir.

Ætlunin er að framleiða 600 kW af raforku inn á kerfi Rarik. „Þetta snýst um þá tækni að það er verið að taka heitasta toppinn af vatninu, eða úr 115 gráðum og setja það niður í 75 gráður og framleiða rafmagn úr því. Í þessu tilfelli er hugsunin að nýta um 20 sekúndulítra í holunni í rafmagnsframleiðsluna en afkastageta holunnar er 45 sekúndulítrar,“ segir Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Hrunamannahrepps.

Framleiðslukerfið er byggt upp með smáum, sveigjanlegum einingum sem framleiða allt að 150 kW rafmagns. Hver eining er sjálfstæð svo einfalt er að auka við eða minnka framleiðsluna. Við framleiðsluna lækkar hitastig vatnsins án þess að breyta magni eða gæðum þess. Jón segir mikla eftirvæntingu vegna starfsemi Flúðaorku.

„Já, þetta er mjög spennandi verkefni og alveg nýtt fyrir okkur að framleiða rafmagn úr heitavatnsholu. Það er líka frábært því það er verið að nýta jarðhitaauðlindir sem mynda hreint og endurnýjanlegt rafmagn með tækni sem gerir kleift að nýta jarðhita mun betur en áður,“ segir sveitarstjórinn.

Fleira áhugavert: