Hækkandi verðlag – Vatn, fráveita, orka

Heimild: 

 

Janúar 2018

Dýrara að keyra, baða sig og sturta niður

Dýrara er að reka bíl eftir áramótin en fyrir þau vegna skattabreytinga sem hækka verð á eldsneyti. Einnig er orðið dýrara að fara í bað á höfuðborgarsvæðinu og sturta niður.
Ýmsar breytingar voru að venju gerðar á gjöldum, sköttum og gjaldskrám um áramótin. Eitt af því sem breyttist var hlutur ríkisins í eldsneytisverði. Bensín- og olíuverð er samsett úr nokkrum þáttum fyrir utan innflutningsverð. Einn þeirra er vörugjald sem er föst krónutala. Hún var 26,80 á lítrann, en hækkaði um áramótin í 27,35. Bensíngjaldið er líka föst krónutala sem fór úr fjörutíu og þremur komma tuttugu og fimm á hvern lítra í fjörutíu og fjórar komma fimmtán. Kolefnagjaldið, sem einnig er föst krónutala, hækkaði um 50% um áramótin. Það var 5,50, en er núna 8,25 á hvern lítra af bensíni. Ofan á allt leggst síðan virðisaukaskattur og saman þýðir þetta að verð á bensínlítranum hækkaði um 5,20 krónur um áramótin.

En hvað þýðir þetta þegar maður er sestur undir stýri og ætlar í ferðalag. Ef við gefum okkur að við séum á bíl sem eyðir tíu lítrum á hverja hundrað kílómetra og við kaupum bensín fyrir 5000 krónur hefðum við fyrir áramót náð að komast um það bil sex kílómetra norður fyrir Blönduós. Eftir áramót næðum við hins vegar ekki á Blönduós, heldur yrðum við bensínlaus um það bil fjórum kílómetrum áður til Blönduóss kæmi.

Þá hækkaði áfengisgjald um áramótin og tóbaksgjald, en hækkun áfengisgjalds er ekki að fullu komin fram samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR. Reykjavíkurborg hækkaði ýmsar gjaldskrár, svo sem bílastæðagjöld, aðgang að sundstöðum og fargjöld með Strætó. Gjald fyrir skólamáltíðir og vistun á leikskólum og frístundaheimilum var hækkað, svo dæmi séu tekin.

Þá breyttist gjaldskrá Veitna, sem er dótturfyrirtæki Orkuveitunnar, um áramótin. Rafmagnsverð lækkaði um 2 aura á kílóvattsstund vegna breytinga hjá Landsneti. Heitt vatn hækkaði um 1%, að sögn vegna breytinga á vísitölu neysluverðs. Kalda vatnið hækkaði um 4,5% vegna breytinga á byggingavísitölu. Það sama átti við um fráveitugjaldið sem hækkaði um 4,5% vegna hækkunar byggingavísitölu.

Fleira áhugavert: