Svartá Bárðardal – 10 MW virkjun
Nóvember 2015
9 hektara landsvæði
Til þess að byggja megi virkjunina, þarf að gera breytingar á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar. Þannig verður svæðið skilgreint sem iðnaðarsvæði í nýju skipulagi. Svæðið er minna en önnur iðnaðarsvæði tengd vatnsaflsvirkjunum í sveitarfélaginu. Þannig er svæði Laxárvirkjunar 27 hektarar og svæði Árteigsvirkjunar er um 80 hektarar. Þetta landsvæði er hins vegar aðeins rúmir 9 hektarar og er í dag skilgreint sem landbúnaðarsvæði.
Neikvæð áhrif á votlendi
Í greinargerð sem fylgir breytingartillögunni er farið yfir áhrif breytingarinnar og byggingar virkjunarinnar á umhverfið. Þar kemur fram að hún mun hafa áhrif á landslag og jarðmyndanir. Þá segir að virkjunin hafi áhrif á vatnafar, enda verður ánni veitt í gegnum áðurnefnda pípu. Þó á að tryggja lágmarksrennsli í ánni sjálfri. Þá segir að votlendi á svæðinu gæti orðið fyrir áhrifum af framkvæmdinni. Það vekur athygli í ljósi þess að stjórnvöld leggja áherslu á endurheimt votlendis í sóknaráætlun sinni í loftslagsmálum.
Óveruleg áhrif fyrir heildina
Þá verður dýralíf fyrir áhrifum, svo sem fiskistofnar. Það gæti því haft áhrif á veiði í ánni. Í mati á umhverfisáhrifum er því gerð grein fyrir því að áhrif af framkvæmdum verða þó nokkur og neikvæð. Þrátt fyrir það segir í niðurstöðu umhverfismatsins, að neikvæðu áhrifin séu talin óveruleg ef horft er til sveitarfélagsins sem heildar. Virkjun vatnsafls hafi óhjákvæmlega í för með sér neikvæð áhrif á umhverfið. Markmiðið sé þó að lágmarka þau áhrif eins og kostur er.
47 kílómetra jarðstrengur
Frá stöðvarhúsinu á að leggja rafstreng í jörðu, að tengivirki Landsnets við Laxá. Samhliða á að leggja ljósleiðara, 47 kílómetra vegalengd. Farið verður með strenginn yfir Fljótsheiði og undir þjóðveg 1 við Másvatn. Þaðan verður strengurinn svo lagður áfram að Laxá.
Nagað í jaðar hálendis
Meðal þess, sem kemur fram í innsendum athugasemdum vegna breytingarinnar, er að umhverfismati hafi verið ábótavant og að óafturkræft og óbætanlegt tjón hljótist af virkjuninni. Þó virkjunin líti sakleysislega út á pappírum þá séu til umdeildar áætlanir um stórframkvæmdir í nágrenninu. „Hér er verið að naga í jaðar ósnortins hálendis,“ segir meðal annars í athugasemd.