Svartá Bárðardal – 10 MW virkjun

Heimild: 

 

Nóvember 2015

Reisa á tæplega 10 MW virkjun í Svartá í Bárðardal, gangi breytingar á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar eftir. Til að koma orkunni út í kerfið þarf að leggja 47 kílómetra langan jarðstreng og einnig þarf ríflega þriggja kílómetra langa aðrennslispípu frá stíflunni að stöðvarhúsinu. Umhverfisáhrif eru metin neikvæð fyrir hið afmarkaða svæði virkjunarinnar, en ekki fyrir sveitarfélagið í heild.
Fyrirtækið SSB Orka hyggst reisa virkjun í Svartá. Reisa á stöðvarhús við bakka árinnar, neðan við beygju hennar til norðurs á móts við bæina Bjarnarstaði og Rauðafell. Nokkru ofar í ánni verður byggð stífla og þaðan verður áin leidd í aðrennslispípu að stöðvarhúsinu, alls um 3,1 kílómetra. Grafa á pípuna niður og endurfylla með gróðurmold, en í lýsingu í tillögu að breytingu á aðalskipulagi kemur fram að pípan verði lögð um gróið land. Til að jafna þrýstingssveiflur í pípunni við breytilegt álag, þarf jafnframt að steypa upp svokallaða jöfnunarþró skammt ofan við stöðvarhúsið.

9 hektara landsvæði
Til þess að byggja megi virkjunina, þarf að gera breytingar á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar. Þannig verður svæðið skilgreint sem iðnaðarsvæði í nýju skipulagi. Svæðið er minna en önnur iðnaðarsvæði tengd vatnsaflsvirkjunum í sveitarfélaginu. Þannig er svæði Laxárvirkjunar 27 hektarar og svæði Árteigsvirkjunar er um 80 hektarar. Þetta landsvæði er hins vegar aðeins rúmir 9 hektarar og er í dag skilgreint sem landbúnaðarsvæði.

Neikvæð áhrif á votlendi
Í greinargerð sem fylgir breytingartillögunni er farið yfir áhrif breytingarinnar og byggingar virkjunarinnar á umhverfið. Þar kemur fram að hún mun hafa áhrif á landslag og jarðmyndanir. Þá segir að virkjunin hafi áhrif á vatnafar, enda verður ánni veitt í gegnum áðurnefnda pípu. Þó á að tryggja lágmarksrennsli í ánni sjálfri. Þá segir að votlendi á svæðinu gæti orðið fyrir áhrifum af framkvæmdinni. Það vekur athygli í ljósi þess að stjórnvöld leggja áherslu á endurheimt votlendis í sóknaráætlun sinni í loftslagsmálum.

Óveruleg áhrif fyrir heildina
Þá verður dýralíf fyrir áhrifum, svo sem fiskistofnar. Það gæti því haft áhrif á veiði í ánni. Í mati á umhverfisáhrifum er því gerð grein fyrir því að áhrif af framkvæmdum verða þó nokkur og neikvæð. Þrátt fyrir það segir í niðurstöðu umhverfismatsins, að neikvæðu áhrifin séu talin óveruleg ef horft er til sveitarfélagsins sem heildar. Virkjun vatnsafls hafi óhjákvæmlega í för með sér neikvæð áhrif á umhverfið.  Markmiðið sé þó að lágmarka þau áhrif eins og kostur er.

47 kílómetra jarðstrengur
Frá stöðvarhúsinu á að leggja rafstreng í jörðu, að tengivirki Landsnets við Laxá. Samhliða á að leggja ljósleiðara,  47 kílómetra vegalengd. Farið verður með strenginn yfir Fljótsheiði og undir þjóðveg 1 við Másvatn. Þaðan verður strengurinn svo lagður áfram að Laxá.

Nagað í jaðar hálendis
Meðal þess, sem kemur fram í innsendum athugasemdum vegna breytingarinnar, er að umhverfismati hafi verið ábótavant og að óafturkræft og óbætanlegt tjón hljótist af virkjuninni. Þó virkjunin líti sakleysislega út á pappírum þá séu til umdeildar áætlanir um stórframkvæmdir í nágrenninu. „Hér er verið að naga í jaðar ósnortins hálendis,“ segir meðal annars í athugasemd.

Fleira áhugavert: