Landnámsjörðin – Umhverfisslys, náttúruperla

Heimild: 

 

Nóvember 1998

Umhverfisslys skapaði náttúruperlu

Það sem átti þegjandi og hljóðalaust að hverfa niður í gjóturnar, fór alls ekki þangað. Fyrr en varði hafði myndast mjólkurhvít tjörn.

FRAM til þessa hefur það verið talinn einn dýrmætasti fjársjóður þessa lands að eiga orku í fallvötnum og varma í iðrum jarðar. Meðan aðrar þjóðir verða að brenna olíu eða kolum til að hita og lýsa hýbýli sín, höfum við „hreina“ orku sem ekki mengar og fleiri og fleiri staðir eru að verða „heitir“ hérlendis í staðinn fyrir „kaldir“, þar sem áður var talið útilokað að jarðvarmi fyndist finnst hann samt, þökk sé okkar frábæru jarðvísindamönnum.

Þeir sem þekkja það hvaða mengun fylgir olíu- eða kolakyndingu skilja hvaða dýrmæti það er að hafa heita vatnið rennandi fyrirhafnarlaust um hitakerfið og það meira að segja víðast hvar á lágu verði. Þeir sem setið hafa á síðkvöldum við bókarlestur við olíutýrur skynja þýðingu þess að hafa öruggan orkugjafa eins og rafmagnið.

En það eru að vaxa upp kynslóðir í þessu landi sem þekkja ekkert annað en að stöðugur varmi streymir frá síheitum miðstöðvarofnum og að birtan skellur yfir og fer út í hvern krók og kima aðeins við það eitt að ýtt sé á takka. Nú er umræðan meir og meir orðin um það hvaða „mengun“ fylgir því að virkja fallvötnin og vissulega er sjálfsagt að fara með gát á þeirri vegferð, það eru til náttúruperlur sem enginn vill fórna, óþarfi að telja þær upp hér og nú. Hinsvegar virðist okkur Íslendingum vera í blóð borið visst ofstæki í hverju máli og ekki fer umræðan um virkjanir varhluta af því. Það síðasta sem glymur yfir okkur úr sjónvarpi allra landsmanna er margendurtekið að sú vá sé fyrir dyrum, að svo geti farið að Norðmenn eigi stærri ósnortin víðerni en við, ef við ekki hættum við öll helstu áform um virkjanir. Og það auðvitað Norðmenn, nóg er samt.

Hvað höfum við gert við landnámsjörðina?

En það er þá ekki í fyrsta sinni sem Íslendingar spilla og eyðileggja víðerni, ósnortin víðerni sem vissulega hefði verið dásamlegt að sýna útlendingum og dæmin eru nærtæk.

Fyrsti landböðullinn er talinn hafa borið nafnið Ingólfur Arnarson og hverrar þjóðar var hann?

Auðvitað Norðmaður, nema hvað.

Hann byrjaði á því að fremja það hervirki að byggja bæ sinn á ósnortnu víðerni á stað sem hann gaf nafnið Reykjavík og er við stóran flóa sem nefnist í daglegu tali Faxaflói. Ingólfur þessi var ekki eini harðsvíraði Norðmaðurinn sem réðst gegn síðasta ósnerta eylandinu á Atlantshafi, eyju sem einn skálkurinn, sem hafði þó þann manndóm að hypja sig aftur heim, nefndi Ísland, þokkalegt nafn eða hitt þó heldur. Þeir bókstaflega réðust að landinu meðfram allri ströndinni, þó þeir ekki byggðu virkjanir eða boruðu eftir heitu vatni, þá spilltu þeir ósnortnu víðerni þessa eylands með því að byggja bæi og plægja land til akurs.

Verst hefur þó verið farið með landnámsjörðina hans Ingólfs, Reykjavík, þar úir og grúir af mannvirkjum í öllum stærðum. Lengi vel var þó skiki, sem hann gaf Kár þræli sínum, nánast ósnortinn og gekk undir nafninu Kársnes og tilheyrði grjóturðum og melum sem Kópavogur nefndist og nefnist enn. Fyrir ekki meira en hálfri öld var svæði þetta nánast örfoka víðerni að mestu en nú er því endanlega spillt, ekkert nema mannvirki hvert sem litið er.

Sköpun Suðurnesja

Það er ekki ýkja langt síðan sá gróðurlitli skagi, sem Reykjanes heitir, var skapaður af þeim sem ræskir sig upp úr því neðra með eldi og brennisteini í orðsins fyllstu merkingu. Á þessum skaga hafa afkomendur spillingaraflanna frá Noregi tekið sér bólfestu eins og hvarvetna meðfram strönd þessa eylands, vissulega með kynbótum frá Írum, Fransmönnum og Hollendingum ásamt síðustu stóru viðbótinni frá tjöllum og könum.

En ekkert er þessari þjóðarsúpu heilagt, þar eins og annarsstaðar var ekki hægt að láta hjá líða að bora ofan í víðernið í leit að varma og orku.

Og viti menn, hvorutveggja fannst.

Að vísu var heita vatnið dæmalaust sull, einhverskonar „súpa“ af sjóblönduðu vatni, fullt af allskonar efnum, sem hefði eyðilagt hvaða rör sem því var hleypt inn í, nema þau væru gjörð af þeim eðalmálmum sem eru svo dýrir að ekki var möguleiki að dreifa súpunni beint.

En víðernisböðlar eru seigir að finna ráð og þeim tókst að smíða varmaskipta sem þoldu súpuna, hita upp fínasta vatn og senda það um allan skagann.

Og allir undu glaðir við sitt þar syðra og upp var fundið tómstundagaman sem sló út bingóið og kanasjónvarpið; að plata hitaveituna með því að „eiga“ við hemlana sem skömmtuðu heita vatnið inn í húsin.

En þá vandaðist málið; hvað átti að gera við „súpuna“ þegar búið var að kreista úr henni varmann?

Hitaveitukallar skimuðu í kringum sig eins og smástrákar sem ætla að fremja skammarstrik og skammarstrikið frömdu þeir. Létu „súpuna“ gossa út í hraunið, snéru við gömlum íslenskum málshætti og sögðu „lengi tekur hraunið við.“

En það tók ekki lengi við, það sem átti þegjandi og hljóðalaust að hverfa niður í gjóturnar fór alls ekki þangað, það fyllti gjóturnar með ýmiskonar efnum og fyrr en varði hafði myndast mjólkurhvít tjörn.

Skammarstrikið komst upp.

Já, vissulega komst það upp og er í dag ein helsta perla landsins sem allir túristar eru leiddir að og í, Bláa lónið á Svartsengi. En hverskonar túristar koma til þessa lands, þeir láta bjóða sér að leggjast í mengunarslys á Suðurnesjum, láta telja sér trú um að þetta sé náttúruperla og ekki nóg með það.

Yfir þeim gnæfir hvæsandi sjónmengun, orkuverið sjálft. Er furða þó menn segi hingað og ekki lengra, nú hættum við að virkja.

Fleira áhugavert: