Launamaður eða verktaki?

Heimild: 

 

Júní 2009

Er verra að vera verktaki?

Ásgeir Ingvarsson

Verktakar búa við aukið frelsi en meiri óvissu. Þurfa að standa skil á sköttum og gjöldum sem taka verður með í reikninginn. Ráðlegt að festa í samning ákvæði t.d. um umfang vinnunnar

Þó meirihluti vinnandi fólks á Íslandi sé í hefðbundinni launavinnu er alltaf þónokkur fjöldi sem fær greitt fyrir vinnu sína sem verktakar og þá ýmist að verktakavinnan er aðalvinna viðkomandi eða um minni verkefni að ræða sem unnin eru til viðbótar við föst störf.

Að sögn Stefáns Aðalsteinssonar, framkvæmdastjóra BHM, getur það haft bæði kosti og galla í för með sér að vinna sem verktaki: „Algengasta vandamálið er þegar launþegar eru gerðir að „gerviverktökum“ eins og það er kallað: vinna áfram sömu störf en ekki lengur sem starfsmenn verkkaupa heldur sem verktakar,“ segir Stefán. „Þá er oft í boði hærri greiðsla fyrir sömu vinnu t.d. vegna tryggingagjalds og lífeyrisgreiðslna sem vinnuveitandi hefði greitt áður en bætast nú við launatöluna. Hins vegar gleymist stundum að gera ráð fyrir ýmsum öðrum réttindum og greiðslum sem verktakinn þarf svo að standa skil á.“

Má bæta 50% við launin

Valkostur Það getur hentað mörgum að vinna sem verktakar en að ýmsu þarf að huga, bæði þegar kemur að launum, skattaskilum og atvinnuöryggi. Verktakar hafa til dæmis engan uppsagnarfrest né veikindaréttindi.

Stefán nefnir sem dæmi að bæta þurfi í kringum 7% við launatöluna, hið minnsta, til að jafna þann veikindarétt sem almennir launþegar eiga. Þá þarf að gera ráð fyrir mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð og greiðslum eins og t.d. desemberuppbót. „Til að fá grófa hugmynd um eðlilega greiðslu fyrir verktakavinnu er ágætis regla að bæta 50% ofan á það sem myndu þykja eðlileg laun sem starfsmaður fyrir sömu störf. Tína má til margt fleira, eins og t.d. réttindi til matar- og kaffitíma og ákveðinna slysatrygginga sem launþegar njóta, og þannig reikna álagið jafnvel vel yfir 60%.“Það má nefna sem kost að verktaki ræður vinnutíma sínum mikið sjálfur, og smærri verktakaverkefni geta vitaskuld verið ágæt viðbót við aðrar tekjur. „Á móti kemur að verktakinn þarf oftast að leggja til tæki og starfsaðstöðu. Hann nýtur heldur ekki uppsagnarfrests og getur því búið við mun meiri tekjuóvissu en ef hann væri starfsmaður. Það var svo aðeins nýlega að gerðar voru breytingar á lögum sem veita verktökum aukin réttindi til atvinnuleysisbóta.“

Halda þarf utan um skattinn

Skattaskil verktaka eru líka flóknari en hjá venjulegum launþega. Ef umfangið á vinnunni er lítið er skattavinnan yfirleitt á færi flestra, en þegar verktakavinnan er umfangsmeiri segir Stefán oft ráðlegt að fá endurskoðanda til að halda utan um skattamálin. „Verktakar þurfa líka að gæta sín á því að greiða tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð jafnóðum, ef draga á þessar greiðslur frá reiknuðu endurgjaldi,“ bendir Stefán á. „Oft vill þessi liður gleymast, eða að verktakaverkefnin tínast inn óreglulega og fólk gerir ekki upp skattamálin fyrr en í lok árs. Sumir standa sig þá jafnvel að því að vera búnir að eyða öllum peningunum og lenda í vandræðum með að standa skil á tekjuskatti, tryggingagjaldi og lífeyrissjóðsgreiðslum ársins.“Verktakar geta einnig látið hjá líða að greiða til stéttarfélags, en Stefán segir þá um leið missa mikilvæg réttindi. „Greiðsla til stéttarfélags og sjúkrasjóðs tryggir ákveðinn veikindarétt og eru þau réttindi mun ódýrara fengin með stéttarfélagsaðild en ef að t.d. væri keypt samsvarandi trygging frá tryggingafélagi,“ segir hann. „Komi upp einhver deiluatriði um kjör getur verktaki átt þar rétt á aðstoð stéttarfélags hafi hann greitt þangað félagsgjöld, en annars ekki.“

Skýrt og skriflegt

Stefán ráðleggur verktökum að festa í samning kjör sín og skyldur. „Verktakar fá ýmist greitt fyrir að skila ákveðnu verkefni, eða að greiðslurnar miðast við tímafjölda, og þarf þá í báðum tilfellum að liggja skýrt fyrir t.d. hversu margar vinnustundir er áætlað að þurfi að vinna eða hver staða verktakans er ef forsendur breytast og verkefnið sem hann þarf að inna af hendi verður umfangsmeira eða erfiðara en upphaflega stóð til,“ segir hann.Loks bendir Stefán á að í árferði eins og er nú sé líklegt að fólki í verktakavinnu fjölgi: „Víða er í gildi hálfgert ráðningarbann en engu að síður ýmis verkefni sem þarf að vinna. Þá er algeng lausn að reynt sé að finna fólk til starfa í verktöku, og einnig að segja upp starfsmönnum en halda þeim áfram í störfum sem verktakar,“ segir hann. „Fólk þarf þá að gæta að kjörum sínum og hafa það hugfast að verktakinn á oft mun færri kosta völ en venjulegur starfsmaður.“

Í hnotskurn

» Verktakagreiðslur gætu þurft að vera meira en 60% hærri en venjuleg laun fyrir sama starf til að vega upp á móti ýmsum gjöldum og réttindum sem koma ekki endilega fram á venjulegum launaseðli.
» Verktakar þurfa m.a. að greiða tryggingagjald, mótframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð, og taka með í reikninginn missi desemberuppbóta, veikindaréttinda og launaðra frídaga.
» Það getur haft í för með sér aukinn sveigjanleika að vera verktaki. Þeir ráða oft vinnutíma sínum sjálfir og geta fært sig skjótt milli verkefna.

Fleira áhugavert: