Borhola Fljótum vannýtt – 30 l/s, 110°C

Heimild: 

 

Smella á mynd til að heyra umfjöllun RÚV

Mars 2018

Öflug borhola í Fljótum gæti hitað allan Sauðárkrók, en er einungis nýtt að litlum hluta. Það er of dýrt að flytja vatnið, segir sviðsstjóri Skagafjarðarveitna. Hann vonast til að hægt verði að nýta vatnið betur í framtíðinni.

 

Nýta einungis 15 prósent af orkunni

Skagafjarðarveitur lögðu hitaveitu í Fljótin 2015. Meginástæðan var nýtt lúxushótel sem þurfti mikið af heitu vatni. Ein hola var fyrir á svæðinu, en sú síðasta sem var boruð reyndist mun gjöfulli en gert var ráð fyrir.

Indriði Þór Einarsson, sviðsstjóri Skagafjarðarveitna, segir holuna geta dælt um 30 lítrum á sekúndu af um 110 gráðu heitu vatni.

„Þetta er mjög öflug hola,” segir hann. „En ætli við séum ekki að nýta í mesta lagi fimm til sex lítra á sekúndu af því yfir vetrartímann.”

Sérfræðingar stóðu og göptu

Þessir fimm til sex lítrar anna vel húshitun á svæðinu, í gegnum 33 tengingar og 45 kílómetra af lögnum.

„Þetta kom okkur gríðarlega á óvart og sérfræðingar frá Ísor stóðu bara og göptu þegar holan stóð hérna opin og strókurinn upp í 20 metra hæð upp fyrir holuna.”

Gæti hitað upp allan Sauðárkrók

Indriði segir holuna nógu öfluga til að hita upp öll heimili á Sauðárkróki. En staðsetningin er erfið.

„Það kostar mikið að flytja vatnið langar leiðir og borgar sig í rauninni ekki nema þú hafir þó mikil not fyrir það á endanum,” segir hann. En orkuna er hægt að nýta í ýmislegt, ef vilji og fjármagn er fyrir hendi.

„Til dæmis ræktun eða ferðaþjónustu. Við erum með hótel nokkuð langt frá holunni, með sundlaug og heitum pottum, og þangað erum við að flytja vatn sem er um 65 gráðu heitt á þeim enda,” segir hann. „Þannig að það er ýmislegt sem þetta gefur möguleika á og vonandi verður þetta nýtt betur í framtíðinni.”

Borhola í Fljótum.

Mynd – Jón Steinar Ragnarsson

Myndaniðurstaða fyrir borhola fljótum

Fleira áhugavert: