Stórbrunar í Reykjavík (myndbönd)

Heimild: mbl  

 

Stórbrunar í Reykjavík síðustu öldina. Árið 1901 brunnu 150 tunnur af steinolíu við Batteríið svokallaða, rúmri hálfri öld síðar brann gasstöðin Ísaga við Rauðarárstíg, í ársbyrjun 1989 brann Gúmmívinnustofan og 2002 varð Teppaland við Fákafen eldi að bráð. Bruni varð í Skeifunni 11 í júlí árið 2014. Bruni varð í Miðhrauni 4 varð í mars árið 2018.

Apríl 2018

Stórbruni við Miðhraun

Reykurinn teygði sig hátt til himins yfir Miðbraut 4 í Garðabæ í morgun. Hann lagði svo yfir Hafnarfjörð og Álftanes til norðvesturs. Vilhjálmur Þór Guðmundsson, tökumaður RÚV, tók meðfylgjandi myndir af eldsvoðanum í morgun með hjálp dróna.

Smella á mynd til að sjá myndband frá RÚV, annað efni í þessari grein er frá MBL

Júlí 2014 

Stóbruni varð í Skeifuni 11 

Rann­sókn Lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu á bruna í hús­um við Skeif­una 11, Reykja­vík, að kvöldi sunnu­dags­ins 6. júlí er nú lokið.

Niðurstaða rann­sókn­ar er að eld­ur hafi komið upp í hús­næði þar sem Fönn ehf rek­ur þvotta­hús og efna­laug, nán­ar til­tekið í einn­ar hæðar bygg­ingu á norður­hluta lóðar­inn­ar, í miðbygg­ingu þar sem versl­un­in Víðir er með starf­semi í aust­ur­hluta og versl­un­in Griff­ill í vest­ur­hluta.

Elds­upp­tök voru í og við þvotta­grind­ur sem stóðu við strau­vél­ar. Sjálfs­íkveikja hef­ur þar orðið vegna hita og oxun­ar eft­ir þvott og við þurrk­un, í stafla af bóm­ull­ar­blönduðu efni. Að sögn lög­reglu var mik­ill hiti orðinn í rým­inu þegar eld­ur­inn kviknaði, og leiddi það til þess að hann barst hratt út.

Að rann­sókn hafa unnið sér­fræðing­ar tækni­deild­ar lög­reglu auk annarra sér­fræðinga sem hún hef­ur leitað til, t.d. frá Mann­virkja­stofn­un.

(Grétar Þorsteinsson tók myndband hér að ofan, heimild af youtube)

Ágúst 2002

Varð mikill eldur í verslunar- og lagerhúsnæði við Fákafen 9

Þar kviknaði í lager verslunarinnar Teppalands sem var í kjallara hússins. Nokkur mengun varð, enda töluvert að teppum og plasti sem varð eldinum að bráð. Á annan tug fyrirtækja ráku verslanir eða voru með vörulagera í húsinu, auk þess sem Reykjavíkurborg var með geymslurými í kjallaranum þar sem geymd voru verk í eigu Listasafns Reykjavíkur. Tjón af völdum eldsvoðans nam mörg hundruð milljónum króna. Þegar slökkviliðið kom á staðinn var reynt að senda inn reykkafara, en þeir þurftu frá að hverfa sökum hita auk þess sem hrunhætta var of mikil. Í framhaldinu beindist starf slökkviliðsins að því að reyna að hindra að eldurinn breiddist út og koma froðu niður í kjallarann þar sem eldurinn logaði.

 

Janúar 1989

Stórbruni við Réttarháls, Gúmívinnusofan

Skemmst er að minnast stórbrunans við Réttarháls sem upp kom í ársbyrjun 1989, en þá varð hundraða milljóna króna tjón. Fyrirtækið Gúmmívinnustofan eyðilagðist algjörlega auk þess sem sex önnur fyrirtæki er höfðu starfsemi í húsnæðinu og viðbyggingu þess skemmdust mikið. Eldurinn kom upp í sólningadeild Gúmmívinnustofunnar og varð ekki við neitt ráðið. Breiddist eldurinn ört út og gassprenging varð nokkru síðar, þannig að starfsmenn þar áttu fótum sínum fjör að launa. Aðeins einn þeirra slasaðist, en hann hlaut minniháttar brunasár á höndum og í andliti.

Allt tiltækt lið slökkviliðsins var kallað úr ásamt liðsauka frá Reykjavíkurflugvelli og Hafnarfirði, en slökkviliðið náði hins vegar ekki tökum á eldinum. Milli Gúmmívinnustofunnar og viðbyggingarinnar, þar sem hin fyrirtækin voru til húsa, var steinveggur sem varna hefði átt eldinum leið, en rannsókn leiddi í ljós að rofið hafði verið gat á milli húsanna tveggja án þess að setja upp eldvarnarhurð. Við athugun kom í ljós að brunavarnir í húsinu voru ekki í fullkomnu lagi og hafði Eldvarnareftirlitið gert athugasemdir.

Mikil sprengihætta þegar gasverksmiðjan Ísaga brann

Um miðja síðustu öld varð stórbruni í gasverksmiðju og skapaðist hættuástand vegna gífurlegra sprenginga á staðnum. Var þar um að ræða bruna í gasstöðinni Ísaga við Rauðarárstíg sem upp kom síðla kvölds 18. júlí 1963. Verksmiðjan Ísaga framleiddi súrefni og gas í tveim aðskildum verksmiðjuhúsum og kom eldurinn upp í þeirri sem framleiddi gas. Skömmu eftir að eldurinn braust út urðu sprengingar í húsinu sem stöfuðu frá fylltum gasgeymum sem þar voru inni og skapaðist hættuástand vegna þessa. Miklar skemmdir urðu á húsum í námunda við Ísaga og flúði fólk íbúðir sínar allt umhverfis eldstaðinn, enda flugu járn- og steinflykki langar leiðir. Svo mikill var loftþrýstingurinn af sprengingunum að rúður brotnuðu í húsum langa vegu frá eldsstaðnum, en dæmi var um að rúður hafi brotnað í húsum við Snorrabraut og Grettisgötu. Við rannsókn á orsök brunans í Ísaga kom í ljós að gáleysi olli honum. Starfsmaður verksmiðjunnar hugðist loka fyrir hylki, sem gas streymdi úr sökum þess að pakkning hafði sprungið, með eldheitum pípulykli, en við það blossaði upp eldur.

reykkofunEldur í olíu hjá Batteríinu árið 1901

Snemma á síðustu öld varð mikill eldur og mengun því fylgjandi þegar 150 tunnur af steinolíu brunnu. Eldurinn kom upp 21. júní 1901 í steinolíubyrgi Reykjavíkurkaupmanna skammt frá Batteríinu svonefnda. Eldsmagn var mikið, reykjarsúlu lagði hátt í loft upp og sást hún víða að. Vildi það til að vindátt var hagstæð og lagði bálið því ekki inn yfir bæinn. Eldsupptök voru rakin til fjögurra ungra drengja sem voru að leika sér með eld inni í byrginu.

Mesti bruni sem orðið hefur í Reykjavík var aðfaranótt 25. apríl 1915, en þá fórust tveir menn í gífurlegu eldhafi sem varð í miðbæ Reykjavíkur þar sem samtals tólf hús brunnu á skammri stundu. Eldurinn kom upp í Hótel Reykjavík og þótt allt tiltækt slökkvilið bæjarins væri kallað út og nánast allir íbúar bæjarins kæmu til aðstoðar varð ekki við neitt ráðið. Svo mikill var eldurinn að ef hvasst hefði verið í veðri hefði allur miðbærinn verið í stórkostlegri hættu, en aðeins var hægur andvari. Skrifstofur Eimskipafélagsins brunnu í húsinu Edinborg og skjöl í járnskáp, sem átti að heita eldtraustur, sviðnuðu svo í hitanum að þau voru orðin að ösku þegar skápurinn var opnaður. Hins vegar tókst að ráða niðurlögum eldsins áður en hann lagði hús Landsbankans með öllu í rúst, svo skjöl og peningar bankans björguðust. Af öðrum húsum sem brunnu auk Hótels Reykjavíkur má nefna Godthaabsverslunin, Syndikatið og Herdísarhúsið, sem öll stóðu sunnan Austurstrætis. Norðan Austurstrætis brunnu, auk Landsbankans, hús Nathans og Olsens og kjötbúð Frederiksens.

Af öðrum stórbrunum síðustu ára má nefna eldsvoðann við Laugaveg 19. október 2002 þegar fimm íbúðir í tveimur samliggjandi húsum við Laugaveg eyðilögðust í mesta eldsvoða sem hefur orðið í íbúðabyggð í Reykjavík í áratugi. Mikil sambrunahætta ríkti sökum nálægðar timburhúsa við eldsupptökin. Þóttu slökkviliðsmenn vinna mikið þrekvirki þegar þeir náðu að koma í veg fyrir að eldurinn bærist í timburhús, sem nánast var búið að afskrifa.

Einnig má nefna stórbrunann 30. júlí 1998 þegar Nýja bíós-húsið í Austurstræti brann. Þá var allt tiltækt slökkvilið í Reykjavík og Hafnarfirði kallað út og barðist það við eldinn í á þriðja klukkutíma við mjög erfiðar aðstæður og var einn slökkviliðsmaður hætt kominn þegar brennandi loftstokkur féll yfir hann um það leyti sem loft á súrefniskútum hans var að klárast.

Vinnuferlið varðandi reykköfun breyst

Inntur eftir því hvort orðið hafi miklar skipulagsbreytingar í kjölfar stórbruna síðustu ára og áratuga svarar Jón Viðar Matthíasson varaslökkviliðsstjóri því til að mestu skipulagsbreytingar hafi orðið eftir að kviknaði í Hótel Íslandi 1944, sem stóð við Austurstræti 2, en í kjölfarið voru settar reglur um ákveðna lágmarksfjarlægð milli timburhúsa. „En varðandi seinni tíma bruna þá hafa vissulega orðið ákveðnar skipulagsbreytingar, auk þess sem þeir hafa haft mikil áhrif á okkar störf. Við höfum þannig breytt bæði vinnurútínum okkar og vinnuaðferðum. Sem dæmi um það má nefna að vinnuferlið varðandi reykköfun hefur breyst í þá átt að tryggja betur öryggi reykkafaranna, auk þess sem við höfum aukið notkunina á reykköfunartækjum,“ segir Jón Viðar.

 

Fleira áhugavert: