Vatn & sítróna – Aldagömul heilsubót..
Nóvember 2014
„Heilsufar þjóðarinnar myndi stórbatna ef allir fengju sér sítrónuvatn á morgnanna og hægt væri að spara mikið af magalyfjum,“ sagði Hallgrímur Magnússon læknir í þættinum Reykjavík síðdegis í gær.
Sítrónuvatn er alla meina bót og inniheldur mikið af góðum efnum til að hreinsa eiturefni úr líkamanum. Best er að kreista um hálfa sítrónu í volgt vatn og drekka á tóman maga strax í morgunsárið.
„Síðan er líka hægt að taka sítrónusafa og ólífuolíu og drekka á kvöldin. Þá vinnur lifrin betur, hreinsar hana og bætir meltinguna þannig að maður sefur mun mun betur,“ segir Hallgrímur sem líkir sítrónuvatnsdrykkju við að „skúra líkamann að innan.“
Eykur svefn
Hallgrímur segir sítrónuvatn geta stuðlað að betri svefni og unnið á móti brjóstsviða og öðrum kvillum. „Síðan er það húðin sem verður einnig betri. Það er vegna þess að húðin er ekkert nema spegilmynd á því sem gengur fyrir á fyrir innan,“ segir Hallgrímur.
Þessi aðferð er þó ekki ný af nálinni og hefur verið vel þekkt í áraraðir. „Sítrónusafi á morgnanna hefur verið vel þekkt í þúsund ára. Sítrónan inniheldur mikið af góðum efnum til að hvetja meltinguna í kerfinu, til að hreinsa út eiturefni og gefur okkur orku.“
„Hjálpar okkur við að léttast“
Þá segir Hallgrímur aðferðina einnig nýtast þeim sem vilja missa nokkur kíló. Sítrónan setji streitu á magasýrurnar og undirbúi meltingarveginn fyrir fæðu. „Mikið af fitunni sem liggur utan á okkur er ekkert annað en eiturefni sem við höfum sett í fitufrumurnar í okkur. Þá fara þær að brenna betur niður og hjálpa okkur við að léttast ef það er málið.“