Rafbílavæðing London – Þarf 2 kjarnorkuver
Mars 2017
Í skýrslu sem tekin hefur verið saman fyrir samgöngustofu Lundúnaborgar (Tfl) kemur fram að skiptu allir Bretar yfir á rafbíl þyrfti 20 kjarnorkuver til að ráða við eftirspurnina eftir raforku.
Með öðrum orðum réði orkukerfið ekki við vandann ef allir keyptu sér rafbíl, að sögn blaðsins The Times. Tfl komst að því að fimmfalda orku jarðlestakerfis London þyrfti til að hlaða rafgeyma ef allir íbúar London á þeim aldri sem fólk kaupir sér bíl á keyptu sér Nissan Leaf, Tesla Model S eða álíka bíla.
Jafngilda útreikningar því að tveggja nýrra kjarnorkuvera væri þörf til að sjá 2,5 milljóna flota rafbíla Lundúnabúa fyrir rafmagni. Væri sá floti um tíund allra bíla í Bretlandi en um 25 milljónir bíla er að staðaldri að finna í umferðinni þar í landi.
Ljóst er að þörfina fyrir brýna fjölgun kjarnorkuvera verður ekki að finna í bráð, að sögn sérfræðinga. Bretar eru ekki við það að stökkva til og kaupa rafbíla í margfalt meira mæli en hingað til. Þótt salan ykist verulega milli ára bættust aðeins um 35.000 nýir rafbílar við flota landsmanna árið 2016. Skerfur þeirra í heildar nýskráningum var einungis um 1,3%. Þótt aukningin frá 2015 hafi numið 12,1% munu með sömu aukningu milli ára líða að minnsta kosti tíu ár þar til rafmagnið tekur fram úr bensíni og dísil sem orkugjafi nýrra bíla.
Þeir, sem stendur stuggur af fjölgun kjarnorkuvera, geta huggað sig við það að þegar vandamál sem byggjast á tilgátum eiga að ríða yfir hefur vísindum og verktækni fleygt nógu mikið fram til að leysa vandann áður. Þannig var það til dæmis að fyrir 120 árum blöskraði blaðinu The Times svo hrossatað á götum Lundúna, að það spáði því að með sama áframhaldi yrðu stræti borgarinnar grafin undir þriggja metra þykku taðlagi um það bil hálfri öld seinna, eða kringum 1940. Uppgötvun bílsins er að þakka að þarfasti þjónninn vék sem samgöngutæki og aldrei hrúgaðist taðið því upp að heitið gat.