Hverfisfljót Skaftárhreppi – 9 MW virkjun?
Nóvember 2017
Frummatsskýrsla á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar 9,3 megavatta (MW) virkjunar í Hverfisfljóti við Hnútu í Skaftárhreppi er að langmestu leyti byggð á nokkurra ára gamalli matsskýrslu og um 10 ára gömlum gögnum. Allar náttúrufræðirannsóknir og athuganir voru gerðar árið 2008 eða fyrr. Að mati Náttúruminjasafns Íslands skortir auk þess umtalsvert á fagleg vinnubrögð í skýrslunni og „töluvert ber á misskilningi og vanþekkingu um náttúrufræðileg atriði“. Náttúrufræðistofnun Íslands bendir m.a. á að ekkert jarðfræðikort sé að finna í skýrslunni þrátt fyrir að svæðið sem um ræði sé merkilegt á bæði lands- og heimsvísu vegna Skaftáreldanna. Hefur stjórn Landverndar efasemdir um að verklag við gerð skýrslunnar standist að öllu leyti markmið laga um mat á umhverfisáhrifum.
Landvernd og Náttúruminjasafnið eru í hópi 38 aðila sem gerðu athugasemdir við frummatsskýrsluna. Þá skiluðu níu stofnanir umsögnum að auki. Skýrslan var unnin af Mannviti fyrir framkvæmdaaðilann Ragnar Jónsson sem jafnframt er eigandi jarðarinnar Dalshöfða. Fyrirhuguð virkjun yrði í hans landi en í skýrslunni er m.a. fjallað um efnisnámur í landi annarra jarða og fyrirhugaða lagningu jarðstrengs um eina þeirra. Áhrifasvæði framkvæmdanna er því ekki bundið við Dalshöfða.
Í athugasemdum er aldur gagna sem stuðst er við ítrekað gagnrýndur. Í kafla um áhrif virkjunarinnar á ferðamennsku liggja til að mynda ekki nýjar rannsóknir á svæðinu til grundvallar þrátt fyrir að ferðaþjónusta hafi aukist þar umtalsvert síðustu ár. Í kafla um fuglalíf, sem byggður er á rannsóknum frá árinu 2008 sem þá þegar voru gagnrýndar, er engu viðbætt öðru en að haft er eftir landeiganda að varp sílamávs sé nánast horfið. Lífríki á jafnkvikum stað og við Hverfisfljót getur tekið breytingum á skemmri tíma en áratug að mati Fuglaverndar sem leggur til að núverandi staða fuglalífsins verði skoðuð frekar.
Þá er kafli um íbúaþróun og stöðu atvinnulífs í Skaftárhreppi að hluta úreltur. Mælingar á rennsli árinnar eru einnig komnar til ára sinna. Þeim var hætt árið 2005 og tekið er fram í skýrslunni að raunverulegt rennsli sé líklega minna en þær sýndu. Þær hófust að nýju á öðrum stað í ánni síðasta haust og er aðeins getið í stuttu máli í skýrslunni.
Virkjað í vernduðu eldhrauni
Virkjunin yrði að hluta til í eldhrauni sem nýtur verndar í náttúruverndarlögum. Svæðið er auk þess á óbyggðu víðerni sem standa skal vörð um samkvæmt sömu lögum. Innan þess eru fossar og með virkjun myndi rennsli þeirra skerðast og hluta árs nær stöðvast. Fossar njóta einnig sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum. Hvorki þeim né eldhrauni skal raska nema að brýna nauðsyn beri til og að almannahagsmunir séu í húfi.
Engin virkjun er í Hverfisfljóti í dag en í nýjustu þingsályktunartillögu rammaáætlunar er lagt til að tvær stærri virkjanahugmyndir, Hverfisfljótsvirkjun og Kaldbaksvirkjun, fari í biðflokk. Um samlegðaráhrif þeirra og þessarar virkjunar gæti verið að ræða en hvergi er minnst á aðrar virkjanahugmyndir í ánni í frummatsskýrslunni.
Þá kemur þar fram að selja eigi raforkuna á almennum markaði og sú skoðun sett fram að framkvæmdin myndi stuðla að raforkuöryggi á svæðinu, „landeigendum og samfélaginu til hagsbóta“. Á þeim rökum er það niðurstaða skýrslunnar að röskun eldhrauns sé réttlætanleg. Landvernd telur hins vegar að framkvæmdaaðilinn hafi ekki sýnt fram á að brýnir almannahagsmunir séu í húfi og leggur til að Skipulagsstofnun vísi skýrslunni frá vegna fjölmargra annmarka.
Virkjun þegar á aðalskipulagi
Nú þegar frestur til athugasemda við frummatsskýrsluna er liðinn mun framkvæmdaaðili vinna matsskýrslu að teknu tilliti til þeirra. Skipulagsstofnun fær þá skýrslu til meðferðar og gefur að lokum álit sitt. Það er svo sveitarstjórnar Skaftárhrepps að taka afstöðu til útgáfu framkvæmdaleyfis og þá ákvörðun á m.a. að byggja á endanlegri skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Í núgildandi aðalskipulagi Skaftárhrepps, sem staðfest var árið 2011, er gert ráð fyrir virkjun Hverfisfljóts við Hnútu, allt að 40 MW að stærð.
Í frummatsskýrslunni segir að reist yrði stífla í Hverfisfljóti skammt frá fjallinu Hnútu, sem virkjunin er kennd við, og hluta vatnsins veitt úr farvegi þess á um 2,3 kílómetra leið að stöðvarhúsi. Á þessum kafla, þar sem Lambhagafossa er m.a. að finna, myndi rennsli minnka verulega yfir vetrarmánuðina og farvegurinn að líkindum þurrkast upp í mars á hverju ári. Fram kemur að ekkert uppistöðulón yrði gert en í engu er getið hversu stórt inntakslón myndi myndast handan stíflunnar að öðru leyti en því að það yrði „einungis í núverandi farvegi“ árinnar. Þetta er meðal þess sem gagnrýnt er í athugasemdum og spurt er hvað gera eigi við aurinn sem safnast innan stíflunnar. Um þann þátt er lítið sem ekkert fjallað í skýrslunni.
Hraunið fyllti gljúfur Hverfisfljóts
Hið fyrirhugaða virkjunarsvæði er að hluta í hinu 230 ára gamla Eldhrauni sem rann í Skaftáreldum á árunum 1783-1784 og kallast á þessum stað Brunahraun. Skaftáreldar voru eitt mesta eldgos Íslandssögunnar og þriðja mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni frá ísaldarlokum. Hraunstraumarnir fylltu gljúfur Skaftár og Hverfisfljóts og runnu þar til byggða í tveimur elfum og breiddust svo út yfir láglendið. Þetta mikla hraun hefur hátt verndargildi bæði á landsvísu og heimsvísu eins og vísað var til í úrskurði umhverfisráðuneytisins um virkjunaráformin árið 2007.
Fyrirhuguð lega aðkomuvegar að virkjunarsvæðinu er um Brunahraun og myndu framkvæmdirnar því raska eldhrauni sem nýtur sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum. Sömu sögu er að segja um fimm efnistökusvæði vegna virkjunarinnar. Aðrir framkvæmdaþættir myndu, að því er fram kemur í frummatsskýrslu, hafa áhrif á Núpahraun sem einnig er eldhraun en mun eldra eða um 6.000 ára gamalt.
Mótun farvegar enn í fullum gangi
Margir þeirra sem gera athugasemdir við frummatsskýrsluna staldra sérstaklega við þetta atriði: Að með virkjuninni yrði sögulega og jarðfræðilega merkilegri landslagsheild raskað með óafturkræfum hætti. Í athugasemdum Eldvatna – samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi, sem og Náttúruverndarsamtaka Suðurlands, er bent á að núverandi gljúfur Hverfisfljóts, „hin stórfenglega náttúrusmíð með alla sína skessukatla“, sé eitt hið yngsta sinnar tegundar í heiminum. Er þar vitnað í ábendingu starfsmanna Orkustofnunar frá árinu 2006 um að margir telji Lambhagafossa í Hverfisfljóti „með allra sérkennilegustu vatnsvegafyrirbærum á landinu, en þarna er mótun farvegar í nýlegu hrauni enn í fullum gangi“.
Benedikt Traustason, sem á ættir að rekja á svæðið, lýsir því með eftirfarandi hætti í sínum athugasemdum: „Samspil beljandi stórfljóta, hrauns og jökla renna saman í stórfenglega heild sem hefur mjög mikið verndargildi enda á svæðið sér fáa líka í veröldinni.“
Svo sérstætt er svæðið, sem er í jaðri Vatnajökulsþjóðgarðs, að það er innan Kötlu jarðvangs og hluti af hnattrænum UNESCO-jarðvöngum. Á þetta er ekki minnst í frummatsskýrslunni og bendir Landvernd á verulega annamarka hennar m.a. af þeim sökum.
Úr 2,5 MW í 15 og loks í 9,3
Virkjun Hverfisfljóts við Hnútu hefur staðið til í allmörg ár. Fyrstu hugmyndir framkvæmdaaðila gerðu ráð fyrir 2,5 MW virkjun og í matsáætlun, sem fara þurfti í samkvæmt ákvörðun umhverfisráðherra í kjölfar kæru, var ákveðið að fjalla um allt að 15 MW virkjun. Skipulagsstofnun gaf út niðurstöðu sína um matsáætlun árið 2008 en stuttu seinna var áformunum frestað allt þar til nú og í dag stendur til að virkjunin verði 9,3 MW.
Í inngangi frummatsskýrslunnar segir að haldinn hafi verið fundur með Skipulagsstofnun haustið 2016 þar sem ný framkvæmdaáform voru kynnt. „Samþykkt var að ekki væri þörf á að vinna nýja matsáætlun en skýra þyrfti á greinagóðan hátt frá þeim breytingum sem átt hafa sér stað síðan matsáætlun var samþykkt.“
Séu liðin meira en tíu ár frá umhverfismati án þess að framkvæmdaleyfi er gefið út þarf að taka ákvörðun um hvort framkvæmd fari aftur í umhverfismat að hluta eða í heild. Níu ár eru liðin frá því matsáætlun Hverfisfljóts við Hnútu var gerð.
Þar sem virkjun Hverfisfljóts við Hnútu er undir 10 MW þarf hún ekki að fara í gegnum ítarlegt ferli rammaáætlunar, þar sem virkjunarhugmyndum er raðað í orkunýtingar-, bið- og verndarflokk. Hún er því í ört stækkandi hópi svonefndra „smávirkjana“ sem þegar hafa risið og eru á teikniborðinu víðs vegar um landið.
Stjórn Landverndar þykir það vekja tortryggni að ekki sé betur rökstutt í skýrslunni hvers vegna ákveðið var að minnka afl virkjunarinnar úr 15 MW í 9,3. „Hefði ekki verið eðlilegra að virkjunin færi í gegnum formlegt ferli rammaáætlunar þar sem hún hefði verið flokkuð ásamt öðrum virkjunarhugmyndum?“
Virkjunarframkvæmdin fæli m.a. í sér gerð 1-3 metra hárrar stíflu og inntaksmannvirkis, lagningu þrýstipípu um 2,3 km leið, byggingu stöðvarhúss og vegar að því, gerð 1-10 metra djúps og um 300 metra langs frárennslisskurðar frá stöðvarhúsi í ána, brú yfir Hverfisfljót og veg að bænum Dalshöfða. Í henni er minnst á aurhreinsibúnað við inntakið.
1,5 milljónir tonna af aur í ánni árlega
Hverfisfljót er jökulá en í það rennur einnig grunnvatn. Áin fellur úr Síðujökli í vestanverðum Vatnajökli, meðfram eystri jaðri Eldhrauns niður á Fljótseyrar rétt vestan Skeiðarársands. Að sumarlagi við jökulleysingu er mikill aurburður í henni en að vetrarlagi er vatnið „að mestu tært,“ eins og það er orðað í frummatsskýrslunni. Um 1,5 milljónir tonna af aur fara um árfarveginn á hverju ári.
Rennslismælingar í Hverfisfljóti við brú á þjóðvegi hófust 1981 en árið 2005 var þeim hætt. Í frummatsskýrslu kemur fram að þá hafi rekstur mælisins gengið brösuglega vegna mikils aurburðar og breytinga á árfarvegi. Erfiðleikar í mælingum draga því að sögn skýrsluhöfunda að einhverju leyti úr áreiðanleika þeirra og „hugsanlegt er að á tímum“ sé raunverulegt rennsli árinnar minna en mælingar sýndu.
Rennslis- og aurburðarmælingar hófust á nýjan leik ofan Lambhagafossa fyrir ári og samkvæmt frummatsskýrslu var áformað að halda þeim áfram fram á haustið 2017. Niðurstaða virðist ekki að fullu fengin í þær mælingar. „Áætlað er að rennsli Hverfisfljóts ofan Lambhagafossa sé um 90% af rennsli niður við brú,“ segir í skýrslunni. „Þetta hlutfall hefur verið staðfest með mælingum í mars 2006 og mars 2017. Mælingar í maí 2017 benda einnig til að hlutfallið geti átt við á þeim árstíma.“
Mikill munur á rennsli mili árstíða
Rennsli Hverfisfljóts er mjög misjafnt eftir árstíðum. Mest er það við jökulleysingu yfir sumartímann á meðan lágmarksrennsli er að jafnaði í mars. Meðalrennsli samkvæmt fyrrgreindum mælingum yfir vetrar- og vormánuði er 10-15 m3/s. Yfir sumarmánuði er allt að tífalt vetrarrennsli. Til marks um breytileika í rennsli árinnar eftir árstíð þá hefur dagsrennsli mest mælst tæpir 400 m3/s og minnst 1 m3/s.
Virkjun í ánni myndi nýta allt að 9,5 m3/s og þegar rennslið yrði undir magni færi það allt í virkjunina og árvegurinn á kafla þorna upp við slíkar aðstæður. Hugmyndir eru um að vélar virkjunar yrðu ekki keyrðar þann tíma ársins sem aurburður er hvað mestur, líklegast í júlí og ágúst en á þeim tíma er rennslið hvað mest. Miðað við það yrði virkjun að mesta lagi rekin í tíu mánuði á ári.
„Óheyrilega óskynsamlegur“ kostur
Í athugasemdum Steinunnar Sigurðardóttur rithöfundar, sem á ættir að rekja til svæðisins og er þar nú með sumarhús, er virkjun í Hverfisfljóti „óheyrilega lélegur og óskynsamlegur“ kostur, ekki síst vegna þess að á veturna breytist það í smásprænu eða bæjarlæk. „Hvað þá um það „öryggi“ í raforkumálum sveitarinnar sem gumað er af í skýrslunni? Rangfærsla? Fölsun?“ Steinunn bendir enn fremur á, líkt og fleiri sem gera athugasemdir, að hvergi í frummatsskýrslunni sé það nefnt að Hverfisfljót geti hlaupið.
Framkvæmdaaðilinn Ragnar Jónsson segir um þennan þátt í samtali við mbl.is að talið sé að virkjunin gæti nýst til að bæta raforkuöryggi, yrði hún þannig tengd flutningskerfinu. „Það er nú kannski ekki komið svo langt,“ segir hann spurður hvort slíkt standi til. „Það er alla vega hægt að gera það.“
Hann segir bilanir í raforkuflutningi ekki tíðar í Skaftárhreppi en um sveitarfélagið liggi byggðarlínan sem komin sé til ára sinna. Hann segir ekki fullvíst að rekstur virkjunarinnar verði stöðvaður í tvo mánuði á ári eins og sagt er koma til greina í skýrslunni. „Þeir hafa verið í mælingum núna dálítið lengi og verið að átta sig á því hvort þetta verður niðurstaðan eða ekki.“
Staðbundin en neikvæð áhrif
Niðurstaða skýrslunnar á umhverfisáhrifum á vatnafar er m.a. sú að þó að virkjun Hverfisfljóts myndi skerða rennsli Lambhagafossa í flestum mánuðum ársins yrði það á litlum kafla og áhrifin því staðbundin og talsvert neikvæð. Vægi áhrifa er hátt, að mati skýrsluhöfunda, vegna þess að fossar heyra undir lög um náttúruvernd. Stjórn Landverndar segir að af lestri frummatsskýrslunnar sé ljóst að ekki hefur verið tekið tillit til gildandi löggjafar um sérstaka vernd fossa. Í henni sé m.a. vísað til lagaákvæðis sem fellt hafi verið út. Þá sé með öllu óljóst hvort og þá hversu mikil og hvaða áhrif framkvæmdin myndi hafa á vatnafar neðar á vatnasviði Hverfisfljóts. Aðrir benda í sínum athugasemdum á að engar rannsóknir liggi fyrir um áhrif virkjunar á grunnvatn á svæðinu.
Þá segir í skýrslunni að framkvæmdirnar myndu hafa bein neikvæð og varanleg áhrif á gróðurlendi á framkvæmdasvæðinu vegna skerðingar. Sá gróður sem myndi skerðast sé ekki talinn hafa verndargildi í samræmi við válista Náttúrufræðistofnunar og yrðu heildaráhrif á gróður nokkuð neikvæð. Náttúruminjasafn Íslands segir í sínum athugasemdum að umfjöllun um áhrif á lífríki í skýrslunni sé mjög takmörkuð, sérstaklega hvað varðar vatnalífríki. Ekki hafi verið gerð heildstæð úttekt á gróðri á öllu áhrifasvæði virkjunarinnar, „sem er ófært“ að mati stofnunarinnar.
Virkjað yrði á óbyggðu víðerni
Framkvæmdirnar yrðu á svæði sem í dag er að mestu ósnortið utan vegslóða. Ásýnd á svæðinu myndi breytast með virkjun að mati skýrsluhöfunda og svæði sem skilgreint er óbyggt víðerni samkvæmt náttúruverndarlögum skerðast. Af þeim sökum og einnig þeirri staðreynd að rennsli Lambhagafossa myndi skerðast sýnilega um helming árs eru umhverfisáhrif á ásýnd lands metin nokkuð neikvæð. Steinunn Sigurðardóttir segir í athugasemdum sínum að vart sé annað unnt en að líta á virkjunina sem tilraun til „stórfellds skemmdarverks á ósnortnu víðerni“ og að mati stjórnar Landverndar yrðu ein alvarlegustu áhrifin þau sem snúa að víðernum „en hér kann í heild sinni að vera um að ræða ein minnst snortnu víðerni landsins.
Telja svæðið opnast ferðamönnum með virkjun
Það er mat skýrsluhöfunda að skipulögð ferðaþjónusta innan fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis sé óveruleg. Fram kemur í skýrslunni að Lambhagafossar hafi aðdráttarafl „og er vitað til þess að gönguhópar gangi um þetta svæði og virði fossana fyrir sér ásamt öðru“. Hluti þess hóps sem nýtir svæðið í dag myndi að öllum líkindum kjósa að viðhalda núverandi ástandi og því hefðu framkvæmdir nokkuð neikvæð áhrif á upplifun þeirra og áhuga á að ferðast um svæðið. „Með gerð slóða opnast svæðið betur fyrir þá sem ekki hafa komist eða ekki vitað um svæðið til þessa. Þannig gæti slíkt opnað fyrir aukna ferðamennsku og haft nokkuð jákvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist til stærri hóps ferðamanna.“
Framkvæmdaaðilinn segir í samtali við mbl.is að ekki komi margir ferðamenn að Lambhagafossum í dag og að það sé sín skoðun að vegir vegna virkjunarinnar myndu geta opnað þeim leið á svæðið og stuðlað að fjölgun. Sjálfur rak hann gistihús fyrir ferðamenn að Dalshöfða þar sem hann hefur búið í ein þrjátíu ár.
Einstætt svæði á heimsvísu
Margar athugasemdir sem bárust vegna frummatsskýrslunnar fjalla um mat skýrsluhöfunda á áhrifum á ferðamennsku. Bent er á að hvergi sé t.d. minnst á vinsælt gistiheimili í landi Dalshöfða eða rætt við aðra ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Í athugasemdum Íslenskra fjallaleiðsögumanna kemur fram að samspil eldvirkni og annarra landmótandi þátta í landslaginu geri landslagið við Hverfisfljót einstætt á heimsvísu þar sem óbyggðaupplifun ferðalanga sé afar sterk. „Slík gæði eru í raun ómetanleg og gera framtíðarvirði svæðisins að okkar mati miklu meiri ef það er látið ósnortið.“ Því er ennbfremur mótmælt umhverfisáhrif virkjunar yrðu „minni háttar“ þar sem rask yrði lítið. „Við mótmælum einnig að vegna þess að fáir fari þar um þá séu áhrifin á umhverfisþátt minni. Rask er ekki á nokkrun hátt betra af því að fáir sjái það.“
Enn fremur mótmæla Íslenskir fjallaleiðsögumenn því sem haldið er fram í skýrslunni að verði ekki virkjað haldist ferðaþjónusta eins og hún er í dag óbreytt. „Staðreyndin er sú að ferðaþjónusta er að gjörbreyta atvinnuháttum á öllu Suðurandi og á Íslandi í heild. […] Í Skaftárhreppi hafa nokkur fyrirtæki í ferðaþjónustu bæst við á síðustu tíu árum.“
Íbúum fjölgar á ný
Í frummatsskýrslunni segir: „Íbúar í Skaftárhreppi voru alls 470 árið 2016 og hefur íbúum fækkað nokkuð stöðugt síðan 1980 en þá bjuggu 693 í sveitarfélaginu.“ Í athugasemdum Z-listans, Sólar í Skaftárhreppi, segir að þetta sé ekki rétt og að jákvæðar breytingar hafi orðið síðustu ár hvað íbúafjölda og atvinnutækifæri varðar. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hóf íbúum að fjölga á ný árið 2013 og eru þeir nú orðnir 475.
Það er mat skýrsluhöfunda að uppbygging virkjunar í Hverfisfljóti kæmi til með að hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf í sveitarfélaginu og þá sérstaklega á framkvæmdatíma sem talinn er krefjast 60-70 ársverka í 2-3 ár. „Slíkt gæti orðið til þess að aukning yrði á íbúafjölda til frambúðar,“ segir í frummatsskýrslunni. Þessu er vísað á bug í athugasemdum Z-litans. „Það má hins vegar vera ljóst að áhrifin gætu orðið talsvert neikvæð fyrir ímynd sveitarfélagsins og sjálfbæra uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Lítil sprotafyrirtæki hafa verið stofnuð undanfarin ár og byggjast þau mörg á ósnortinni náttúru svæðisins [.]“
Íslenskir fjallaleiðsögumenn benda á að síðustu ár hafi það verið ferðaþjónustan sem hafi stöðvað fólksfækkun og snúið þróuninni við á svæðinu. „Við teljum því virkjun enga hagsbót fyrir sveitarfélagið í heild.“
Rangar upplýsingar um stærð Eldhrauns
Framkvæmdaraðili telur að virkjun Hverfisfljóts myndi stuðla að því að raforkuafhending yrði öruggari og öflugri á svæðisvísu komi til bilana í kerfinu á öðrum stöðum og stuðli framkvæmdin þannig að almannahag. Það er mat hans, samkvæmt frummatsskýrslunni, að slíkt réttlæti að eldhrauni verði raskað og bent er á að umfang raskaðs svæði sem hefur verndargildi nemi um 0,001% af heildarumfangi Skaftáreldahrauns.
Þetta er harðlega gagnrýnt í athugasemdum, m.a. frá Landvernd, í ljósi þess að í skýrslunni segir að Skaftáreldhraun sé 6.000 ferkílómetrar að stærð en staðreyndin er hins vegar sú að það er tæpir 600 km2. „Því eru allir útreikningar út frá fyrrgreindu flatarmáli rangir,“ segir Landvernd. „En öllu alvarlegri er sú almenna nálgun framkvæmdaaðila að líta eingöngu til prósentureikninga þegar kemur að raski hraunsins. Verndargildi hraunsins fellst auðvitað fyrst og fremst í því hversu óraskað það er í heild sinni og þessi tilteikna framkvæmd myndi rjúfa þá heild.“
Eldvötn – samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi, benda á að verðmæti landsins í núverandi mynd séu gríðarleg, enda fágætið algjört. „Möguleikar á þróun ferðaþjónustu með áherslu á jarðfræðifræðslu eru t.a.m. miklir og auðlind sem vert er að gefa gaum.“ Þá segir: „Í efnahagslegu tilliti er ljóst að hagsmunir ferðaþjónustunnar, sem er helsti vaxtabroddur atvinnulífs í Skaftárhreppi, geta skaðast vegna virkjanaframkvæmda þar sem lítt raskað landslag og landslagsheildir eru taldar ein af þeim auðlindum sem íslensk ferðaþjónusta byggir á.“
Óspilltar jökulár eru í útrýmingarhættu
Að mati stjórnar Landverndar felur virkjun Hverfisfljóts ekki í sér sjálfbæra orkunýtingu eins og haldið sé fram í frummatsskýrslu. „Um er að ræða endunýjanlega auðlind en sökum þess hve mikil áhrif framkvæmdin myndi hafa á náttúru svæðisins, þ.m.t. eldhraun, fossa og víðerni, og mögulega neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist, þá er ekki hægt að tala um sjálfbæran orkukost.“
Benedikt Traustason bendir í sínum athugasemdum á að þeim jökulám sem renna óhindrað af manna völdum frá upptökum sínum til sjávar fari fækkandi. „Óspilltar jökulár eru nú þegar í útrýmingarhættu. Gildir þar einu um hve stórt áhrifasvæðið er.“
Steinunn Sigurðardóttir er frá sinni fyrstu tíð gjörkunnug landinu í kringum bæina Seljaland og Dalshöfða. „Sú villta og sérstæða náttúrufegurð, víðerni og friður sem þar er að finna verður ekki metin til fjár,“ skrifar hún.
Framkvæmdaaðilinn vonast til þess að það skýrist á næsta ári hvenær hægt yrði að fara í framkvæmdir. Miðað við það gæti virkjunin mögulega hafið raforkuframleiðslu á árunum 2020-2021. Hann segir búið að reikna út hverjar tekjur hans yrðu af virkjuninni en slíkt sé ekki opinbert á þessum tímapunkti. Ýmislegt sé enn ófrágengið og óvíst á þessari stundu. „Fyrsta skilyrðið er að klára þetta mat,“ segir Ragnar um stöðu málsins. Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að virkjunin verði að veruleika svarar hann: „Maður væri nú ekki í þessu annars.“