Tekjur Landsvirkjunar 2017
eftir
Vatnsidnadur
·
mars 13, 2018
Heimild:
Mars 2018
Ketill Björnsson
Tekjur Landsvirkjunar vegna raforkusölu árið 2017 voru nánast hinar sömu og árið áður. Þegar miðað er við íslenskar krónur. Þarna skilaði álverið í Straumsvík mestu tekjunum af öllum einstökum viðskiptavinum Landsvirkjunar, eins og ávallt hefur verið eftir að þar var endursamið um raforkuverðið árið 2010. Vegna hækkandi álverðs hefur álverið á Reyðarfirði þó dregið þarna á Straumsvík (sú þróun myndi snúast til baka ef álverð lækkar á ný). Þessi tvö álver skiluðu Landsvirkjun hátt í 60% allra söluteknanna árið 2017. Í þessari grein er fjallað um tekjuskiptingu Landsvirkjunar af raforkusölunni.
Tekjurnar hækkuðu um ca. 2%
Tekjur Landsvirkjunar af raforkusölu 2017 námu um 43 milljörðum króna, sbr. taflan hér að neðan, sem byggir á ársskýrsla fyrirtækisins. Árið áður (2016) voru tekjurnar um 42 milljarðar króna. Tekjuhækkunin þarna milli áranna er því einungis um rúmlega 2%, jafnvel þó svo magnið af seldu rafmagni ykist um 5%. En Landsvirkjun gerir upp í bandaríkjadölum og í þeim gjaldmiðli jukust tekjurnar töluvert frá árinu áður eða um 15%. Þessi tekjuhækkun í dollurum skýrist fyrst og fremst af hækkandi álverði, enda er bæði orkusamningur Fjarðaáls á Reyðarfirði og Norðuráls í Hvalfirði tengdir álverði.
Hátt í 60% teknanna frá tveimur álverum
Á töflunni hér að ofan má sjá hversu miklar tekjur Landsvikjun fékk frá hverjum og einum viðskiptavini eða viðskiptavinahópi. Einnig er sýnt hversu hátt hlutfall teknanna hver og einn greiddi. Sést þá vel að álver ÍSAL (Rio Tinto) í Straumsvík og álver Fjarðaáls (Alcoa) á Reyðarfirði eru mikilvægustu tekjulindirnar. Þessi tvö álver skiluðu Landsvirkjun hátt í 60% allra teknanna. Það er þó vel að merkja ÍSAL sem greiðir þarna hæsta orkuverðið af öllum álverunum þremur.
Það er líka athyglisvert að bara stóriðjufyrirtækin fjögur, álverin þrjú og járnblendiverksmiðja Elkem, skiluðu Landsvirkjun samtals um 70% af sölutekjunum 2017. Þegar nýr samningur Landsvirkjunar og Norðuráls tekur gildi á árinu 2019 og nýtt raforkuverð til Elkem tekur gildi það sama ár, mun umrætt hlutfall tekna Landsvirkjunar af stóriðjunni hækka umtalsvert. Því þá verður raforkuverðið til þeirra fyrirtækja örugglega töluvert mikið hærra en t.a.m. var árið 2017.
Álverið í Straumsvík er hlutfallslega mikilvægasta tekjulindin
Á töflunni má líka sjá hlutfall orkusölunnar, þ.e. hversu hátt hlutfall hver og einn keypti af allri þeirri raforku sem Landsvirkjun seldi. Sá samanburður, ásamt samanburðinum um tekjuskiptinguna, hefur áður verið útskýrður af greinarhöfundi. En hann sýnir vel hversu mikilvægt álverið í Straumsvík (ÍSAL/RTA) er fyrir tekjur Landsvirkjunar. Og athyglisvert að núna er norska álfyrirtækið Hydro að vinna að kaupum á þessu álveri. Gangi þau kaup í gegn má vafalítið álíta það mjög góða vendingu, enda varla hægt að hugsa sér þarna betri eiganda en þetta þaulreynda norska fyrirtæki.
Raforkusala til smærri kaupenda skiptir Lanadsvirkjun litlu
Allir raforkusamningar Landsvirkjunar skipta máli. Það er þó svo að raforkusala Landsvirkjunar til þess sem kalla má smærri stórnotendur, svo sem bein sala til til gagnavera og kíslversins í Helguvík (nú gjaldþrota), er sáralítill hluti af viðskiptum eða tekjum orkufyrirtækisins. Í reynd eru það sem sagt bara stóru eggin fjögur (álverin og járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartanga) sem skipta Landsvirkjun verulegu máli. Á öðrum sviðum er Landsvirkjun í harðri samkeppni við smærri orkufyrirtækin og þá fyrst og fremst við ON (Orkuveitu Reykjavíkur) og HS Orku. Einnig selur Landsvirkjun þessum og öðrum íslenskum orkufyrirtækjum rafmagn í heildsölu, þar sem Landsvirkjun ræður alfarið verðinu. Fyrirtækið er því í algerri lykilstöðu á íslenska raforkumarkaðnum.
Til athugunar: Í töflunni sem birtist með þessari grein má sjá hvaðan tekjur Landsvirkjunar vegna raforkusölu koma. Meiri og nákvæmari upplýsingar um þessi viðskipti eru í boði fyrir viðskiptavini greinarhöfundar.
Tags: Landsvirkjun raforkusalaRaforkusalaTekjur Landsvirkjunar
Fleira áhugavert: