Gagnarver Reykanesbæ – ON skaffar 15 MW
Orka náttúrunnar (ON) og Advania Data Centers hafa samið um sölu á 15 megavöttum vegna stækkunar gagnavers félagsins í Reykjanesbæ.
Í fréttatilkynningu vegna málsins segir að Orka náttúrunnar muni ekki þurfa að ráðast í framkvæmdir eða virkja sérstaklega til að afla umræddrar orku því á næstu misserum munu eldri samningar um orkusölu til stóriðju renna út. Með samkomulagi sínu við ON hafi Advania Data Centers tryggt sér orkuna sem hefur verið bundin í allt að 20 ár með eldri samningum. ON er eitt þriggja orkufyrirtækja sem leggja gagnaverinu í Reykjanesbæ til orku.
Haft er eftir Eyjólfi Magnúsi Kristinssyni, forstjóra Advania Data Centers, að gagnavörslu- og reiknigetan sem verði til í stækkuðu gagnaveri sé nú þegar uppseld og sé ljóst að tækifærin til frekari vaxtar séu mikil. Í lok árs munu ríflega 50 manns starfa hjá félaginu og ráðgert er að veltan á þessu ári verði um sex milljarðar króna.
Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON, segir samninginn vera mikilvægan fyrir ON þar sem fyrirtækið fái hærra verð fyrir raforkuna en áður og frá grænni starfsemi.