Brennisteinsmengun – Skaðar hljómflutningstæki

Heimild: 

 

Janúar 2013

Myndaniðurstaða fyrir dvd spilariEf geisla- og dvd-spilarar hætta skyndilega að virka og skruðningar heyrast í hljómflutningstækjum heimilisins má ef til vill rekja bilunina til mengunar. Sama mengun veldur því að jólasilfrið hefur undanfarin ár verið ansi svart.

Brennisteinsmengun í andrúmslofti hefur aukist á höfuðborgarsvæðinu frá því að jarðvarmavirkjanir voru teknar í gagnið á Hellisheiði árið 2006. Brennisteinsvetni myndar nýtt efnasamband þegar það kemst í snertingu við silfur þannig að það fellur á málminn. Í raftækjum eru snertar og rofar í mótorum gjarnan úr silfri og þegar fellur á það getur sambandið rofnað. Algengt er að þetta sé ástæðan þegar komið er með biluð raftæki í viðgerð, segir Arnar Sigurður Hallgrímsson, rafeindavirki hjá Sjónvarpsmiðstöðinni: „Það virðist vera að falla mikið á rofa og snertur í rafeindatækjum, þannig að mikið af þeirri vinnu sem við vinnum er að opna mótora og rofa og pússa þá upp.“

Ef fallið hefur á snerta í rofum í mögnurum dettur hljóðið út og koma skruðningar og geisla- og dvdspilarar hætta að spila diskana. Arnar segir dæmi um það að fólk komi með sömu tækin aftur og aftur vegna þessa vandamáls. „Það svona bendir til þess að það sé einhver mengun að valda því.“

Margir gætu haldið að þegar svona er komið fyrir tækjunum þá séu þau einfaldlega ónýt, en í flestum tilfellum er hægt að fægja svörtu húðina af silfurtengjunum.

Fleira áhugavert: