Uppsjávarfrystihús Shikotan Kúrileyjum
Febrúar 2018
Tæknifyrirtæki í útrás á Kúrileyjum
Þrjú íslensk tæknifyrirtæki hafa samið um byggingu á fullkomnu uppsjávarfrystihúsi á eyjunni Shikotan, sem er ein Kúrileyja austast í Rússlandi.
Fyrirtækin eru Skaginn 3X, Kælismiðjan Frost og Rafeyri og á nýja verksmiðjan fullbúin að afkasta um 900 tonnum af frystum afurðum á sólarhring. Hvert stórverkefnið tekur við af öðru hjá fyrirtækjunum, sem nú vinna að byggingu stórs uppsjávarfrystihúss í Færeyjum.
Í sumar er ráðgert að um 50 starfsmenn íslensku fyrirtækjanna verði í senn á Shikotan austur við Kyrrahaf. Allt að viku gæti tekið fyrir starfsmennina að ferðast fram og til baka.
Áætlað er að búnaðurinn verði fluttur í um 90 gámum til Shikotan, flestir þeirra frá Íslandi, og gæti tekið um 70 daga að koma farminum frá Íslandi á áfangastað.
Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X, segir að ef vel takist til geti margvísleg tækifæri falist í Rússlandi.
Á síðustu misserum hafa íslenskar viðskiptasendinefndir farið nokkrum sinnum til Rússlands, m.a. í samvinnu utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu. Sömuleiðis hafa fyrirtæki kynnt starfsemi sína og sótt sýningar í þessu víðfeðma landi.
Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra í Rússlandi, segist finna fyrir vaxandi áhuga á íslenskum sjávarútvegi og þeim árangri sem þar hafi náðst. Hægt og bítandi hafi þekking á íslenskum fyrirtækjum, hönnun og hugviti farið vaxandi.
Hún segist ekki vita annað en að samningur fyrirtækjanna þriggja um uppbyggingu á Shikotan sé stærsti einstaki samningur sem íslensk fyrirtæki hafi gert í áratugi í Rússlandi. „Útflutningur á sjávarafurðum frá Íslandi til Rússlands hrundi um 95% á milli áranna 2014 og 2016, eftir að rússneska viðskiptabannið var sett á sumarið 2015. Ég veit ekki um neina þjóð sem missti svo mikið vegna viðskiptabannsins. Því er dýrmætt að það skuli þó gefast möguleikar á öðrum tækifærum,“ segir Berglind.
Berglind segir að í gangi sé metnaðarfull áætlun rússneskra stjórnvalda um endurnýjun fiskiskipaflotans og uppbyggingu landvinnslu. Þetta hafi m.a.verið gert á þann hátt að heimildir hafi verið innkallaðar nú í lok 10 ára úthlutunar. Í staðinn taki við 15 ára úthlutun með sérstökum hvata um að þeir sem ráðist í uppbyggingu fái aukinn kvóta.