Frjálsíþróttavöllur ÍR – 580 milljónir
Umhverfis- og skipulagsráð býður út framkvæmdir á frjálsíþróttavelli og þjónustuhúsi á ÍR svæðinu.
Áætlað er að framkvæmdir hefjist í mars næstkomandi og er það samkvæmt samningi við borgina í upphafi síðasta árs.
Í þjónustuhúsi verður aðstaða til mótahalds en einnig verður þar veitingasala, snyrtingar, aðstaða fyrir notendur vallarins og geymslur. Byggingin verður tvær hæðir og þak mun nýtast sem áhorfendapallur. Heildarflatarmál byggingarinnar er tæplega 443 fermetrar.
Gerður verður fullbúinn íþróttavöllur á ÍR-svæðinu í Mjódd til iðkunar allra greina frjálsra íþrótta. Þá munu 400 metra langar hlaupabrautir umlykja völlinn en í miðju svæðisins er m.a. lendingarsvæði kastgreina. Utan hlaupabrauta eru svæði fyrir stökkgreinar. Aðkoma að vallarsvæðinu verður frá félagsheimili ÍR.
Gert er ráð fyrir því að gerð vallarins ljúki í haust en að þjónustuhúsið verði fullbyggt vorið 2019. Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina er 580 milljónir króna.