Þróun lagnavinnu í 50 ár..

Heimild: 

 

September 1999

Geysileg þróun á fimmtíu árum

Pípulagnir voru á þessum árum mikil erfiðisvinna, mikill burður á þungu lagnaefni og áður en vélar, svo sem snittvélar komu til sögunnar, varð að beita handaflinu einu, sama hvað sver rör þurfti að snitta. Hér verður lýst þróun pípulagna, frá stálrörum og stjörnuborum til plastlagna og höggborvéla.

FYRIR hálfri öld var þetta svo einfalt, snittvélin var þarfasti þjónninn, efnið sem unnið var úr hafði í aðalatriðum verið það sama frá síðustu aldamótum, allir vissu að hverju þeir gengu, ekkert var óvænt. Þannig var pípulagnafagið fyrri hluta aldarinnar og vel það, allt fram að 1960 að minnsta kosti.

Þrátt fyrir það var þetta mikilvæg iðngrein sem skapaði fólki þægindi og gerði híbýli manna heilsusamlegri með betri og jafnari hita, að ekki sé talað um nýrri og betri skólplagnir sem alls staðar eru forsenda fyrir þrifnaði og eru vörn gegn margskonar smitsjúkdómum.

Í miðstöðvarlögnum voru notuð svört stálrör, snittuð og skrúfuð, í neysluvatnslagnir sams konar rör, en galvanhúðuð til varnar því að súrefnið í vatninu tærði rörin. Ofnar voru níðþungir pottofnar, sem nú eru jafnvel að komast í tísku aftur, sérstaklega þegar verið er að gera upp eldri hús. Mörgum finnst þessi gerð ofna eiga betur við í gömlum risbyggðum timburhúsum, bárujárnsklæddum.

Steypujárnið, eða potturinn eins og það var í daglegu tali kallað, var ekki aðeins notað í ofna heldur einnig í skólprör og baðker. Þetta kom til af einstökum eiginleikum pottsins, sterkri vörn hans gegn tæringu. Pípulagnir voru á þessum árum mikil efiðisvinna, mikill burður á þungu lagnaefni og áður en vélar, svo sem snittvélar komu til sögunnar, varð að beita handaflinu einu, sama hvað sver rör þurfti að snitta.

Engar borvélar

Það er ekki lengi verið að bora gat í vegg nú til dags, en fyrir aðeins tæpum fimmtíu árum voru ekki til höggborvélar, ekki heldur til borar sem unnu á steypu.

Hvað gerðu menn þá, hveMyndaniðurstaða fyrir brotvélrnig boruðu menn fyrir klósetti eða öðrum tækjum sem setja þurfti upp á steingólf eða veggi?

Fyrir fimmtíu árum var það regla að láta pottofna standa á gólfi og þá þurfti pípulagningamaðurinn að sýna spádómsgáfu hvað þykkt ílagið yrði þegar lagt yrði í gólfið.

En svo datt einhverjum í hug að losna við slíka spádóma, hengja heldur ofnana upp á veggina með því að bora fyrir tommu röri, sem slegið var inn í gatið og síðan var ofninum rennt upp á rörin og margir þeirra hanga á sínum stað enn þann dag í dag.

En hvernig boruðu menn í steinveggi og steingólf ef engar borvélar voru til? Allir pípulagningamenn áttu á þeim tíma sett svokallaðra stjörnubora og slaghamar, með þessum einföldu verkfærum boruðu menn fyrir upphengjum ofna í heilu blokkirnar, boruðu fyrir festingum fyrir klósettskálar og notuðu tilheyrandi stærð stjörnubors sem átti við í hverju tilfelli. Stjörnubornum í vinstri hendi var snúið örlítið milli þess sem slaghamarinn í þeirri hægri skall á honum.

Þannig varð til gat í vegg eða gólfi og það var með ólíkindum hvað sumir pípulagningamenn náðu mikilli leikni og miklum hraða í slíkri borun, það var næstum eins og borvél með höggi og sterkum demantsbor spændi upp steininn.

Bylting á sjöunda áratug

Þá var eins og allt leystist úr læðingi, eiröldin gekk í garð fyrir alvöru, en eirrör voru búin að vera hér á markaði lengi, en fram að þessu lítið notuð til hita- og neysluvatnslagna. Reynslan hefur sýnt að þar var farið of geyst, ekki tekið nægilegt tillit til aðstæðna, því miður litu menn á vatn aðeins sem vatn, eini munurinn var hvort það kæmi heitt eða kalt upp úr jörðinni.

En reynslan hefur kennt okkur að vatn á Íslandi er mismunandi frá einum stað til annars, þess vegna á sú mikla mærð um íslenskt vatn, sem oft heyrist, litla stoð í veruleikanum þó víða sé íslenskt vatn afbragð til drykkjar og baða.

En það var plastið sem hleypti öllu í bál og brand í orðsins fyllstu merkingu. Margir tóku plastinu fegins hendi, efni sem ekki ryðgaði var aldeilis stórkostlegt og þvílíkur léttir fyrir íslenska pípulagningamenn, plaströrin voru sem fis miðað við gömlu stálrörin og pottrörin. En það voru ekki allir hrifnir, sérstaklega fóru margir þeir sem tilheyrðu flokki opinberra starfsmanna að yggla brúnir og töldu að nú væri kominn þeirra tími eins og fyrri daginn að hafa vit fyrir fjöldanum. Plaströrin unnu sigur í tvenns konar lagnakerfi, sem frárennslisrör innanhúss og í grunna og hins vegar í snjóbræðslurör. Loksins núna, eftir fjörutíu ára baráttu, hefur plastið unnið sigur á flokki hinna opinberu og eru nú síðustu múrar forsjárhyggjunnar að falla, plast er nú tekið í sátt sem lagnaefni bæði í miðstöðvarkerfi og neysluvatnskerfi.

En þessi geysilega þróun gerir kröfur til þeirra sem hanna og leggja kerfin, þá kröfu að þeir fylgist með, læri ný vinnubrögð, þekki til hlýtar þau efni sem unnið er úr, þekki stýringar kerfa og geti skilgreint hvað er að og hvað þurfi að endurbæta í eldri kerfum.

Þekkja lagnamenn sinn vitjunartíma?

Léttir stálofnar, plaströr og ný tengitækni minnkar ekki kröfuna um fjölþætta þekkingu hönnuða og pípulagningamanna, þeir verða að nema svo lengi sem starfsævin varir.

Fleira áhugavert: