Vatnsauðlindin – Ábyrgð opinbera aðila..
Vatn er nauðsynlegt til að halda lífi á jörðinni og kemur við sögu á mörgum og ólíkum sviðum mannlegrar tilveru. Orkustofnun ber ábyrgð á stjórnsýslu á tveimur afmörkuðum sviðum vatnamála á Íslandi. Þar er annars vegar um að ræða vatn sem auðlind til beinna nytja og hins vegar vatn sem orkuber fyrir vatnsafl og jarðhita.
Náin samvinna er af hálfu Orkustofnunar við aðra opinbera aðila sem bera ábyrgð hver með sínum hætti á skyldum sviðum vatnamála. Þar má nefna Veðurstofu Íslands sem ber ábyrgð á almennum rannsóknum á vatnafari, Umhverfisstofnun sem hefur umsýslu með vatnatilskipun ESB og almennt eftirlit með heilbrigðisnefndum sveitarfélaga, sem aftur bera ábyrgð á hreinleika neysluvatns, Veiðimálastofnun sem rannsakar líf í vatni og Skipulagsstofnun sem fer með umhverfismat og skipulagsmál. Einnig er gott samstarf við orku- og veitufyrirtæki og samtök þeirra, Samorku, svo og við hin ýmsu sveitarfélög. Hér er ekki um tæmandi upptalningu að ræða, enda kemur vatnið víða við og frá mörgum hliðum.