Kazakhstan – Orkulindin Kaspíahaf

Heimild:  

 

Mars 2015

Kashagan í Kazakhstan í Kaspíahafi

Veldi Nazarbayevs

Kazakhstan er níunda stærsta land heimsins að flatarmáli og er u.þ.b. tífalt stærra en Ísland. Þjóðin telur um 18 milljónir manna. Landið er landlukt – en þó ekki – því það liggur að hinu stórmerkilega Kaspíahafi. Þaðan teygir Kazakhstan sig þúsundir kílómetra allt austur til Kína.

Kazakhstan-Tengiz-Kashagan-Oil-Pipelines-Map

Kazakhstan-Tengiz-Kashagan-Oil-Pipelines-Map – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Það er til marks um stærð landsins að landamæri Kazakhstan að Kína eru um 1.500 km löng, landamærin að nágrannaríkinu Uzbekistan í suðri eru um 2.200 km löng og strandlengja Kazakhstan að Kaspíahafi er um 1.900 km. Lengst eru þó landamærin að gamla félaganum Rússlandi; rétt tæplega 7.000 km! Það eru einhver lengstu samfelldu landamæri milli tveggja ríkja í heiminum, ef ekki þau lengstu.

Olíuvinnsla við Kaspíahafið á sér afar langa sögu. En þó fyrst og fremst á landi eða alveg við ströndina, fremur en úti á sjálfu Kaspíahafinu. Þarna var olían við Bakú í Azerbaijan löngum í aðalhlutverki. Á tímum Sovétríkjanna reyndist þó hagkvæmast að vinna olíu úr stórum olíulindum innan Rússlands. Kazakhstan var aftur á móti þróað sem landbúnaðar- og akuryrkjusvæði og hluti af matarforðabúri Sovétríkjanna.

Varla verður sagt að Kazakhstan hafi gengið vel á Sovét-tímanum. Fjöldamorð Stalínstjórnarinnar bitnuðu hart á Kasökkum, efnahagsaðgerðir Moskvustjórnarinnar ollu hungursneyðum innan Kazakhstan og hroðaleg heilsufarsvandamál fylgdu tæpleg 500 kjarnorkusprengingum í tilraunum Sovétmanna með kjarnavopn. Mikilvægasta kjarnorkutilraunsvæði Sovétríkjanna var einmitt í austanverðu Kazakhstan. Það er reyndar svo að fyrst eftir hrun Sovétríkjanna réðu Kasakkar yfir miklum fjölda kjarnorkuvopna, en þau voru brátt öll afhent Rússum.

Nursultan-Nazarbayev-Kazakhstan-President

Nursultan-Nazarbayev-Kazakhstan-President

Kazakhstan lýsti yfir sjálfstæði um mitt ár 1991 og leiðtogi kommúnistaflokks Kasakka, Nursultan Nazarbayev,varð forseti hins nýja ríkis. Allt síðan þá hefur Nazarbayev og fjölskylda hans ráðið einu og öllu í landinu – og heldur líka um stjórnina í flestum mikilvægustu fyrirtækjum landsins. Stjórnmálaflokkur forsetans, Föðurlandsflokkurinn, hefur um 85% þingsæta, en kosningar í landinu hafa vel að merkja ekki þótt alltof lýðræðislegar og t.d. sætt talsverði gagnrýni af hálfu ÖSE (OSCE).

Aðgangur að geysistórum en erfiðum olíulindum opnast

Þó svo Kazakhstan hafi á Sovét-tímanum einkum verið þekkt fyrir landbúnað og tilraunir með kjarnorkusprengjur, þá er þar líka að finna geysimiklar auðlindir í jörðu, svo sem úran, kopar, gull og kol. En þýðingarmest er þó olían og gasið. Og þá ekki síst risalindirnar undir botni Kaspíahafsins. Þær eru sumar hverjar reyndar svo gríðarlega miklar að hugtakið risalindir er ekki einu sinni nógu sterkt til að lýsa þessum ótrúlegu kolvetnislindum Kaspíahafsins. Á ensku er í þessu sambandi gjarnan talað um supergiants.

Kazakhstan-Tengiz-oil-field

Kazakhstan-Tengiz-oil-field

Um það leiti sem Sovétríkin féllu snemma á 10. áratugnum tóku vestræn olíufélög að renna hýru auga til risalindanna innan Kazakhstan. Varð nú nánast allsherjar „gullæði“ þar sem hver olíurisinn á fætur öðrum reyndi að tryggja sér hlut í vinnslusvæðum sem vitað var að gætu í framtíðinni skilað milljörðum tunna af olíu. Auk vestrænu olíurisanna voru þarna líka áberandi allskonar ævintýramenn, sem reyndu að ná samningum við stjórnvöld sem ýmist áttu að tryggja aðgang að olíuvinnslu eða byggingu olíuleiðslna frá Kazakhstan og vestur á bóginn til Evrópu. Slíkar leiðslur voru mikilvæg forsenda þess að unnt yrði að koma olíunni (og gasinu) frá vinnslusvæðunum og á markað.

Sú reyfarakennda saga verður ekki rakin hér. En tekið skal fram að átökin og plottin sem þar áttu sér stað slá út allar James Bond myndirnar til samans. Til að fá nasasjón af þeirri dramatík má t.d. benda á bókina The Oil and the Glory eftir Steve Levine. Öll þessi magnaða saga snýst eðlilega töluvert um forsetann Nazarbayev. Sem eins og áður sagði hefur meira eða minna ráðið öllu í Kazakhstan síðustu 25-30 árin. Nazarbayev er nú kominn á áttræðisaldur, en flestir búast við því að dóttir hans, Dariga Nazarbayeva, verði næsti forseti landsins eða sonur Darigu; Nurali Aliyev. Fjölskyldan er nú ein sú efnaðasta í veröldinni með auð sem nemur mörgum milljörðum USD og Nazarbayev stundum nefndur hinn eini sanni yfirólígarki heimsins.

Milljarðamartröðin

Meðan milljarðar hafa streymt í veski forsetafjölskyldunnar í Kazakhstan hafa tugmilljarðar komið inn í landið erlendis frá sem fjárfesting í olíu- og gasiðnaðinum. Skömmu eftir að Kasakkar öðluðust sjálfstæði 1991 náðu Chevron og ExxonMobil fjörutíu ára vinnslusamningi um hina risavöxnu Tengiz olíulind við norðausturströnd Kaspíahafsins. Olíuverð var á þessum tíma lágt, en þarna sáu vestrænu olíufyrirtækin tækifæri til að geta bókað geysilegar olíubirgðir í birgðaskrár sínar og þannig blásið út efnahagsreikning fyrirtækjanna.

Kazakhstan_Tengiz-oil-field-2

Kazakhstan_Tengiz-oil

Vitað var af olíunni í Tengiz allt frá því á 8. áratugnum. En það var einnig vitað að óvenju erfitt yrði að vinna þessa olíu, einkum vegna geysimikils þrýstings í lindinni sem gerði borholur illviðráðanlegar. Á 9. áratugnum varð mikil sprenging í einni borholunni og óstjórnleg eldsúla reis til himins. Það var ekki fyrr en með aðkomu vestrænu olíufélaganna á 10. áratugnum að menn náðu að leysa þessi vandamál og byggja upp vinnslu frá Tengiz. Kostnaðurinn fór að vísu hrikalega fram úr áætlunum; útlit er fyrir að upphafleg kostnaðaráætlun vegna Tengiz upp á um 25 milljarða USD endi í 40 milljörðum USD.

Tengiz olíulindin er vel að merkja ein sú allra stærsta í heimi með um 25 milljarða tunna af olíu! Ómögulegt er að segja hversu mikið verður unnt að sækja af allri þessari olíu, en það gætu verið allt að tíu milljarðar tunna. Þetta er sem sagt margfaldur fíll, eins og það er kallað í olíubransanum (hugtakið fíll er notað um mjög stórar olíulindir; stærri en 500 þúsund tunnur en stundum er þó fíll að lágmarki miðaður við milljarð tunna). Árið 2001 var lokið við að reisa nýja olíuleiðslu, CPC-leiðsluna, sem flytur olíuna frá Tengiz og að rússnesku Svartahafshöfninni Novorossiysk. En þó svo Tengiz sé sannkölluð ofurlind er hún samt því miður ennþá að skila nokkuð langt frá því sem áætlað var. En vandræðin eru þó ennþá meiri í nýjasta risaverkefninu í Kazakhstan.

Risinn Kashagan

Þrátt fyrir að geyma einhverja mestu olíu í heimi er Tengiz einungis nett peð miðað við risann Kashagan. Sú geggjaða olíulind undir botni Kaspíahafsins er sögð geyma allt að 50 milljarða tunna af olíu! Lesendur Orkubloggsins kunna þó að hafa séð töluna 38 milljarða tunna tilgreinda í skrifum um Kashagan, en sú tala er afar ónákvæm og leyfishafar miða þarna við 30-50 milljarða tunna.

Kashagan-Oil-Field-Artificial-Island-Kasakhstan-1

Kashagan-Oil-Field-Artificial-Island-Kasakhstan

Meira skiptir þó hverju vinnslan gæti skilað, en talið er að þarna megi ná 13 milljörðum tunna úr djúpinu. Einhverjum kann að þykja þetta lítið miðað við að heildarmagnið sé allt að50 milljarðar tunna. En vandinn er að það verður tæknilega afar erfitt að nálgast olíuna í Kashagan. Það er engu að síður svo að jafnvel þó óvenjulega lítið af olíunni úr Kashagan muni skila sér á land, verður þetta ein mikilvægasta olíulind heimsins.

Kashagan er hvorki meira né minna en stærsta olíulindin sem hefur fundist utan Persaflóaríkjanna og er álitin fimmta stærsta olíulind heimsins. En rétt eins og gerðist í Tengiz, hefur uppbygging vinnslunnar á Kashagan verið hrjáð af tæknilegum örðugleikum og gríðarlegum kostnaði.

Kashagan-Oil-Field_Kazakhstan-Map

Kashagan-Oil-Field_Kazakhstan-Map

Þessi risavaxna olíulind uppgötvaðist aldamótaárið 2000 og þurfti þá að fara allt aftur til ársins 1970 til að finna dæmi um sambærilegan risafund í olíuiðnaðinum. Í framhaldinu var mynduð samsteypa olíufélaga til að þróa verkefnið. Nokkrar breytingar hafa orðið í eigendahópnum, en núna eru þar í fararbroddi ítalska Eni, bandaríska ExxonMobil, ensk/hollenska Shell, franska Total og ríkisolíufélagið KazMunayGas. Hvert og eitt þessara olíufélaga er með um 17% hlut í verkefninu, en framkvæmdaaðilinn er Eni. Nýjasti hluthafinn er svo kínverska CNPC. Og nú er útlit fyrir að megnið af olíunni frá Kashagan muni streyma til Kína. Um hina nýju 2.200 km löngu olíuleiðslu, sem búið er að leggja milli Kína og Kaspíahafsstrandar Kazakhstan.

Þegar ráðist var í þetta risaverkefni upp úr aldamótunum var þess vænst að fyrsta olían frá Kashagan gæti skilað sér strax árið 2005. Kashagan er tæplega 100 km frá landi og liggur á um 4 km dýpi undir hafsbotninum. Þetta er óvenju djúpt af olíu að vera. Sjálft hafdýpið þarna er aftur á móti ekki mikið, enda er Kaspíahafið víðast hvar fremur grunnt (meðaldýpið er rétt rúmir 200 m).

Kashagan-Oil-Field-Artificial-Island-Kazakhstan-4

Kashagan-Oil-Field-Artificial-Island-Kazakhstan

Þrátt fyrir hógvært hafdýpi reyndist nauðsynlegt að reisa heila tilbúna tæknieyju þarna úti í Kaspíahafinu til að ráða við hrikaleg veðurskilyrðin sem þarna ríkja á veturna. Mikill ís myndast í ofsakuldum og straumar og vindar valda því að olíumannvirkin þurfa að standast óvenjumikið álag. Þess vegna var hvorki unnt að notast við fljótandi né botnfasta hefðbundna olíuborpalla. Þetta var mjög dýr útfærsla og það, auk margvíslegra annarra tæknivandamála, olli því að kostnaðurinn vegna Kashagan hefur rokið upp úr öllu valdi.

50 milljarðar USD í sjóinn en varla dropi af olíu hefur komið á land

Upphafleg kostnaðaráætlun vegna uppbyggingar fyrsta áfanga Kashagan var nálægt 25 milljarðar USD. En verkefnið reyndist flókið i framkvæmd og það var ekki fyrr en 2013 að olía byrjaði að skila sér frá Kashagan; átta árum síðar en áætlað var! Og þá var kostnaðaráætlunin sprungin hressilega því heildarkostnaðurinn var kominn í um 50 milljarða USD.

Kashagan-Oil-Field-Explained

Kashagan-Oil-Field-Explained

Seinkunin og umframútgjöld reyndust þó ekki mesta áfallið. Því um leið og olían var loksins farin að streyma upp úr djúpinu á Kashagan og í land, fór strax að bera á ofsalegri tæringu í búnaði og lögnum. Ekkert var við þetta ráðið og stöðva varð vinnsluna. Og nú hefur engin olía komið frá þessari 50 milljarða dollara fjárfestingu í um hálft annað ár. Sem er gríðarlegt fjárhagslegt högg fyrir olíufélögin sem standa að verkefninu.

Vandinn felst í því óvenju hátt hlutfall brennisteinsgass (H2S) í olíulindinni veldur mikilli tæringu og hreinlega étur stálrörin upp. Nú stendur til að skipta öllum stállögnunum út fyrir rör úr nikkel, en óvíst er að olíuvinnslan komist aftur í gang fyrr en seint á árinu 2016 eða jafnvel ekki fyrr en 2017. Brennisteinsgasið skapar að auki bæði hættu á sprengingum og eitrunum.

Kostnaðurinn við Kashagan er því enn að aukast og munu vafalítið einhverjir milljarðar dollara bætast þarna við útgjöldin. Og þarna í Kaspíahafinu er vel að merkja bara um fyrsta áfangann að ræða. Fullþróað er búist við að heildarkostnaður við Kashagan verði nálægt 200 milljörðum USD!

Kazakhstan-Oil-Productionn_2010-2040-

Kazakhstan-Oil-Productionn_2010-2040

Kashagan er eitt umfangsmesta og útgjaldafrekasta orkuverkefni heimsins. En ef einhverjum þykir þetta dýrt er rétt að minna á að kannski næst að vinna 13 milljarða tunna af olíu á Kashagan. Þá myndi vinnslan efalítið skila leyfishöfunum miklum hagnaði. Almennt er þó talið að ekki sé raunhæft að ætla að Kashagan muni skila hagnaði nema olíuverð yfir vinnslutímann verði a.m.k. 80-120 USD/tunnu og jafnvel hærra. Kashagan er því prýðilegt tákn um að auðvelda olían er senn á þrotum. Og að olía mun vart halda áfram að knýja sterkan hagvöxt í heiminum  nema að kaupmáttur fólks geti aukist samhliða háu olíuverði. Þar liggur efinn.

Fleira áhugavert: