Fita veldur vanda í fráveitukerfum
Febrúar 2017
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur aflar heildstæðra upplýsinga um fituskiljur í matvælafyrirtækjum í Reykjavík og gerir kröfur um uppsetningu á slíkum búnaði þar sem þurfa þykir. Ástæða þessa er sú að í fráveitukerfi borgarinnar og í einstökum húsum hafa ítrekað komið upp vandamál sem rekja má til fitu frá matvælafyrirtækjum.
Mörg matvælafyrirtæki hafa nú þegar sett upp fituskilju sem hefur gefið góða raun, sé vel fylgst með þeim og þær tæmdar þegar við á. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gerir kröfur um uppsetningu á slíkum búnaði þar sem þurfa þykir, t.d. má aldrei setja hreina fitu og steikingarolíu í frárennslið.
Fita sem fer frá matvælafyrirtækjum í frárennslið getur storknað þegar hitastig lækkar og safnast meðal annars upp í kverkum röra og þar sem straumur er lítill. Fyrir utan stífluhættu, leiðir uppsöfnuð fita í frárennsli til súlfíðmyndunar. Myndun súlfíða og þar með vetnissúlfíða leiðir til tæringar lagna og styttir þar með líftíma þeirra en vetnissúlfíð er eitruð lofttegund. Við súlfíðmyndunina er ferlið þannig að við loftfirrtar aðstæður og hraða sundrun lífræns efnis getur súlfatið (sem m.a. kemur úr matvælum) myndað vetnissúlfíð fyrir tilstuðlan örvera.
Einnig má nefna að við súrefnisríkar aðstæður í fráveitukerfinu getur brennisteinssýra myndast úr brennisteini sem m.a. finnst í matvælum og úrgangi manna. Súlfatið úr brennisteinssýrunni getur svo farið til myndunar á súlfíðum við loftfirrtar aðstæður síðar í kerfinu.
Ef frárennsli frá starfsemi er fitu- eða olíuríkt skal það koma sér upp fitugildru. Kostnaður við kaup og uppsetningu á fituskilju ásamt tæknilegri útfærslu búnaðarins er á ábyrgð eiganda húsnæðisins og matvælafyrirtækisins.
Dæmi um matvælafyrirtæki þar sem líklegt er að þörf sé á fituskilju:
- Framleiðslueldhús
- Veitingastaðir
- Skyndibitastaðir
- Mötuneyti fyrirtækja og skóla
- Fyrirtæki þar sem mikill bakstur fer fram (pitsustaðir, bakarí o.þ.h.)
Fituskiljan er í raun tankur sem frárennsli frá starfseminni er leitt í. Þar setjast þyngri agnir á botninn og fitan flýtur ofan á vatnsfasanum og meðhöndlaða frárennslisvatnið heldur leið sinni áfram út í kerfið Það þarf því að tæma gildruna reglulega en tíðni ræðst af stærð hennar og umfangi starfseminnar. Fituskilja skal einvörðungu tengd frárennsli frá vöskum, uppþvottavélum og gólfniðurföllum. Skiljuna skal staðsetja eins nálægt uppsprettunni og mögulegt er og þannig að auðvelt sé að komast að henni og tæma. Stærri skiljur þurfa að vera í sérrými þar sem loftræsting er fullnægjandi eða niðurgrafnar.