Verslunarmiðstöð Kaupfélags Suðurnesja
Desember 2017
Verslunarmiðstöð á fullt með vorinu
Tafir við skipulagsvinnu hjá Skipulagsstofnun og umhverfis-og auðlindaráðuneytinu hafa orðið til þess að áform Kaupfélags Suðurnesja um að reisa verslunar- og þjónustumiðstöð skammt frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafa verið í biðstöðu síðan fyrri part árs 2016. Svæðið sem um ræðir er um 20 þúsund fermetrar að stærð og er við Rósaselshringtorg sem er nærri flugstöðinni.
Í frétt RÚV er rætt við Skúla Skúlason, stjórnarformann Kaupfélags Suðurnesja sem telur að aðalskipulag sveitarfélagsins Garðs verði klárt í febrúar og að í framhaldinu verði hægt að vinna málið áfram af meiri alvöru.
Nokkur fyrirtæki hafa þegar lýst yfir áhuga á að hefja rekstur í verslunarkjarnanum. Nettó, sem er í eigu Samkaupa, dótturfélags Kaupfélags Suðurnesja, myndi opna matvöruverslun, Olís reka þar bensínstöð og Subway, Pizza Hut, KFC, Taco Bell og Grill 66 veitingastaði.