Hvaðan á raforkan að koma?
Janúar 2018
Á raforkan að koma frá Skrokkölduvirkjun á hálendinu miðju?
Auka þarf raforkuframleiðslu á Íslandi til að mæta aukinni eftirspurn. En hvaðan á raforkan að koma?
Á komandi árum þarf að auka rafmagnsframleiðslu á Íslandi töluvert. Eftir um áratug þarf árleg orkuframleiðsla hér sennilega að hafa aukist um u.þ.b. 2.000 GWst til að mæta eftirspurninni. Það er rúmlega 10% aukning frá því sem nú er. Þetta orkumagn er nærri því að jafngilda hátt í fjórum Búðarhálsvirkjunum eða fjórum Kröfluvirkjunum.
Eftir stendur spurningin hvaða nýju virkjanir eiga að skila allri þessari viðbótarorku inn á flutningskerfið? Og það innan einungis um tíu ára. Einn möguleiki er að orkan komi að mestu frá tveimur nýjum vatnsaflsvirkjunum; Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár og að útfall Hágöngulóns verði virkjað með s.k. Skrokkölduvirkjun á hálendinu miðju.
Í þessari grein er fjallað um hvernig unnt verður að uppfylla raforkuþörf á komandi áratug. Í greininni kemur m.a. fram að nokkuð langt kann að vera í að hér rísi enn fleiri nýjar stórar vatnsafls- eða jarðgufuvirkjanir. Þess í stað kann að vera upplagt að bæta nýrri tegund endurnýjanlegrar raforkuvinnslu við íslenska orkugeirann, með því að reisa hér nokkur hundruð megavött (MW) af vindmyllum. Það væri hagkvæm og tiltölulega umhverfisvæn leið til að tryggja nægt framboð raforku á Íslandi á komandi áratug.
Allt að helmingur orkunnar frá yfirstandandi verkefnum
Brátt verður lokið við hina nýju Búrfellsvirkjun svo og annan áfanga Þeistareykjavirkjunar. Þær verða samtals 190 MW (þá er fyrsti áfangi Þeistareykja með talinn). Og munu skila um 1.020 GWst árlega. Það jafngildir nálægt helmingi aukinnar orkuþarfar hér næsta áratuginn eða svo. Er þá miðað við mat Orkuspárnefndar og Landsvirkjunará þróun raforkunotkunar.
Að vísu er sá ljóður á Þeistareykjavirkjun að vandi er að koma raforkunni þaðan til annarra landshluta. Fram hefur komið í máli forstjóra Landsvirkjunar að þetta sé vegna flöskuhálsa í flutningskerfi Landsnets, sem stendur til að laga með s.k. Hólasandslínu. Vegna þessa má gera ráð fyrir að Þeistareykjavirkjun muni, til að byrja með, að skila minni orku inn á kerfið en uppsett afl hennar (90 MW) stendur til. Sem myndi þá, eðli málsins samkvæmt, halda aftur af hagkvæmni þessarar nýjustu jarðvarmavirkjunar.
Vantar um 1.000 GWst
Gefum okkur engu að síður að unnt verði að koma allri raforkunni frá Þeistareykjavirkjun (90 MW) til notenda innan ekki of langs tíma. Og að þannig muni virkjunin ásamt nýrri Búrfellsvirkjun (100 MW) mæta orkuþörf sem nemi um 1.020 GWst. Næsta áratug þarf þá að bæta við öðrum 1.000 GWst eða þar um bil inn í kerfið. Stóra spurningin er hvaðan þær ca. 1.000 GWst eiga að koma?
Munu Hvammsvirkjun og Skrokkölduvirkjun mæta orkuþörfinni?
Hjá Landsvirkjun hefur áherslan einkum virst vera á Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár og Skrokkölduvirkjun á hálendinu miðju sem líkleg næstu verkefni. Og það vill einmitt svo til að þessar tvær nýju vatnsaflsvirkjanir myndu samtals geta skilað um eða rúmlega 1.000 GWst á ári. Og smellpassa þannig séð inn í kerfið til að mæta aukinni raforkunotkun á komandi áratug. Vandinn er bara sá að það er ekki víst að Hvammsvirkjun og/eða Skrokkölduvirkjun verði að veruleika alveg á næstunni. Þarna koma einkum til umhverfis- og náttúruverndarsjónarmið. Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir að stefnt sé að setningu „langtímaorkustefnu“, að hliðsjón verði höfð „af áformum um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu“ og að forgangsverkefni verði að „nýta með sem hagkvæmustum hætti þá orku sem þegar hefur verið virkjuð“. Í þessu ljósi virðist mega gera ráð fyrir að varlega verði farið í að ríkisorkufyrirtækið Landsvirkjun ráðist í nýjar stórar vatnsafls- eða jarðvarmavirkjvanir og þá kannski sérstaklega á miðhálendinu.
Samkvæmt þessu hlýtur að vera nokkuð líklegt að Landsvirkjun þurfi nú að horfa til annarra valkosta en að virkja við Skrokköldu. Og nýjum umhverfisráðherra, ásamt a.m.k. einum af stjórnarflokkunum, er vafalítið annt um að forðast meiri spjöll á Þjórsá. Það er því ekki víst að Hvammsvirkjun verði að veruleika a.m.k. í bili. Þá vaknar spurningin hvaða aðrir valkostir séu mögulegir?
Hvaða aðrir valkostir eru í boði?
Aðrir líklegustu möguleikar af hálfu Landsvirkjunar virðast vera Holtavirkjun (sem myndi rísa aðeins neðar í Þjórsá en Hvammsvirkjun), stækkun Kröfluvirkjunar og/eða Blönduveita. HS Orka stefnir að jarðvarmavirkjun í Eldvörpum á Reykjanesi. Orkuveita Reykjavíkur (þ.e. Orka náttúrunnar) virðist ekki hyggja á framkvæmdir við nýjar aflstöðvar í bili, heldur einbeita sér að því að bora eftir meiri jarðgufu til þess að ná að viðhalda raforkuframleiðslunni í Hellisheiðarvirkjun, sem því miður hefur farið mjög hnignandi.
Það eru sem sagt uppi áætlanir um nokkrar stórar virkjanir og þá fyrst og fremst af hálfu Landsvirkjunar. Í reynd er þó ekki augljóst hvaða virkjanir rísa hér næst. Bæði er að Rammaáætlun er ekki alveg að reynast sú sáttagjörð sem vænst var og svo virðist hin nýja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur nokkuð líkleg til að vilja skoða aðra möguleika. Hvort þar kæmu til greina virkjanir í neðri hluta Þjórsár og/eða t.a.m. stækkun Kröfluvirkjunar, Blönduveita eða aðrar framkvæmdir er óvíst.
Nokkuð langt í næstu stóru virkjanir
Undanfarið hefur líka mikið verið rætt um Hvalárvirkjun á Ströndum. Hún er háð nokkuð mikilli uppbyggingu í flutningskerfi Landsnets og virðist hæpið að hún rísi í bráð. Nokkrar smærri virkjanir eru í farvatninu, eins og Brúarvirkjun og Svartárvirkjun, en þær myndu bæta við um 150 GWst. Ennþá er þó óvíst um framkvæmdahraðann þar, auk þess sem þetta eru litlar og sennilega ekki mjög hagkvæmar virkjanir.
Þegar litið er til jarðvarmans, þá virðist fremur ólíklegt að ný virkjun verði risin í Eldvörpum fyrr en eftir fjöldamörg ár, enda þurfa miklar rannsóknir að fara þar fram áður en virkjað verður. Sama má kannski segja um stækkun Kröfluvirkjunar; þar er enn töluvert í að framkvæmdir geti hafist. Eftir að lokið verður við hina nýju Búrfellsvirkjun og Þeistareykjavirkjun gæti því verið nokkuð langt í að ráðist verði í framkvæmdir við næstu umtalsverða virkjun meira vatnsafls eða jarðvarma á Íslandi.
Það er sem sagt nokkur óvissa um það hvernig útvega á þær u.þ.b. 1.000 GWst sem þarf í viðbót af raforku á komandi áratug eða þar um bil. Og sennilega rökrétt að gera ráð fyrir því að finna þurfi fleiri eða aðra hagkvæma kosti, sem eru líklegir til að geta bætt umræddu orkumagni inn á íslenska raforkumarkaðinn innan áratugar.
Að fanga afl vindsins gæti verið besta leiðin
Núverandi óvissa um nýjar aflstöðvar þarf þó ekki að skapa orkuvandræði. Því það eru sannarlega til ýmsar prýðilegar leiðir til að mæta raforkuþörfinni. Raunhæft er að verulegum hluta af umræddum 1.000 GWst verði mætt með vindafli. Þar gæti orðið um að ræða vindmyllur upp á samtals nokkur hundruð megavött.
Þetta gæti dreifst á nokkra vindmyllugarða af hóflegri stærð; kannski þrjá til fimm talsins, þar sem hver þeirra væri á bilinu u.þ.b. 10-25 vindmyllur. Einn kostur vindorkunnar er sá að einfalt er að reisa vindmyllur nokkuð hratt, þ.e.a.s. bæta jafnóðum við aflið. Fyrir vikið er fjárfestingaþörfin í upphafi ekki eins mikil eins og oft þegar er ráðist í stórar vatnsaflsvirkjanir eða dýrar rannsóknir og uppbyggingu á nýjum jarðvarmasvæðum. Þarna væri því um að ræða raunhæfa, hagkvæma og umhverfisvæna leið til að mæta vaxandi raforkuþörf komandi ára.
Ekki liggur á að virkja Skrokköldu eða meira í Þjórsá
Um leið og farið yrði í að reisa hér hóflega vindmyllugarða, gæti Landsvirkjun mögulega ráðist í Blönduveitu og eftir atvikum samhliða reist fyrsta áfanga fyrirhugaðs s.k. Blöndulundar. Fyrsti áfanga slíks vindmyllugarðs við Blönduvirkjun gæti t.d. verið um 50 MW. Með honum og fleiri vindorkuverkefnum mætti eftir atvikum bæta alls um 200-400 MW af vindafli í kerfið á ólíkum stöðum á landinu öllu á u.þ.b. tíu ára tímabili. Það afl myndi mæta verulegum hluta af aukinni raforkueftirspurn á komandi áratug.
Það er sem sagt ekki nauðsynlegt að ráðast í stórar virkjanir eins og Hvammsvirkjun eða Holtavirkjun í Þjórsá. Og ekki er heldur nauðsynlegt að reisa hálendisvirkjunina sem kennd er við Skrokköldu. Enn síður yrði þörf á nýjum jarðvarmavirkjunum alveg á næstunni, en slík verkefni eru bæði nokkuð áhættusöm og dýr. Hagkvæm og umhverfisvæn vindorka kann að vera skynsamasti valkosturinn til að fullnægja aukinni raforkueftirspurn komandi ára. Við staðarval yrði í forgangi að gæta vel að sjónrænum áhrifum, verndun fugla og auðveldri tengingu við raforkukerfið.
Hægari uppbygging kísilvera hefði áhrif á uppbyggingu nýrra aflstöðva
Hafa ber í huga að vegna óvissu um framtíð kísilvinnslu í Helguvík gæti ný aflþörf á komandi árum orðið töluvert minni en hér hefur verið rakið. Komi ekki til þess að kísilver Thorsil rísi og/eða starfsemi United Silicon fari ekki aftur af stað, er ennþá lengra í að þörf verði á t.a.m. Hvammsvirkjun eða Skrokkölduvirkjun en ella. Um leið yrði uppbygging vindafls á komandi áratug mögulega ekki umfram það lágmark sem hér hefur verið lagt til, þ.e. um 200 MW.
Þrír til fimm nettir á næstu tíu árum
Samkvæmt ofangreindu væri eðlilegt að orkustefna stjórnvalda til næstu ára myndi miðast við að hér á Íslandi rísi u.þ.b. þrír til fimm vindmyllugarðar á næsta áratug eða svo. Uppsett afl hvers þeirra gæti verið á bilinu 40-80 MW og yrðu á bilinu u.þ.b. 10-25 vindmyllur. Um leið yrði unnt að fara hægar í að reisa hér nýjar vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir og eftir atvikum mætti jafnvel fremur vernda slík svæði, þ.e. lítt snert vatnsföll og háhitasvæði.
Skynsamlegt gæti verið fyrir stjórnvöld að hámarka bæði orkufaglegan- og umhverfislegan árangur með því t.d. að hvetja til samvinnu öflugra orkufyrirtækja og sveitarfélaga sem áhuga hafa á að koma svona vindmylluverkefnum í framkvæmd. Þar væri kannski viðeigandi að ríkisvaldið setti sveitarfélögum tiltekin viðmið eða leiðbeiningar, sem einkum miðuðu að því að gæta að sjónrænum áhrifum og fuglalífi.
Noregur áhugaverð fyrirmynd
Þarna gæti norsk löggjöf verið góð fyrirmynd, en Norðmenn hafa einmitt verið afar farsælir í raforkuuppbyggingu sinni og hafa þar staðið skynsamlega að bæði uppbyggingu vatnsafls og vindafls. Þá eru aðstæður í Noregi ekki ósvipaðvar eins og hér, svo sem þegar litið er til strjálbýlis og heiðarlanda eða hálendis. Þá hafa Norðmenn sögulega staðið með afar áhugaverðum hætti að skattlagningu raforkugeirans. Það er því ýmislegt sem mælir með því að hafa hliðsjón af norska kerfinu. Um leið gæti verið skynsamlegt að útbúa regluumhverfi um aðgang vindmyllugarða að varaafli, þar sem einkum vatnsaflsvirkjanir og miðlunarlón Landsvirkjunar yrðu í mikilvægu hlutverki við sveiflujöfnun.
Samstarf sveitarfélaga og reyndra vindorkufyrirtækja
Væntanlega er eðlilegast að sveitarfelögin sjái sjálf um að meta staðarval vindmyllugarða, m.a. út frá umhverfislegum og viðskiptalegum forsendum, í samstarfi við framkvæmdaaðila. Slíkt samstarf heimafólks og fyrirækja með bestu þekkingu og reynslu á vindorkuverkefnum gæti reynst farsæl leið til að tryggja hér nóg framboð af rafmagni.
Með slíkri samvinnu mætti stuðla að sem bestum árangri og sem mestri sátt um verkefnin. Um leið myndi þetta skila auknum tekjum til sveitarfélaga, svo og til bænda og annarra landeigenda.
Samtímis yrðu hér sköpuð ný verðmæti með því að nýta vindinn sem blæs um landið. Og þar með bætt nýrri og áhugaverðri stoð í endurnýjanlega orkuframleiðslu Íslands! Þarna eru tækifæri sem ástæða er til að veita athygli, enda getur nýting vindsins á Íslandi verið skynsamleg bæði fjárhagslega og umhverfislega. Og orðið farsæl leið til að uppfylla aukna raforkuþörf á komandi árum.
Gleðilegt nýtt ár!
Höfundur er MBA frá CBS í Danmörku, kenndi um árabil umhverfisrétt og fleiri greinar við lagadeild HÍ og vinnur nú, í samstarfi við evrópskt vindorkufyrirtæki, að undirbúningi þess að reisa vindmyllugarð(a) hér á landi.